Fara beint í efnið

Skilgreininga- og flokkunarkerfi í barnavernd

Útgáfa 3 (2022)

    Um kerfið og fyrri útgáfur

    Fyrri útgáfur:

    Útgáfa 1: Freydís J. Freysteinsdóttir félagsráðgjafi vann að tilraunaverkefni um gerð SOF kerfis á tímabilinu 1. janúar til 31. desember 2004 og voru fulltrúar Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar, Reykjanesbæjar og Reykjavíkur þátttakendur í faglegum bakhóp verkefnisins. Árið 2005 var SOF kerfið tekið í notkun.

    Útgáfa 2: Árið 2012 voru gerðar nokkrar breytingar m.a. var flokkurinn „Áhættuhegðun – barn beitir ofbeldi“víkkaður og innihélt þá einnig tilfinningalegt ofbeldi. Þetta var byggt á rannsókn Kristnýjar Steingrímsdóttur (2012). Einnig voru gerðar breytingar á flokknum „Heilsa og líf ófædds barns er í hættu“.

    Núverandi útgáfa (Útgáfa 3):

    Í þessari útgáfu hefur farið fram heildarendurskoðun á SOF kerfinu. M.a. var óskað eftir tillögum og áliti barnaverndarstarfsmanna um land allt og haldnar voru vinnustofur í nóvember 2021 á netinu þar sem öllum barnaverndarstarfsmönnum ásamt Freydísi J. Freysteinsdóttur var boðið að taka þátt í umræðum um endurskoðun SOF kerfisins. Gerðar voru nokkrar breytingar á flokkun mála, tekin inn ný dæmi en önnur felld út í takt við þær umræður sem áttu sér stað í vinnu með barnaverndarstarfsmönnum. Orðalag var sömuleiðis endurskoðað og uppfært með hliðsjón af breyttum samfélagsaðstæðum og tíðaranda.

    Í flokknum „Barn beitt líkamlegu ofbeldi“ er nú með skýrari hætti gerður greinarmunur á því hvort barn sé beitt ofbeldi af hálfu umönnunaraðila eða annarra aðila og það sama á við um flokkinn „Barn beitt kynferðislegu ofbeldi“. Sá flokkur var tekinn til endurskoðunar og er nú skilgreining Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) notuð ásamt gagngerri endurskoðun á dæmum sem eiga að vera eins lýsandi og hægt er og án afstöðu til alvarleika eða upplifunar. Þar var leitað til sérfræðinga Barnahúss og er þeim þökkuð aðstoðin. Flokkurinn „Heilsa og líf ófædds barns er í hættu“ var einnig endurskoðaður og þá sérstaklega þau önnur tilvik sem geta heyrt undir 16. gr. barnaverndarlaga þegar um ófædd börn er að ræða. Að lokum var flokkurinn „Áhættuhegðun barns“ tekinn til endurskoðunar og eru allir undirflokkar með breyttu orðalagi sem á að vera skýrara og betur lýsandi fyrir hvern flokk fyrir sig. Annars er aðallega um að ræða breytingar á orðalagi og uppsetningu.

    Þegar fjallað er um börn í SOF kerfinu er miðað við skilgreiningu skv. 1. mgr. 3. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Þar sem fjallað er um ungmenni sérstaklega er einkum átt við börn eldri en 12 ára. Í þessari útgáfu er notast við „foreldri eða umönnunaraðili“ á flestum stöðum þar sem áður var eingöngu notast við „foreldri“ og er verið með því að leggja áherslu á að sá sem er með forsjá eða umsjá barns er í því hlutverki að vernda barnið.

    Í þessari útgáfu eru notaðar eftirfarandi skilgreiningar á helstu flokkum barnaverndarmála:

    Vanræksla gagnvart barni

    Vanræksla gagnvart barni er skilgreind sem ítrekaður skortur á nauðsynlegri athöfn, sem leiðir til skaða eða er líklegur til að leiða til skaða á þroska barns.

    Barn beitt ofbeldi

    Ofbeldi gagnvart barni er skilgreint sem athöfn af hálfu foreldris, umönnunaraðila eða annars aðila, sem leiðir til eða er líklegt til að leiða til skaða á þroska barns.

    Heilsa eða líf ófædds barns í hættu

    Ófætt barn í hættu vegna athæfis verðandi foreldris eða einhvers í nærumhverfi foreldris.

    Áhættuhegðun barns

    Áhættuhegðun barns er skilgreind sem hegðun sem brýtur gegn þeim viðmiðum og reglum sem gilda í umhverfi barnsins og er líkleg til að valda barninu sjálfu eða öðrum skaða.


    Flokkun og samræmi:

    Mikilvægt er að flokkun tilkynninga sé skýr og samræmi í skráningu hjá starfsfólki barnaverndar sem ætti
    að hafa í för með sér að:

    • Vanræksla og ofbeldi í uppeldi barna verður sýnilegra, fyrir barnaverndarstarfsmenn, foreldra og börn.

    • Markmið með íhlutun barnaverndaryfirvalda verði skýrari og vinnubrögð barnaverndarstarfsmanna markvissari sem leiðir til betri málsmeðferðar.

    • Hægt er að gera raunhæfari samanburð milli sveitarfélaga og milli landa um fjölda og tegund barnaverndarmála.

    • Auðveldara er að vinna rannsóknir á sviði barnaverndar sem geta gefið vísbendingar um hvaða úrræða væri þörf hjá barnaverndaryfirvöldum.


    Heimildir:

    Barnaverndarlög nr. 80/2002.

    Barnaverndarstofa. (2001). Ársskýrsla 2000. Reykjavík: Barnaverndarstofa.

    Coohey, C. (2003). Defining and classifying supervisory neglect. Child Maltreatment, 8 (2), 145-156.

    Freydís Jóna Freysteinsdóttir. (2003). Skilgreiningar og flokkun á misfellum á umönnun og
    uppeldisskilyrðum barna. Í F.H. Jónsson (Ritstj.), Rannsóknir í félagsvísindum IV, félagsvísindadeild
    (bls. 181-189). Reykjavík: Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, Háskólaútgáfan.

    Glaser, D. (2002). Emotional abuse and neglect (psychological maltreatment): A conceptual framework.
    Child Abuse & Neglect, 26, 697-714. Iowa Department of Human Services. (1997). Child protective
    handbook. Des Moines: Iowa Department of Human Services.

    Knutson, J.F. (1995). Psychological characteristics of maltreated children: Putative risk factors and
    consequences. Annual Review of Psychology, 46, 401-431.

    Kristný Steingrímsdóttir. (2012). Skilgreiningar-og flokkunarkerfi í barnavernd: Mat á flokkun
    tilkynninga hjá Barnavernd Reykjavíkur. Reykjavík: Háskóli Íslands.

    National Institute of Child Health and Human Development. (2009). Critical issues and future directions
    in the development of classification and definition systems for child abuse and neglect. Bethesda, MD:
    National Institute of Child Health and Human Development.

    Reglugerð um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd nr. 57/2004.

    Rogosch, F.A., Cicchetti, D., Shields, A og Toth, S.L. (1995). Parenting dysfunction in child
    maltreatment. Í M.H. Bornstein (ritstjóri), Handbook of parenting: Vol. 4. Applied and practical
    parenting. New Jersey: EA.

    Skilgreining WHO á kynferðislegu ofbeldi https://www.who.int/news-room/fact-sheets/detail/violenceagainst-children