Á þessari síðu getur þú fundið upplýsingar um hvernig skráning og meðferð persónuupplýsinga vegna vegabréfsáritana eru unnar af Útlendingastofnun.
Hvað er VIS kerfið?
VIS-kerfið eða upplýsingakerfi um vegabréfsáritanir (Visa Information System) gerir Schengen-ríkjunum kleift að skiptast á vegabréfsáritunargögnum. Það samanstendur af miðlægu upplýsingakerfi og samskiptatækni sem tengir þetta miðlæga kerfi við innlend kerfi. VIS-kerfið tengir ræðisskrifstofur í löndum utan Evrópusambandsins og allar landamærastöðvar á ytri landamærum Schengen-ríkjanna.
Hvernig eru persónuupplýsingar þínar unnar í vegabréfsáritunarmálum?
Upplýsingar sem umsækjandi leggur til í sambandi við umsókn um vegabréfsáritun verða færðar inn og geymdar í íslenska hluta VIS kerfisins (N-VIS) sem og í sameiginlegt VIS kerfi Schengen ríkjanna (C-VIS). Þetta á einnig við um upplýsingar sem umsækjandi og gestgjafa handhafa vegabréfsáritunar kunna að veita í tengslum við umsókn um framlengingu á vegabréfsáritunar. Skráningin er skylda.
N-VIS er tölvustýrð skrá sem Útlendingastofnun hefur umsjá með. C-VIS er tölvustýrð miðlæg vegabréfsáritunarskrá fyrir Schengen ríkin.
Hvaða yfirvöld hafa aðgang að upplýsingunum?
Allar persónuupplýsingar umsækjanda sem koma fram á umsókn um vegabréfsáritun, sem og fingraför og passamynd eru skráðar í íslenska hluta VIS kerfisins (N-VIS) sem og í sameiginlegt VIS kerfi Schengen ríkjanna (C-VIS) þar sem þær eru unnar af viðeigandi yfirvöldum Schengen ríkja, í þeim tilgangi að taka ákvörðun um útgáfu vegabréfsáritunar. Upplýsingarnar eru vistaðar í kerfunum í að hámarki 5 ár og eru á þeim tíma aðgengilegar Útlendingastofnun, starfsstöðvum utanríkisráðuneytisins sem sinna útgáfu vegabréfsáritana og lögreglunni.
Öllum persónuupplýsingum er varða gestgjafa handhafa vegabréfsáritunar sem koma fram í boðsbréfi vegna heimsóknar er miðlað til viðeigandi yfirvalda Schengen ríkjanna og unnar af þeim yfirvöldum, í þeim tilgangi að taka ákvörðun um útgáfu vegabréfsáritunar.
Hver er réttur þinn til að nálgast, leiðrétta eða eyða skráðum persónuupplýsingum?
Þú átt rétt á að vita hvaða persónuupplýsingar um þig hafa verið skráðar um þig í N-VIS og C-VIS kerfunum sem og að vera upplýstu/ur um hvaða aðildarríki hefur skráð þær upplýsingar. Þú átt rétt á að ranglega skráðar persónuupplýsingar þínar séu leiðréttar eða þeim eytt.
Útlendingastofnun er ábyrgðaraðili vinnslu persónuupplýsinga í VIS af hálfu Íslands. Ef þú vilt nýta réttindi þarftu að fylla út meðfylgjandi eyðublað til að óska eftir aðgangi, leiðréttingu eða eyðingu upplýsinga. Eyðublaðið skal senda til Útlendingastofnunar í bréfpósti eða með tölvupósti:
Útlendingastofnun
Dalvegi 18
200 Kópavogi
Íslandi
Netfang: utl@utl.is.
Nauðsynlegt er að láta afrit af persónuskilríki fylgja með framangreindum beiðnum. Sé annar einstaklingur en sá sem upplýsingarnar varða að óska eftir upplýsingum ber að framvísa gildu umboði þess efnis.
Eftirlitsyfirvald
Verði ábyrgðaraðilar ekki við upplýsingabeiðni er hægt að beina kvörtun til persónuverndarstofnunar í því landi. Persónuvernd hefur eftirlit með því að reglum Schengen-samstarfsins um meðferð persónuupplýsinga sé fylgt á Íslandi. Teljir þú að vinnsla persónuupplýsinga sé ekki í samræmi við lög sem um hana gilda getur þú sent erindi til Persónuverndar, postur@personuvernd.is.
Nánari upplýsingar
Á heimasíðu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins er að finna nánari upplýsingar um VIS-kerfið.
Nánari upplýsingar má finna í persónuverndarstefnu Útlendingastofnunar
Þjónustuaðili
Útlendingastofnun