Ofnýttur persónuafsláttur (v2)
Reglulega eru sendar tilkynningar til þeirra sem ofnýtt hafa persónuafslátt og/eða hafa greitt staðgreiðslu í röngu skattþrepi. Þau sem fá slíkar tilkynningar greiða ekki nóg í staðgreiðslu og eru líkleg til að lenda í skuld að lokinni álagningu ef ekkert er gert.
Tilkynning um ofnýtingu persónuafsláttar er viðvörun – ekki krafa um greiðslu.
Mikilvægt er að bregðast við og lagfæra nýtingu persónuafsláttar eða láta breyta því í hvaða skattþrepi skattur er reiknaður.
Laun eru skattlögð í þrem mismunandi skattþrepum eftir því hve há þau eru. Ef laun eru skattlögð í of lágu skattþrepi þýðir það að ekki er greiddur réttur skattur og mismunurinn er meðhöndlaður sem ofnýttur persónuafsláttur.
Skoða stöðu nýtingar
Á þjónustuvef Skattsins er hægt að sjá hvernig persónuafsláttur hefur verið nýttur. Staðan er uppfærð jafnóðum og gögn berast frá launagreiðendum. Best er að skoða yfirlitið eftir 17. hvers mánaðar þegar allar upplýsingar hafa borist.
Á yfirlitinu sést ef nýting persónuafsláttar fer yfir leyfilegt hámark hvers mánaðar.
Þú getur skoðað leyfilega hámarksnýtingu eftir mánuðum til að bera saman við þína nýtingu.
Viðbrögð við ofnýttum persónuafslætti
Fyrst þarf að skoða yfirlit yfir nýtinguna á þjónustuvef Skattsins og sjá hve mikið hefur verið ofnýtt. Því næst þarf að kortleggja stöðuna og bregðast við.
Er ofnýtingin hjá mér eða maka?
Athugaðu að tilkynning er send á báða aðila jafnvel þó ofnýting sé aðeins hjá öðrum.
Leiðrétta ofnýtingu
Þetta má gera með því annað hvort hætta alveg að nota persónuafslátt í nokkra mánuði, eða takmarka nýtinguna þar til hún er komin niður í leyfilegt hámark. Upplýsa þarf launagreiðendur um hvernig þú vilt nýta persónuafsláttinn þannig að heildarnýtingin fari ekki yfir hámark ársins.
Leiðrétta skattþrep
Biðja þarf launagreiðendur um að reikna staðgreiðslu í réttu skattþrepi (þrepi tvö eða þrjú eftir því sem við á).
Ef ekki er brugðist við má gera ráð fyrir að ofnýtingin verði að skuld við álagningu (þegar tekjuárið er gert upp).
Nýtingin er rétt en ég fékk samt tilkynningu um ofnýtingu
Ef nýting persónuafsláttar er rétt og er í samræmi við launaseðla þarf að athuga hvort skattur sé greiddur í réttum skattþrepum. Þú ættir að sjá það í yfirliti yfir greidd laun og persónuafslátt.
Laun frá fleiri en einum launagreiðanda
Þau sem fá greiðslur frá fleiri en einum launagreiðanda eða lífeyrissjóði þurfa að huga að því að ákvarða skattþrep rétt og hvort nýta eigi persónuafsláttinn aðeins hjá einum launagreiðanda.
Ef mánaðarlaun fara yfir 472.005 kr. hjá einum launagreiðanda þurfa aðrir launagreiðendur að reikna staðgreiðslu af launum í næsta skattþrepi fyrir ofan. Ef mánaðarlaun fara yfir 1.325.127 kr. reiknast staðgreiðsla í þrepi þrjú af þeim hluta sem fer yfir þá upphæð.
Er þetta skuld sem þarf að borga núna?
Ef þú bregst við strax er oft hægt að komast hjá skuld við álagningu. Ef ekkert er að gert greiðir þú ekki nóg í staðgreiðslu ársins sem leiðir af sér að skuld í álagningu verður innheimt með 2,5% álagi.
Til að breyta nýtingu persónuafsláttar eða skattþrepi hefur þú samband við launagreiðanda og biður um að breytingar verði gerðar þangað til nýtingin hefur jafnast út.

Þjónustuaðili
Skatturinn