Fara beint í efnið

Prentað þann 24. nóv. 2024

Breytingareglugerð

45/2023

Reglugerð um breytingu á reglugerð um frádrátt frá tekjum erlendra sérfræðinga, nr. 1202/2016.

1. gr.

2. gr. reglugerðarinnar orðist svo:

Erlendur sérfræðingur og skilyrði frádráttar.

Erlendum sérfræðingum, sem ráðnir eru til starfa hér á landi frá og með 1. janúar 2017 og eru skattskyldir á grundvelli 1. gr. eða 1. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er heimilt fyrstu þrjú árin frá ráðningu í starf að draga 25% frá tekjum skv. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laganna, sem greidd eru fyrir sérfræðistörf enda séu skilyrði 2. og 3. mgr. uppfyllt.

Erlendur sérfræðingur, óháð ríkisborgararétti, í skilningi reglugerðar þessarar, sbr. einnig 6. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skal uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  1. hann hafi ekki verið búsettur eða heimilisfastur hér á landi á því 60 mánaða samfellda tímabili sem næst er fyrir upphaf starfa hans hér á landi, en þó að frátöldum fyrstu þremur mánuðum dvalar hérlendis; og
  2. hann búi yfir þekkingu eða reynslu sem ekki er fyrir hendi hér á landi eða einungis í litlum mæli.

Ákvæði 1. og 2. mgr. gilda þó einungis ef hinn erlendi sérfræðingur:

  1. er ráðinn til starfa sem sérfræðingur og njóti launa sem slíkur hjá lögaðila sem hefur lögheimili eða fasta starfsstöð hér á landi; og
  2. sinni verkefnum er krefjast sérþekkingar og reynslu sem ekki er fyrir hendi hér á landi eða í litlum mæli; og/eða
  3. starfi á sviði rannsókna, þróunar og/eða nýsköpunar, kennslu eða við úrlausn og/eða uppbyggingu sérhæfðra verkefna;
  4. sinni framkvæmda- eða verkefnastjórnun eða öðrum verkefnum sem eru lykilþættir í starfsemi fyrirtækisins.

2. gr.

3. gr. reglugerðarinnar orðist svo:

Form og skilyrði umsóknar.

Umsókn um frádrátt samkvæmt 2. gr. skal borin undir sérstaka nefnd, sbr. 5. og 6. gr., er metur hvort viðkomandi starfsmaður uppfylli sett skilyrði samkvæmt reglugerð þessari. Umsókn skal berast nefndinni eigi síðar en þremur mánuðum frá þeirri dagsetningu sem starfsmaður hóf störf hérlendis ella skal henni hafnað.

Í umsókninni sem skal vera skrifleg og ítarlega rökstudd með fylgigögnum komi eftirfarandi fram:

  1. fullt nafn og heimilisfang/aðsetur viðkomandi starfsmanns hér á landi ásamt staðfestingu Þjóðskrár Íslands þar á og því að skilyrði a-liðar 2. mgr. 2. gr. séu uppfyllt;
  2. staðfesting á ráðningarsamningi ásamt upplýsingum um laun og hvers konar hlunnindi; og
  3. staðfest gögn eftir því sem við á, er sýna fram á sérþekkingu eða reynslu, s.s. upplýsingar um menntun, starfsreynslu (ferilskrá) eða annað sem sýnir fram á sérþekkingu og/eða sérhæfingu; og
  4. greinargerð frá launagreiðanda um að umrædd sérþekking eða reynsla sé ekki fyrir hendi hér á landi eða í litlum mæli; og
  5. önnur gögn sem umsækjandi telur skipta máli.

3. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 6. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, öðlast þegar gildi.

Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 23. janúar 2023.

F. h. r.

Helga Jónsdóttir.

Ingibjörg Helga Helgadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.