Fara beint í efnið

Prentað þann 21. des. 2024

Stofnreglugerð

5/1916

Reglugerð um Þjóðskjalasafnið í Reykjavík.

1. gr.

Í Þjóðskjalasafni Íslands eru þau skjalasöfn, er nú greinir:

  1. Skjalasafn höfuðsmanna, stiftamtmanna, landshöfðingja og stjórnarráðs.
  2. Skjalasafn stiftsyfirvalda (sem nú er lokið).
  3. Skjalasafn amtmanna (sem nú er lokið).
  4. Skjalasafn hinna fornu biskupsstóla og biskupsdæmisins, ásamt skjalasöfnum prófastsdæma, kirkna og prestakalla.
  5. Skjalasafn landsyfirdóms og hins forna yfirrjettar og lögþingisrjettar.
  6. Skjalasafn landlæknis.
  7. Skjalasafn landfógeta (sem nú er lokið).
  8. Skjalasafn endurskoðunar umboðsvaldsins.
  9. Skjalasafn alþingis.
  10. Skjalasöfn sýslumanna og bæjarfógeta.
  11. Skjalasöfn hjeraðslækna.
  12. Skjalasöfn umboðsmanna (þjóðjarða).
  13. Skjalasöfn hreppstjóra.
  14. Skjalasöfn sýslunefnda, hreppsnefnda og bæjarstjórna.
  15. Skjalasöfn sáttanefnda.
  16. Skjalasöfn bólusetjara.
  17. Skjalasöfn allra skóla og mentastofnana, er landssjóður kostar.
  18. Skjalasöfn allra opinberra sjóða, hvort heldur það eru sjóðir stofnaðir af því opinbera eða sjóðir, sem gefnir eru af einstökum mönnum til almennra þarfa.
  19. Skjalasöfn landsbankans.
  20. Skjalasöfn allra opinberra sýslana eða stofnana, er settar kunna að verða, svo og öll önnur skjalasöfn, er með lögum eða sjerstökum fyrirskipunum mega verða lögð undir Þjóðskjalasafnið.

Þeir, sem hafa skjalasöfn þessi til geymslu, skulu skyldir að annast um, að þau skjöl og bækur hvers safns, sem eldri eru en 20 ára, verði send til Þjóðskjalasafnsins. Þó skal eigi skylt að senda úr skjalasöfnunum skjöl, sem heyra til málum yngri en 20 ára, eða bækur, er eitthvað er í yngra en 20 ára, nema sjerstaklega standi á og landstjórnin skipi svo fyrir. Með skjatasendingum og bóka til Þjóðskjalasafnsins skal jafnan fylgja nákvæm skrá tvírituð yfir skjölin og bækurnar, og skal annað eintakið geymt í Þjóðskjalasafninu, en á hitt ritar Þjóðskjalavörður viðurkenning um móttöku skjala og bóka, og skal það eintak svo geymt í safni því, er í hlut á. Hverri sendingu frá hjeruðum utan skal og fylgja skrá um bækur þær og skjöl, sem þá eru eftir ósend, og skal talið alt til þess tíma, sem þá er komið. Þess skal vandlega gætt af embættis- og sýslunarmönnum landsins, að þeir afhendi öll skjöl og bækur skjalasafninu í góðri reglu, og eftir því sem unt er í þeirri röð, að þau geti framvegis geymst í skjalasafninu með þeim ummerkjum, sem þau eru afhent.

Eru öll þessi ofangreindu söfn í heild sinni lögð undir umsjón sjerstaks skjalavarðar.

2. gr.

Skjalavörðurinn við Þjóðskjalasafnið sjer um, að safnið sje í góðu skipulagi og sje haldið í góðri reglu, og geymir þess, að gætt sje þeirra ákvæða um meðferð og afnot skjalasafnsins, sem sett eru með þessari reglugjörð. Hann skal við hver áramót senda landstjórninni skýrslu um ástand þess, á hvern hátt unnið hefir verið að niðurröðun safnsins, og hve mikið og af hve mörgum það hefir verið notað á hinu liðna ári. Í þá skýrslu skal og koma hvað annað, er ástæða kann að vera til að taka þá fram um safnið.

Skjalavörður skal gera svo fljótt, sem því verður við komið, yfirlitsskrá yfir allar bækur og skjöl (skjalaböggla) safnsins; skal prenta hana, er fje er fyrir hendi, og senda hana öllum þeim, er sent hafa bækur og skjöl til safnsins, en síðan skal geyma skrá þessa á skjalasöfnum allra embættismanna og sýslunarmanna annarstaðar en í Reykjavík.

3. gr.

Geyma skal skjalavörður þess, að eigi sje farið með ljós eða eld um herbergi þau, er safnið er varðveitt í, og með öllu er bannað að reykja þar tóbak.

Harðlega er og öllum þeim, er nota Þjóðskjalasafnið, bannað að skrifa nokkuð í eða á bækur þær og skjöl, er þeir fá til afnota á lestrarsal safnsins, hvort heldur það er með blýanti eða bleki eða á annan hátt. Eigi heldur mega þeir brjóta blöð eða gera stryk undir orð, setningar eða linur og engin merki gera í skjölin eða bækurnar. Þeir skulu hafa hljótt um sig og vera þokkalega búnir og hreinir um hendur, svo að eigi klikki þeir nje óhreinki skjöl þau, er þeir handleika. Sje þessara ákvæða ekki gætt, getur skjalavörður neitað mönnum um að nota safnið.

4. gr.

Skjalavörður skal og vandlega gæta þess, að ekkert það gangi undan safninu, er það er rjettur eigandi að. Hafi og skjöl úr því eða einstökum deildum þess flækst eða verið numin burt úr því, verið ljeð og eigi skilað aftur, eða sje á einhvern annan hátt komin þaðan ófyrirsynju, ber skjalaverði að rannsaka í hvern stað slík skjöl sjeu niðurkomin, að gera megi ráðstafanir til þess að safnið nái að njóta eignar sinnar.

5. gr.

Þjóðskjalasafnið skal vera opið til afnota fyrir almenning fimm stundir hvern virkan dag, kl 12--3 og 6--8 siðdegis. Eigi skal þó í heild sinni leyfa að nota yngri skjöl en þau, sem eru 35 ára gömul. Þó er skjalaverði heimilt at leyfa að nota yngri skjöl, sem eru þess eðlis, að honum þyki það óhætt, en jafnan getur hann krafist skýlausrar yfirlýsingar þess, er nota vill, að eigi ætli sá að beita skjölum þeim til vanvirðu eða skapraunar neinum manni, er þá sje enn á lífi, nje nánustu vandamönnum hans. Þykist skjalavörður ekki einhlítur um að leyfa afnot einhverra skjala, eða til að veita staðfestar afskriftir nýlegra skjala til málasókna, skýtur hann því efni undir úrskurð landstjórnarinnar.

6. gr.

Eigi skal ljá einstökum mönnum nein skjöl út úr safninu. En heimilt er skjalaverði að ljá skjöl úr safninu til afnota á öðrum jafntryggum stað í Reykjavík. Engin skjöl má ljá til útlendra safna eða út fyrir Reykjavík, nema með leyfi landstjórnarinnar; en skylt er skjalaverði að veita embættismönnum, sýslunarmönnum, hreppsnefndum og öðrum, er eiga heimili annarstaðar en í Reykjavík, staðfestar afskriftir af eða úr skjölum eða embættisbókum í skjalasafninu, ef þeir beiðast þess og ætla má, að þeim eða öðrum sje slíkt nauðsynlegt, enda komi skjalaverði sanngjörn þóknun fyrir. Ef afskriftin er nauðsynleg vegna embættis-, sýslunar-, kirkju- eða fátækramála, eða hana skal á annan hátt nota í þarfir hins opinbera, þá skal þóknun þessi greiðast af landssjóði; að öðrum kosti skal hún greidd af þeim, sem biður um afskriftina, samkvæmt lögum þeim, er nú gilda (sbr. lög 2. febr. 1894, 3. og 11. gr., og tilsk. 21. des. 1831, VI, 1.--5. gr.) eða gildandi kunna að verða hjer á landi um þetta efni.

Sje hins vegar um slíkar afskriftir að ræða, er sjeu svo lagaðar, að þær taki mikinn tíma, svo sem ef taka þarf endurrit af fornum skjölum, hvort sem það er í þarfir hins opinbera eða einstakra manna, sem erfið sjeu aflestrar og vandasöm, þá skal skjalavörður reikna þá þóknun, er honum ber fyrir það, eftir tímalengd þeirri, er til þess hefir gengið, og miða endurgjaldið við borgun þá, sem vani er að greiða af almannafje um klukkustundina fyrir sviplíkan starfa. Slíkt hið sama er um rannsóknir eða eftirgrenslanir, sem gera verður á óvísa vegu, þegar rannsóknarbeiðandi getur ekki bent á, hvar þess sje að leita, sem um er spurt. Verði ágreiningur um borgunina, leggur stjórnarráðið úrskurð á málið.

Nú er eforð á því, hvort einhver afskrift eða rannsókn sje í þarfir hins opinbera eða ekki, og sker þá stjórnarráðið úr þeim vafa.

7. gr.

Skjalavörður skal rannsaka, hvað sje það af skjölum í safninu nú sem stendur, er gagnslaust megi þykja að geyma, og ónýta skuli. Skal hann, þegar því starfi er lokið, skýra landstjórninni frá rannsókn sinni, og segir hún til, hversu með skuli fara, og setur reglur um ónýting skjala framvegis, er skjalavörður fer síðan eftir.

8. gr.

Kunni nokkurt rit að verða gefið út af safnsins hálfu, svo að á ábyrgð þess sje og kostnað, svo sem skýrsla um það, skrá um pað eða einstaka hluti þess, eða safn af ýmsu því, er í safninu geymist og þarflegt kann að þykja, að út sje gefið, hefir Þjóðskjalavörður umsjón með útgáfu allra slíkra rita.

Slíkt hið sama sjer Þjóðskjalavörður um afskriftir þær allar, er gerðar kynnu að verða í þarfir Þjóðskjalasafnsins af skjölum eða skrifum úr öðrum söfnum, hvort heldur einstakra manna eða opinberum skjala- eða bókasöfnum, innlendum eða útlendum, og ákveður hann bæði, hvað rita skuli og hversu afskriftunum skuli hagað, svo og, hvort slík skjöl skuli heldur afrituð handa skjalasafninu eða ljósmynduð.

Aðstoðarmenn þeir, eða aðstoðarskjalaverðir við skjalasafnið, er stjórnarráðið skipar, standa undir umsjón Þjóðskjalavarðar að því, er störf þeirra snertir við safnið.

9. gr.

Heimilt er að halda skjalasafninu lokuðu 3 vikna tíma að sumrinu, en þó skal þess gætt, að það sje ekki á sama tíma og landsbókasafnið kynni að vera lokað fyrir almenningi.

10. gr.

Reglugjörð um landsskjalasafnið frá 27. maí 1911 er hjermeð úr gildi numin.

Í stjórnarráði Íslands, 13. janúar 1916.

Einar Arnórsson.

G. Sveinbjörnsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.