Fara beint í efnið

Prentað þann 22. des. 2024

Breytingareglugerð

18/2001

Reglugerð um breyting á reglugerð nr. 192/1993, um innskatt, með síðari breytingum.

1. gr.

6. tölul. 2. gr. reglugerðarinnar orðast svo:
Öflun, þ.m.t. leigu, og rekstur hópbifreiða og fólksbifreiða, þ.m.t. skutbifreiða (station) og jeppa, enda hafi skattaðili ekki með höndum sölu eða leigu þessara bifreiða. Sama á við um þær sendi- og vörubifreiðir með leyfða heildarþyngd 5000 kg eða minna sem ekki uppfylla ákvæði 9. gr. reglugerðar þessarar um gerð og búnað.

2. gr.

9. gr. reglugerðarinnar orðast svo:
Ákvæði 5. og 6. gr. taka ekki til virðisaukaskatts vegna öflunar, þ.m.t. leigu, eftirtalinna ökutækja:
1. Sendi- og vörubifreiða með leyfða heildarþyngd 5000 kg eða minna, sem uppfylla eftirtalin skilyrði:
a. Skráð flutningsgeta í fólksrými skal vera minni en helmingur af skráðri burðargetu bifreiðar. Miða skal við að hver maður vegi 75 kg.
b. Farmrými, opið eða lokað, aftan við öftustu brún sætis eða milliþils skal vera a.m.k. 1700 mm að hleðsludyrum eða hlera. Sé það styttra skal það þó vera lengra en fólksrýmið, mælt frá miðri framrúðu.
c. Í farmrými mega hvorki vera sæti né annar búnaður til farþegaflutninga. Sé fólks- eða hópbifreið breytt í sendi- eða vörubifreið skulu með varanlegum hætti fjarlægð úr farmrými sæti ásamt sætisfestingum og öðrum búnaði til fólksflutninga.
2. Bifhjóla.
3. Torfærutækja, þ.e. vélsleða, tví-, þrí-, fjór-, fimm- og sexhjóla.
4. Loftpúðatækja.

Óheimilt er að telja til innskatts virðisaukaskatt vegna öflunar, þ.m.t. leigu, framangreindra ökutækja nema þau séu eingöngu notuð í virðisaukaskattsskyldri starfsemi, þ.e. vegna sölu á vörum og skattskyldri þjónustu. Öll önnur notkun þeirra, svo sem einkanot eiganda rekstrar og starfsmanna hans og notkun í þágu starfsemi er fellur utan skattskyldusviðs virðisaukaskatts, veldur því að óheimilt er að telja til innskatts virðisaukaskatt af öflun ökutækjanna. Akstur eiganda eða starfsmanns til og frá heimili telst í öllum tilvikum til einkanota í þessu sambandi og það eins þótt aksturinn sé jafnframt í þágu starfseminnar eða á annan hátt að kröfu rekstraraðila.

Frá ákvæði 2. mgr. er sú eina undantekning að eiganda rekstrar eða starfsmanni hans eru heimil takmörkuð einkanot, án þess að það komi í veg fyrir að til innskatts sé talinn virðisaukaskattur af öflun bifreiðar skv. 1. tölul. 1. mgr. Í hugtakinu takmörkuð einkanot felst eingöngu akstur milli heimilis þess sem afnotaréttinn hefur og starfsstöðvar fyrirtækis. Eftirtöldum skilyrðum undantekningarinnar þarf að vera fullnægt:
1. Afnotaréttur eiganda eða starfsmanns hans sé að fullu talinn til virðisaukaskattsskyldrar veltu á skattverði sem er það sama og hlunnindamat ríkisskattstjóra, vegna takmarkaðra afnota launþega af bifreið launagreiðanda síns, í skattmati vegna staðgreiðslu opinberra gjalda á hverjum tíma.
2. Áður en einkanot hefjast, eða breytingar verða á slíkum notum, tilkynni rekstraraðili til skattstjóra um hinn fyrirhugaða afnotarétt, þ.m.t. hver njóta muni, í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.
3. Við afdrátt og skil staðgreiðslu opinberra gjalda telji rekstraraðili (launagreiðandi) starfsmanni til launa þau hlunnindi er í afnotaréttinum felast.

Skilyrði þess að telja megi til innskatts virðisaukaskatt af öflun, þ.m.t leigu, bifreiðar skv. 1. tölul. 1. mgr. er að hún sé búin sérstökum skráningarmerkjum með rauðum stöfum á hvítum grunni, sbr. 14. gr. reglugerðar nr. 78/1997, um skráningu ökutækja með síðari breytingum. Skilyrðið tekur þó ekki til eignarleigufyrirtækja og bílaleigufyrirtækja að því er varðar bifreiðir sem þau selja á leigu í virðisaukaskattsskyldri starfsemi sinni.

Hafi skattaðili talið til innskatts virðisaukaskatt af öflun ökutækis slíks sem um ræðir í 1. mgr., en tekur það síðar til notkunar sem heimilar honum minni eða engan frádráttarrétt, skal hann tilkynna skattstjóra þar um áður en notkun er breytt og láta fjarlægja hin sérstöku skráningarmerki sem um ræðir í 4. mgr.

Komi í ljós að skilyrði þessarar greinar til færslu innskatts af öflun ökutækis hafa ekki verið haldin, þ.m.t. skilyrði um tilkynningar, er skattstjóra rétt að fella niður innskatt af öflun viðkomandi bifreiðar.

Ákvæði 3.-6. gr. gilda um útreikning innskatts vegna reksturs þeirra ökutækja sem um ræðir í 1. mgr.

3. gr.

10. gr. reglugerðarinnar verður svohljóðandi:
Þrátt fyrir ákvæði þessa kafla mega þeir virðisaukaskattskyldu aðilar, sem undanþegnir eru tekjuskatti og eignarskatti skv. 4. gr. laga nr. 75/1981, einungis telja til innskatts virðisaukaskatt af þeim aðföngum og rekstrarfjármunum sem eingöngu varða sölu á skattskyldri vöru eða þjónustu. Hið sama á við um innskatt af skattskyldum eigin notum þeirra er greinir í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Þó er opinberum þjónustufyrirtækjum, sem selja skattskyldar vörur eða þjónustu til annarra og skattskyld eru skv. 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988, heimilt að færa til innskatts virðisaukaskatt af aðföngum og rekstrarfjármunum, öðrum en fasteignum, að því leyti sem þau teljast varða virðisaukaskattsskyldan rekstur þeirra, með sama hætti og greinir í 6. gr. reglugerðar þessarar. Skilyrði slíks hlutfallslegs innskattsfrádráttar er að hinn virðisaukaskattsskyldi þáttur í starfsemi fyrirtækisins sé fjárhagslega og bókhaldslega skýrt aðgreindur frá öðrum þáttum í starfsemi þess.

4. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 2. mgr. 16. gr., sbr. 49. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, og öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

Frá og með gildistöku reglugerðar þessarar falla úr gildi allar heimildir varðandi bifreiðir sérútbúnar til viðgerðarþjónustu, sem skattstjórar hafa veitt á grundvelli 3. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 192/1993 eins og það ákvæði hljóðaði eftir gildistöku 3. gr. reglugerðar nr. 532/1993, um breyting á hinni fyrrnefndu reglugerð.

Fyrir 1. mars 2001 skulu þeir rekstraraðilar, sem fengið hafa heimildir þær sem tilteknar eru í 1. mgr., tilkynna til skattstjóra um afnotarétt skv. 3. mgr. 2. gr. reglugerðar þessarar og umskrá viðkomandi bifreiðir yfir á skráningarmerki með rauðum stöfum á hvítum grunni, sbr. 5. mgr. 2. gr. reglugerðar þessarar, hyggist þeir nýta sér þá heimild sem í nefndri 3. mgr. 2. gr. felst.

Fjármálaráðuneytinu, 12. janúar 2001.

F. h. r.
Baldur Guðlaugsson.

Maríanna Jónasdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.