Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Ritunarramminn – handbók um notkun

Hér má finna PDF útgáfu af handbókinni.


Ritunarrammann má nálgast á Læsisvefnum.

    Efnisþættir Ritunarrammans

    Í þessum kafla er umfjöllun um hvern efnisþátt Ritunarrammans; uppbyggingu texta, textategundir, málnotkun og skráningu. Framvindurammarnir koma að góðum notum en í þeim má sjá hver þróunin er innan hvers undirþáttar og hvaða kröfur um færni nemenda eru gerðar á hverju þrepi fyrir sig. Á Læsisvef MMS er svo að finna aðferðir og önnur gögn sem kennarar geta notað til undirbúnings fyrir kennslu og þjálfun ritunar.

    Í Ritunarrammanum eru stafsetning, skrift og notkun lyklaborðs felldar saman undir heitinu Skráning enda snúa öll atriðin að því hvernig texti er skráður (Sedita, 2013, bls. 4). Þetta kann að þykja nokkuð óvenjuleg nálgun en hafa þarf í huga að megintilgangur þess að kenna skrift, innslátt á lyklaborð og stafsetningu er að gera nemendum kleift að rita skiljanlegan texta. Ef nemendur hafa ekki þessa grunnfærni á valdi sínu verður skortur á henni dragbítur á mótun, magni og gæði texta. Það má því ekki vanmeta gildi góðrar færni þegar skráningin er annars vegar.

    Framvindurammi fyrir skráningu

    Stafsetning

    Í Ritunarrammanum er gengið út frá því að stafsetningarkennsla sé að takmörkuðu leyti sjálfstætt viðfangsefni í íslenskukennslu heldur kennd og þjálfuð í samhengi við textaritun í öllum námsgreinum. Þannig getur stafsetningarnámið orðið merkingarbærara og átt sinn þátt í því að nemendur tileinki sér réttar ritvenjur fyrr og með varanlegri hætti í vinnu með eigin texta (Alves, Limpo, Salas og Joshi, 2019).

    Stafsetningarviðmiðin í rammanum byggjast á sex þrepa líkani um þróun stafsetningar. Með líkaninu gera Baldur Sigurðsson og Steingrímur Þórðarson (1987) tilraun til að lýsa því hvernig börn tileinka sér réttan rithátt orða með reynslu af ritmálinu í gegnum máltöku, lestrarnám og reynslu af því að glíma við ritmálið í gegnum lestur og ritun.

    Þróun stafsetningarkunnáttu barna í fimm stigum

    Baldur Sigurðsson (e.d.), án ártals.

    Ástæðan fyrir því að þetta líkan er lagt til grundvallar matsviðmiðum í stafsetningu í stað þess að festa stafsetningarreglur inn á þrep rammans er sú að ritháttarvitund (e. orthographic knowledge) verður til á sama hátt og talmálið; með reynslu af ritmáli og fyrirmyndum. Því er nákvæmara að tala um stafsetningartöku (e. spelling acquisition) en stafsetningarnám (Baldur Sigurðsson (e.d.)).

    Til að koma í veg fyrir að stafsetningarviðmiðin innan Ritunarrammans yrðu allt of löng (stafsetningarreglurnar eru yfir 90) er reynt að fanga kjarna hvers stigs fyrir sig með knöppu en skýru orðalagi. Ekki verður komist hjá því að kennarar hafi námsefni og handbækur um stafsetningu við höndina þegar þeir leiðbeina nemendum sínum um réttan rithátt.

    Hafa þarf í huga að þroski ritháttarvitundar barna er ekki línulegur og að þau geta verið á fleiri en einu stigi á sama tíma. Stig þróunar stafsetningarkunnáttu barna eru fimm og hér á eftir fer lýsing á einkennum hvers stigs fyrir sig. Í Ritunarrammanum eru atriði sem falla undir setninga- og sértækt rithefðarstig felld saman í eitt viðmið.

    Framburðarstig

    Þrep 1 – hljóðrétt ritun orða

    Á þessu stigi rita börn orð eins og þau eru borin fram, þ.e.a.s. ritun orða er hljóðrétt og í samræmi við þann framburð sem þau greina í tali. Þar sem ekki er alltaf samræmi á milli ritháttar og framburðar virðast börn gera „villur“. Ef vel er að gáð eru þau í raun að rita orð í samræmi við það sem þau heyra og þekking þeirra á hljóðkerfi tungumálsins leyfir. Ritun eins og ni fyrir enni, sgo fyrir sko, seija fyrir segja og é fyrir ég eru allt dæmi um hljóðrétta ritun og ættu ekki að teljast sem villur á fyrsta stigi þróunar stafsetningarkunnáttu hjá börnum.

    Kennarar sem kenna byrjendum í lestri ættu að vanda sig sérstaklega við innlögn á hljóðlíkum bókstöfum þar sem sumir nemendur geta átt erfitt með að greina hljóðlíka bókstafi í framburði. Þessir hljóðlíku bókstafir eru b-p, d-t, f-v, g-k og þ-ð. Mikilvægt er að vanda framburð orða sem innihalda þessi hljóð til að auka líkur á að nemendur læri að greina og skrifa þau rétt. Að sama skapi geta nemendur af erlendum uppruna átt í erfiðleikum með að greina blæbrigðamun íslenskra sérhljóða eins og i-í, o-ó og u-ú . Mikilvægt er að fylgjast vel með því hvort nemendur greini muninn og nýti þekkingu sína við ritun.

    Langflestir nemendur eru fljótir að tileinka sér réttan rithátt einfaldra orða í gegnum lestur. Rétt er að beina athyglinni að ritun orða sem vefjast fyrir nemendum, útskýra þau og ræða. Þá getur til dæmis verið mjög gott að leggja strax inn mjög algeng orð eins og hver, mega og segja til að taka af allan vafa um rithátt þeirra og koma í veg fyrir að nemendur temji sér rangan rithátt sem erfitt getur verið að vinda ofan af. Árangursríkasta leiðin er svo að þjálfa lestur og ritun jöfnum höndum daglega.

    Almennt rithefðarstig

    Þrep 1 og 2 – stór og lítill stafur

    Reglur um stóran og lítinn staf eru annars eðlis en reglur sem eru háðar hljóðkerfi tungumálsins, stofni og uppruna orða. Þær eru þó margar og nemendur eru mjög ungir þegar þeir þurfa að hafa skilning á og geta notað þær allra einföldustu. Sérnöfn manna og dýra, heiti staða, mánaða og hátíða koma fljótt við sögu í skrifum nemenda og því er rétt að vekja máls á réttritun þessara orða snemma. Rýni í ritunarsýnishorn barna sýnir jafnframt að þetta eru atriði sem þau tileinka sér auðveldlega og því er einfalt viðmið um stóran og lítinn staf sett inn á þrep 1 og 2 í Ritunarrammanum. Á þrepi 3 er svo gert ráð fyrir að byrjað verði að fara í flóknari reglur um stóran og lítinn staf. Gagnlegast getur verið að kenna reglu þegar nemendur þurfa á henni að halda en þannig lærist hún best.

    Þrep 2 – ritun algengra óhljóðréttra orða

    Á þessu stigi eiga börn að hafa áttað sig á því að ritháttur er ekki alltaf í samræmi við framburð einstakra bókstafa, að í ritmálinu gildir ekki einn bókstafur á móti einu hljóði. Þar sem nemendur í 2. og 3. bekk eru enn að ná góðum tökum á undirstöðuatriðum í lestri, skrift og ritun er hér lagt til að kennarar veki athygli nemenda á réttum rithætti orða án þess að kenna beint eða vísa í stafsetningarreglur. Viðmiðið á þrepinu er því nokkuð opið í samanburði við viðmiðið fyrir þrep 3 og 4.

    Eins og áður segir getur verið gagnlegt að skoða og ræða saman um rithátt mjög algengra orða þar sem ósamræmi er á milli ritháttar og framburðar. Það getur verið gott að ræða orð sérstaklega sem hafa eftirfarandi einkenni. Listinn er ekki tæmandi:

    • Orð með tvöföldum samhljóðum; finnst, skemmtilegt, alltaf, eitthvað og annars.

    • Hv-orð (einkum spurnarfornöfn); hvað, hver, hvers vegna og af hverju.

    • Orð rituð með -ng og -nk en nemendur eru fljótir að koma auga á misræmið milli ritháttar og framburðar í þessum orðum; lengi, engin/n, ganga, langt og kringum.

    • Algeng orð með y-ý og ey; fyrir, yfir, ykkur, fyrst, sýnir, dýr og eyra.

    • Orð sem byrja á samhljóðasamböndum; sk-, kr-, brj-, skrj.

    Þrep 3 og 4 – misræmi milli ritháttar og framburðar; einfaldar stafsetningarreglur

    Eins og sjá má á orðalagi viðmiðsins fyrir þrep 3 og 4 er reiknað með því að kennari geti farið að vísa í og gera kröfu um að ákveðin atriði séu í lagi við ritun texta og að nemendur séu tilbúnir til að ræða um stöðu sína og færni með vísun í einfaldar stafsetningarreglur. Nokkrar algengustu og einföldustu reglurnar eru hafðar með í viðmiðinu til að gefa til kynna hvers konar kunnáttu nemendur ættu að búa yfir á tilteknu aldursbili. En eins og fram kemur á myndinni sem sýnir þróun stafsetningarkunnáttu barna er þróunin ekki línuleg og einstaklingsbundið á hvaða tímapunkti nemendur hafa tileinkað sér einstakar stafsetningarreglur fyllilega.

    Orðhlutastig

    Íslensk stafsetning byggist í raun aðeins á fjórum meginreglum sem allar aðrar reglur eru byggðar á. Þessar reglur eru framburðarreglan, hefðarreglan, upprunareglan og orðhlutareglan. Af þessum er orðhlutareglan talin sú mikilvægasta en með henni má sjá merkingaleg tengsl milli ólíkra beygingarmynda orða þótt tengslin geti verið óljós vegna hljóðbreytinga. Kjarni hennar er sá að sérhver orðhluti helst stöðugur í stafsetningu þrátt fyrir breytilegan framburð. Orðhluti er minnsta eining í gerð orðs sem hefur ákveðið hlutverk eða merkingu og skiptast orðhlutar í rót, viðskeyti, forskeyti, stofn og beygingarendingar (Baldur Sigurðsson, 1998; Svanhildur Kr. Sverrisdóttir, 2018)

    Kennsla í rýni orðhluta gerir nokkrar kröfur til þekkingar og útsjónarsemi kennara en ávinningur getur verið mikill fyrir nemendur þegar þeir fá tækifæri til að skoða orð með tilliti til skyldleika og hvernig þau eru sett saman. Rannsóknir sýna að hægt er að efla orðavitund mjög ungra nemenda í gegnum orðmyndunarfræði en skilningur á því hvernig orð myndast er einkar eflandi fyrir orðaforða, lesskilning, réttritun og hæfni nemenda til að skrifa áhugaverðan texta (Henry, 2019). Með skilningi á hlutverki einstakra orðhluta öðlast nemendur jafnframt meira sjálfstæði í vinnubrögðum og komast hjá því að giska á réttan rithátt orða. Skilningur á hlutverki orðhluta nýtist til dæmis þegar:

    • Finna þarf fjölda og röð samhljóða í stofni (rigna-rigndi, gegna-gegndi, syrgja-syrgði).

    • Ákvarða hvort orð sé ritað með iy, í-ý eða ei–ey (sonursynir, snúasný, draumurdreyma).

    • Ákvarða þarf hvort skrifa á n eða nn í endingum orða (t.d. minn/mín reglan, Steins-reglan; ritun n og nn í endi kvk. orða með greini og í endingum lýsingarorða, lýsingarhátta og fornafna).

    • Ákvarða þarf hvort rita á j eða g út frá framburði eða stofni orðs.

    Setninga- og sértækt rithefðarstig

    Á 6. þrepi stafsetningarinnar er gert ráð fyrir að nemendur hafi náð ágætum tökum á öllum rithefðum sem tilgreindar eru í þrepunum á undan. Á þessu þrepi bætast við atriði sem tilheyra setningar- og sértæku rithefðarstigi en þau eru sett saman í eitt viðmið í rammanum.

    Setningarstigið lýsir færni nemenda til að nýta sér skilning sinn á setningarfræðilegri stöðu orðs og samhengi þess í texta til að ákvarða réttan rithátt, t.d. Ósk á eina ósk – merkingu komið til skila með réttri notkun á hástaf og lágstaf. Undir sértæka rithefðarstigið falla rithefðir sem ekki verða skýrðar með vísun í framburð eða merkingu tungumálsins. Þetta geta verið bæði einföld atriði eins og að muna að skrifa tvö r í annarra eða flóknari atriði sem snúa að kyni lýsingarháttar (hundurinn var borinn í bælið eða kisan var borin í bælið). Þessi flokkur er nokkuð stór og undir hann falla atriði sem læra þarf utanbókar, leggja á minnið eða nýta sér uppsláttarrit og önnur gögn til að tryggja réttan rithátt.

    Skrift, uppsetning og frágangur

    Skriftin er einn af lykilþáttum góðrar ritunarhæfni. Á fyrstu þrepum ritunarnáms þarf að tryggja að nemendur fái góða skriftarkennslu og næg tækifæri til þjálfunar þar til skriftin er orðin læsileg og nægilega sjálfvirk svo hún nýtist til miðlunar. Skrift sem tekur ekki orku frá öðrum mikilvægum þáttum ritunarferlisins gerir nemendum kleift að einbeita sér að mótun hugmynda, láta textann flæða og huga að flóknari þáttum eins og uppbyggingu texta og málnotkun.

    Í Ritunarrammanum eru viðmiðin um skrift mjög almenn og lúta að því sem kennari getur metið þegar hann er með stakt ritverk nemanda fyrir framan sig. Hjá yngri börnum er lögð áhersla á að þau skrifi læsilega svo merking textans komist skýrt til skila en ekki eru gerðar sérstakar kröfur um uppsetningu eða frágang fyrr en á miðstigi. Líklegt er að þá séu mörg börn þegar farin að þjálfast í notkun ritvinnsluforrita eða nota aðra stafræna tækni við ritun og ekki ósennilegt að matsviðmið um skrift, uppsetningu og frágang á skriflegum verkefnum eigi sjaldnar við. Engu að síður er mikilvægt að kröfur um uppsetningu og frágang séu samræmdar milli kennara eða innan skóla til að einfalda kennslu og rugla nemendur ekki í ríminu.

    Í Handbók um skriftarkennslu (Guðbjörg R. Þórisdóttir og Sigurlaug Rún Brynleifsdóttir, 2025) er fjallað ítarlega um kennslufræði skriftar og efninu fylgja einnig matsrammar til að meta læsileika skriftar. Matsviðmiðin þar skýra vel hvað átt er við með „læsilegri skrift“ í viðmiði Ritunarrammans. Geta kennarar nýtt sér þau þegar þeir ákvarða hvort „skrift sé læsileg og merking texta kemst til skila“ í Ritunarrammanum. Skriftarkennslu þarf að sinna vel og þegar fram líða stundir þarf að tryggja nemendum tækifæri til að ná góðum tökum á notkun lyklaborðs til að auðvelda þeim textagerð.

    Ritvinnsla

    Kennarar kunna að spyrja sig að því hvers vegna viðmið fyrir ritvinnslu eða notkun lyklaborðs eru ekki sett inn fyrr í Ritunarrammann. Fyrirkomulagið sem er kynnt í rammanum er ekki meitlað í stein en mikilvægt er að hafa a.m.k. tvennt í huga. Í fyrsta lagi getur það tekið ung börn nokkur ár að ná tökum á skriftarfimi, þ.e. réttum og öruggum stafdrætti og góðri sjálfvirkni við skrift. Rannsóknir sýna að börn sem hafa náð góðum tökum á undirstöðuatriðum í lestri og ritun eru fljótari en önnur að ná tökum á lyklaborði (Stevenson og Just, 2012). Önnur ástæða er sú að það þjónar litlum tilgangi að þjálfa börn í notkun lyklaborðs ef færninni er ekki beitt á merkingarbær viðfangsefni í námi og hún hluti af daglegu skólastarfi sem gerist oft ekki fyrr en á efri stigum náms. Kennsla og þjálfun í notkun lyklaborðs þarf því að fá svigrúm í stundatöflu, alveg eins og skriftin, eða þar til nemendur hafa náð góðum tökum á öruggum og sjálfvirkum innslætti á lyklaborð og færni í ritvinnslu.

    Það getur verið snúið að setja inn viðmið um ásættanlegan fjölda villna fyrir nemendur sem fá umsögnina „þarfnast þjálfunar“ eða „á góðri leið“. Þar getur skipt máli hvort um drög eða lokaafurð er að ræða eða hversu langur textinn er. Þetta verður kennari að meta en eðlilegt er að leggja áherslu á að lokaafurðin verði villulaus þar sem ritvinnsluforrit bjóða bæði upp á yfirlestur á stafsetningu og að sýna falin sniðtákn, s.s. efnisgreinarmerki og fjölda bila milli orða.