Ritunarramminn – handbók um notkun
Efnisþættir Ritunarrammans
Í þessum kafla er umfjöllun um hvern efnisþátt Ritunarrammans; uppbyggingu texta, textategundir, málnotkun og skráningu. Framvindurammarnir koma að góðum notum en í þeim má sjá hver þróunin er innan hvers undirþáttar og hvaða kröfur um færni nemenda eru gerðar á hverju þrepi fyrir sig. Á Læsisvef MMS er svo að finna aðferðir og önnur gögn sem kennarar geta notað til undirbúnings fyrir kennslu og þjálfun ritunar.
Segja má að málnotkun sé sá þáttur ritunar sem hvað flóknast getur verið að kenna, sá þáttur sem gerir mestar kröfur til nemenda og tekur þá lengstan tíma að ná tökum á. Málnotkun er jafnframt sá þáttur ritunar sem gefur ritverki hvað mestan lit, höfundi rödd og getur ráðið úrslitum hvort vel tekst til eða ekki.
Rætur áhugaverðrar og fjölbreyttrar málnotkunar barna liggja í góðum málskilningi og reynslu þeirra af ritmáli, í gegnum lestur og rýni í fjölbreytt efni og síðar meir nægum tækifærum til ritunar. Veganesti nemenda getur verið nokkuð misjafnt og því þarf að gera ráð fyrir að mæta þeim með því að kenna og þjálfa markvisst atriði sem snúa að góðri og áhugaverðri málnotkun.
Þar sem hver textategund hefur sín séreinkenni er málnotkunin útfærð í þremur römmum. Viðmiðin eru að hluta til þau sömu í öllum römmunum en í viðmiðunum um orðaval og stílbrögð er reynt að draga fram hvað það er sem einkennir málnotkun hverrar textategundar fyrir sig.



Málfar
Málþroski, máltilfinning og reynsla barnsins af ritmáli hefur mikil áhrif á málfar og málnotkun þess. Þar sem málfar getur verið mjög einstaklingsbundið, og þau atriði sem liggja til grundvallar góðu málfari mörg, reyndist erfitt að setja fram viðmið um málfar eða málfræðiþekkingu á tiltekin þrep. Því var brugðið á það ráð að hafa aðeins eitt almennt viðmið sem minnir á mikilvægi góðs málfars. Það er síðan á hendi kennara að þoka nemendum sínum sífellt í áttina að því að beita málinu á skýran og skapandi hátt með formlegri og óformlegri leiðsögn um hvað telst vera gott mál eða áhugaverð málnotkun.
Gott mál er það sem telst vera í samræmi við reglur málfræðinnar og málvenju. Kennarar ættu alltaf að leggja áherslu á að nemendur vandi málfar sitt bæði í ræðu og riti af virðingu við eigið tungumál og viðtakanda hverju sinni.
Viðfangsefni, tilgangur og viðtakandi
Viðfangsefni, tilgangur og viðtakandi ráða bæði innri og ytri formgerð texta og því er skilningur nemenda á þessum atriðum mjög mikilvægur. Innri formgerð texta snýr t.d. að einkennum og uppbyggingu textategundar og sú ytri að forminu sem getur verið ritgerð, blaðagrein, auglýsing eða leiðbeiningar. Þannig þarf höfundur að átta sig vel á viðfangsefninu, tilgangi og hverjir viðtakendur eru áður en hafist er handa við ritun texta.
Framangreind atriði þurfa að liggja til grundvallar nálgun höfundar á verkefninu strax frá upphafi (Sedita, 2023, bls. 90). Nemendur þurfa snemma að fá leiðsögn og þjálfun í að hafa þau í huga við skrif sín, í takt við aldur og færni. Eftirfarandi spurningar geta hjálpað nemendum að átta sig betur á því hvað hvert atriði felur í sér:

Nauðsynlegar upplýsingar
Í rammanum er gert ráð fyrir að í fyrstu sé eingöngu hugað að því að viðtakandinn sé ekki skilinn eftir í óvissu þar sem ungum höfundum hættir til að gera ráð fyrir því að lesandinn hafi sömu vitneskju og þeir sjálfir. Hér er t.d. átt við að söguþráður í frásögn sé rökréttur og skýr og að einfaldar en fullnægjandi skýringar eða röksemdir fylgi þegar um fræði- eða rökfærslutexta er að ræða. Það er einna helst hjá ungum nemendum sem upplýsingar getur vantað þar sem sjónarhorn frásagnar er mjög oft bundið við þá sjálfa. Eins geta þeir gleymt sér ef þeir skrifa fræðitexta um eigið áhugamál og gera ráð fyrir að aðrir hafi sömu bakgrunnsþekkingu og þeir sjálfir.
Málsnið
Málsnið er sá búningur sem fólk velur í töluðu og rituðu máli út frá aðstæðum hverju sinni eða í samræmi við viðfangsefni, tilgang og viðtakendur. Málsnið getur ýmist verið formlegt, eins og þegar skrifuð er umsókn um starf, eða óformlegt, eins og þegar textaskilaboð eru send á vin. Talað mál er undantekningalítið óformlegra en ritað mál. Til að byrja með gætir oft talmálseinkenna í ritun hjá ungum börnum en eftir því sem barnið skilur betur eðli ritmálsins og öðlast meiri reynslu af því í gegnum lestur, ritun og rýni hverfa talmálseinkennin smám saman, hefðir og venjur ritmálsins verða sýnilegri og málsniðið í betra samræmi við viðfangsefni, tilgang og ætlaða viðtakendur.
Reyndir höfundar kunna að beita mismunandi málsniði á meðvitaðan hátt í verkum sínum, t.d. þegar þeir skrifa samtöl fyrir ólíkar sögupersónur eða vilja markvisst ná fram ákveðnum stíl eða blæbrigðum. Góð leið til að hjálpa nemendum að átta sig á eðli málsniðs er að láta þá skrifa um sama viðfangsefni fyrir viðtakendur á ólíkum aldri eða með ólíkan bakgrunn. Í námsefni í íslensku fyrir mið- og unglingastig má finna góðar útskýringar á því hvað málsnið er.
Sjónarhorn í sögu
Ungir nemendur eru yfirleitt ekki meðvitaðir um val á sjónarhorni þegar þeir setja sögur sínar á blað. Þeim er í fyrstu tamt að nota fyrstu persónu frásögn þar sem sjónarhornið liggur ómeðvitað hjá þeim sjálfum og þar sem frásögnin endurspeglar hvernig þeir sjálfir bæði tala og hugsa. Með auknum lestri verða fleiri frásagnaraðferðir á vegi nemenda en oft lærist þeim ekki að halda sig fyllilega við eina frásagnaraðferð fyrr en þeir hafa lært að greina þær hjá öðrum höfundum á síðari stigum náms. Þegar höfundur velur sér frásagnaraðferð heldur hann sig við hana út í gegnum alla söguna og það þurfa nemendur að læra að gera líka til að lesandinn haldi auðveldlega þræði við lesturinn.
Notkun tíðar
Ungir og óreyndir höfundar geta átt það til að ruglast í notkun tíðar í skrifum sínum. Slíkur ruglingur getur birst í því að frásögn sem byrjar í þátíð breytist án skiljanlegrar ástæðu í nútíð eða nemendur flakka fram og til baka á milli nútíðar og þátíðar innan sömu frásagnar. Önnur dæmi um slík mistök eru þegar nemandinn gleymir sér og notar nútíð í stað þess að skipta yfir í þátíð til að gefa til kynna breytingar í sögutíma. Loks þarf að gæta að samræmi í notkun tíðar þegar samtöl eru skrifuð þar sem verið er að vísa til liðinna atburða eða þess sem á að gerast í framtíðinni. Samræmi í notkun tíðar er nauðsynlegt til að framvinda sögunnar sé rökrétt og skiljanleg og lesandanum gangi vel að halda þræði við lesturinn.
Þrátt fyrir að það reyni e.t.v. mest á samræmi í notkun tíðar við söguskrif þarf einnig að gæta að þessu samræmi við ritun fræði- og rökfærslutexta. Þessir textar eru að stórum hluta skrifaðir í nútíð þar sem þeir lýsa fyrirbæri eða skoðun. Þó þarf oft að grípa til þátíðar þegar vísað er í liðna atburði eða sögulegar staðreyndir. Hér gildir fyrst og fremst að gæta rökrétts samræmis við notkun tíðar svo lesandinn geti auðveldlega fylgt eftir efni textans.
Orðaval og stílbrögð
Hver textategund hefur sín séreinkenni sem birtast bæði í uppbyggingu hennar og í málnotkun, og þá sérstaklega í orðavali og beitingu stílbragða. Í viðmiðum rammans eru nokkur almenn einkenni dregin fram til að hjálpa bæði kennurum og nemendum að átta sig á sérkennum hverrar textategundar fyrir sig. Orðalag viðmiðanna er ekki tæmandi og tekur alls ekki til allra atriða sem einkennt geta hverja textategund.
Sögugerð
Á þrepum 1 og 2 eru ekki sett inn nein viðmið sem lúta að orðavali eða stílbrögðum óháð textategund. Nemendur á þrepi 1 og 2 eru rétt að ná tökum á grunnþáttum ritunar, eins og að draga til stafs, að stafsetja orð rétt og koma hugsun sinni á blað í samfelldum texta. Þeir geta þó verið misfljótir að ná tökum á grunnatriðunum og því er ekkert sem mælir gegn því að t.d. bráðgerir nemendur séu hvattir til að bæta inn orðum sem lýsa umhverfi eða sögupersónum betur eða að forðast endurtekningar með því að nota samheiti þrátt fyrir að ekkert slíkt viðmið sé til staðar í rammanum.
Hafi nemendur fengið góða kennslu í undirstöðuþáttum ritunar, s.s. skrift og réttritun, og fengið mörg tækifæri til að spreyta sig á sögugerð, má gera ráð fyrir að þeir geti farið að huga að fjölbreyttara og blæbrigðaríkara orðavali við ritun texta á þrepi 3. Notkun blæbrigðaríkra samheita nafnorða (skrjóður, kaggi, drusla), sagnorða (ganga, rölta, rangla), lýsingarorða (sætur, fallegur, fagur) og fjölbreyttra, lýsandi atviksorða (skyndilega, hljóðlega, frábærlega) getur litað og skreytt frásagnir, skapað ákveðin hughrif og hjálpað höfundi að ná fram markmiðum sínum.
Á þrepum 5 og 6 bætast við atriði eins og notkun fastra orðasambanda eða orðatiltækja en þau búa einnig yfir sérstökum hughrifum sem geta haft áhrif á tón eða yfirbragð texta. Á síðustu tveimur þrepunum er svo að finna viðmið sem snýr að því að viðhalda áhuga lesanda, t.d. með því að byggja upp spennu eða með notkun stílbragða. Listinn yfir þau er nokkuð langur og því aðeins nokkur dæmi gefin í orðalagi viðmiðsins. Nánar má lesa um stílbrögð í námsefni nemenda á mið- og unglingastigi og í Hugfinni – handbók um bókmenntahugtök sem Námsgagnastofnun gaf út á sínum tíma og finna má á námsefnisvef Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu.
Fræðitexti
Fræðitexti er skrifaður í þeim tilgangi að upplýsa lesandann, að greina frá staðreyndum, að koma með dæmi og skýringar sem lýsa fyrirbæri eins vel og hægt er með hlutlægu orðalagi og hlutlausri og rökréttri framsetningu. Orðaval er því skýrt, hlutlaust og laust við gildishlaðin orð sem gefa til kynna afstöðu eða tilfinningar höfundar. Þetta eru skýr einkenni og því nær engar breytingar á stíganda í viðmiðum milli þrepa.
Mikilvægt er nemendur fái þjálfun í að skrifa texta sem á að veita upplýsingar eða er fræðilegs eðlis. Slík verkefni þurfa ekki að vera flókin í fyrstu en leggja þarf áherslu á að nemendur haldi eigin skoðun eða tilfinningum frá í ritverkinu en leitist við að útskýra vel, nákvæmlega og með skipulegum hætti það sem þeir vilja upplýsa lesandann um. Á seinni stigum má gera ráð fyrir að nemendur ráði við ritun flóknari fræðitexta sem byggist á heimildavinnu eins og endurspeglast í rammanum um uppbyggingu á fræðitexta. Í þessu samhengi er einnig rétt að benda á að nemendur komast mjög snemma í kynni við fræðitexta enda er stór hluti námsbóka í þeim flokki. Það þarf því ekki að leita langt yfir skammt til að finna texta sem hægt er að skoða, rýna og ræða til að átta sig á því hvernig fræðitexti er byggður upp og hvers konar orðaval einkennir hann.
Rökfærslutexti
Orðaval í rökfærslutexta lýtur að mörgu leyti svipuðum lögmálum og orðaval við ritun sögutexta þar sem höfundur reynir að hreyfa við lesandanum með notkun fjölbreytts orðavals og vekja þannig hjá honum tilfinningaleg viðbrögð. Það er þó gert í aðeins öðrum tilgangi eða til að fá lesandann til að íhuga afstöðu höfundar, að sannfæra og að fá lesandann til að skipta jafnvel um skoðun. Í rökfærslutexta er stílbrögðum eins og ýkjum, kaldhæðni eða háði beitt en einnig atriðum sem falla undir ræðu- eða mælskulist. Þetta eru atriði eins og beint ávarp til lesandans, húmor og notkun málamyndaspurninga, eða að höfundur ögrar með því að gefa sér afstöðu lesandans, breytir skoðun í sannleika eða kemur með aðdróttanir sem eiga ekki við rök að styðjast. Allt miðar þetta að því að hafa áhrif á lesandann og fá hann á sitt band.







