Fara beint í efnið

Lögbrot og refsing

Talið er réttmætt og líklegt til árangurs gegn afbrotum að refsa þeim sem brýtur lög. Samkvæmt lögum á refsiþyngdin að endurspegla alvarleika brotsins.

Brotaþoli

Ef maður telur að brotið hafi verið gegn sér eða öðrum skal hann kæra málið til lögreglu hið fyrsta, annað hvort á næstu lögreglustöð eða með símtali.
Lögreglan

Lögreglu er skylt eftir því sem við á að leiðbeina brotaþola um réttindi hans og útskýra framhald máls. Þegar mál hefur verið kært fer af stað flókið og oft á tíðum tímafrekt ferli.
Upplýsingar fyrir þolendur afbrota, bæklingur á vef dómsmálaráðuneytis (pdf, 339 kb)

Ef maður þarf aðstoð lögmanns til að gæta réttar síns er hægt að leita til Lögmannafélags Íslands.
Lögmenn og þjónusta á vef Lögmannafélags Íslands

Brotaþoli getur átt rétt á bótum vegna skaða, líkamstjóns eða miska.

Lögbrot

Dómskerfið er lögregla og ákæruvald annars vegar og dómstólar hins vegar.

Ríkissaksóknari, héraðssaksóknari og lögreglustjórar, að undanskildum ríkislögreglustjóra, fara með ákæruvald í öllum meginatriðum.

Rannsókn opinberra mála er í höndum lögreglu. Komi í ljós við rannsókn að refsivert brot hafi verið framið er meintum brotamanni birt ákæra, telji ákærandi málið nægilegt eða líklegt til sakfellis.

Sé fyrir hendi rökstuddur grunur um að maður hafi brotið gegn lögum getur lögregla krafist gæsluvarðhalds sem er tímabundin frelsissvipting. Fyrir því eru hins vegar ströng skilyrði í lögum.

Ríkið sem sækjandi/ákærandi höfðar mál gegn ákærða/sakborningi. Ákærði á alltaf rétt á að taka til varna í sakamáli. Einkamál eru mál sem einstaklingar, félög eða stofnanir höfða á hendur öðrum einstaklingum eða lögpersónu.

Ríkissaksóknari heldur sakaskrá ríkisins en í hana eru færðar tilteknar upplýsingar um lok opinberra mála/sakamála.

Maður, 18 ára eða eldri, getur sótt um sakavottorð sitt rafrænt á Ísland.is, skriflega hjá sýslumönnum eða á skrifstofu lögreglustjóra í hverju umdæmi fyrir sig. Ungmenni 15 til 18 ára þurfa að fá samþykki forráðamanns til að fá sakavottorð sitt.

Dómstig eru þrjú. Héraðsdómstólar, átta talsins, Landsréttur og Hæstiréttur.

Ef vafi leikur á um sakhæfi sakbornings vegna andlegs og/eða líkamlegs sjúkleika eru sérfræðingar fengnir til að meta ástand viðkomandi.

Börnum og ungmennum yngri en 15 ára er ekki refsað fyrir brot. Tekið er á brotinu sem barnaverndarmáli.

Þegar dómur hefur fallið í héraði er hægt að áfrýja honum til Landsréttar til að fá dóminn endurskoðaðan. Í sérstökum tilvikum og að fengnu leyfi Hæstaréttar má skjóta niðurstöðum Landsréttar til Hæstaréttar.

Sektir, dómar og önnur úrræði

Sáttamiðlun felur í sér að brotamaður og brotaþoli nái sáttum í kjölfar afbrots, án þess að mál fari fyrir dómstóla.

Ef ungmenni á aldrinum 15 til 21 árs gengst við broti er skilorðsbundin frestun ákæru úrræði sem hægt er að beita.

Samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins getur forseti Íslands náðað menn og veitt almenna uppgjöf saka.

Þeir sem eru náðaðir, dæmdir skilorðsbundið eða ákæru frestað gegn eru undir eftirliti Fangelsismálastofnunar eða þeirra sem hún felur eftirlit í ákveðinn tíma.

Fangelsismálastofnun boðar dómþola til afplánunar og sér um fullnustu refsinga.

Fangelsi ríkisins eru fimm.

Brotamaður sem úrskurðaður er ósakhæfur vegna andlegs sjúkleika en talið er nauðsynlegt að hafa undir manna höndum dvelur á Réttargeðdeildinni að Sogni.

Ungmenni á aldrinum 15 til 18 ára afplána dóma yfirleitt á viðeigandi meðferðarstofnun í samráði við Barnaverndarstofu.

Sá sem dæmdur er til óskilorðsbundinnar refsivistar getur sótt um reynslulausn þegar hann er búinn að sitja af sér ákveðinn hluta dóms.

Vert að skoða

Lögbrot

Sektir, dómar og önnur úrræði

Annað

Lög og reglur