Ritunarramminn – handbók um notkun
Efnisþættir Ritunarrammans
Í þessum kafla er umfjöllun um hvern efnisþátt Ritunarrammans; uppbyggingu texta, textategundir, málnotkun og skráningu. Framvindurammarnir koma að góðum notum en í þeim má sjá hver þróunin er innan hvers undirþáttar og hvaða kröfur um færni nemenda eru gerðar á hverju þrepi fyrir sig. Á Læsisvef MMS er svo að finna aðferðir og önnur gögn sem kennarar geta notað til undirbúnings fyrir kennslu og þjálfun ritunar.
Efni kaflans
Annar efnisþáttur Ritunarrammans eru einkenni textategunda. Sem virkur þátttakandi í samfélagi þarf hver einstaklingur að hafa vald á rituðu máli og tök á að miðla efni til annarra. Við skrifum til að segja frá raunverulegum eða skálduðum atburðum, til að miðla upplýsingum, gefa leiðbeiningar og uppfræða, svo fátt eitt sé nefnt.
Hægt er að greina flesta ef ekki alla texta í bókmenntatexta, upplýsingatexta eða rökfærslutexta. Vissulega er hægt að finna texta sem getur tilheyrt fleiri en einni textategund og eru auglýsingar gott dæmi um slíkt en þær gætu flokkast bæði sem upplýsingatexti og rökfærslutexti. Upplýsingatextar, rökfærslutextar og bókmenntatextar eiga sér síðan marga undirflokka. Á skýringarmyndinni um meginflokka texta eru skilgreiningar og dæmi um nokkra undirflokka.
Þrír meginflokkar textategunda ásamt dæmum um undirflokka.

Hluti af því að læra ritun felur í sér að læra um hefðir sem gilda við ritun hverrar textategundar og að ná færni í að byggja upp texta samkvæmt þeim. Vert er að leggja áherslu á að góð kennsla einnar textategundar yfirfærist ekki nema að hluta til yfir á aðrar. Þess vegna er ekki nóg að kenna nemendum að skrifa sögur og gera ráð fyrir að þar með geti þeir líka skrifað góðan upplýsinga- og rökfærslutexta. Þjálfa þarf nemendur í ritun hverrar textategundar fyrir sig.
Í Ritunarrammanum er fengist við mat á þremur undirflokkum textategunda, það er sögugerð, ritun fræðitexta og rökfærslutexta. Eins og sjá má á skýringarmyndinni um textategundir er um undirflokk hverrar textategundar að ræða. Þessar tegundir eru valdar vegna þess að þær eru byggðar á samfelldum texta sem verður lengri eftir því sem hæfni nemenda eykst.
Sögugerð
Saga er skálduð frásögn þar sem einhver atburðarás á sér stað. Lengd sagna getur verið allt frá einni blaðsíðu, eða jafnvel aðeins hluti af blaðsíðu, yfir í mörg hundruð síður. Þegar grunnskólanemendur fást við sögugerð er oftast horft til smásagnaformsins þar sem sögusvið er yfirleitt þröngt, atburðarásin einföld og sögutíminn takmarkaður.
Framvindurammi fyrir sögugerð

Heiti
Heiti sögu er það fyrsta sem lesandi sér og heitið eða fyrirsögnin getur haft mest um það að segja hvort lesandinn heldur lestrinum áfram. Þess vegna þarf heitið að vera grípandi og áhugavert og jafnframt að gefa hugmynd um efni sögunnar.
Nafn aðalsögupersóna sem heiti, eða hluti af heiti, er dæmi um hvernig vísbending er gefin um efni sögunnar. Jafnvel er bætt við orði sem lýsir persónunni eða sagt frá hvar eða hvenær sagan gerist. Dæmi um þetta eru Jóli og Jóla, Bangsi litli í skóginum og Stúfur fer í sumarfrí. Önnur leið sem gjarnan er farin er að hafa heitið einfaldlega gagnsætt þannig að umfjöllunarefni sögunnar sé lesanda nokkuð ljóst. Dæmi um þetta eru söguheiti eins og Mömmuskipti, Ráðgátan um skuggann skelfilega og Lára fer á jólaball.
Margar leiðir eru færar til að vekja áhuga lesanda. Nefna má tvíræðni, notkun líkinga, stuðla, orðatiltæki eða annað sem talið er að viðtakendur taki eftir, hafi gaman af eða jafnvel hrökkvi í kút yfir. Dæmi um áhugaverða titla eru Hjartastopp, Fingur stormsins, Hættuför í huldubyggð, Hraðskák við páfann, Uppvakningasótt, Uppskrift að klikkun og Banvæn snjókorn
Kynning
Í upphafi sögu eru persónur kynntar og upplýsingar gefnar um hvar og hvenær sagan gerist. Þetta má gera með margvíslegum hætti. Kynningin er ekki alltaf formleg heldur getur höfundur líka komið upplýsingum um persónur og staðhætti til skila í gegnum lýsingu á upphafsatburði. Í sögugerð hjá styttra komnum er þessi kynning oft sett fram sem staðhæfing, ef hún á annað borð kemur fram, en hjá lengra komnum fléttast kynningin gjarnan inn í frásögnina.
Persónusköpun er einn mikilvægasti þátturinn í sögugerð. Sögupersónur eru annaðhvort aðalpersónur eða aukapersónur og þeim getur bæði verið lýst beint og óbeint. Þegar um beinar persónulýsingar er að ræða er persónunum lýst nákvæmlega, sagt hvernig þær líta út, t.d. hæð þeirra, aldur, hára- og augnlitur, holdafar og klæðnaður, jafnvel innræti, framkoma og hegðun. Þegar um óbeinar persónulýsingar er að ræða lýsa persónurnar sér sjálfar eða lesandanum er látið eftir að draga upp mynd í huga sér og mynda sér skoðun á þeim út frá hegðun, tali og jafnvel viðbrögðum annarra í sögunni við persónunum (Svanhildur Kr. Sverrisdóttir, 2011, bls. 61).
Sögusvið felur annars vegar í sér ytri tíma sögu og hins vegar umhverfið þar sem sagan gerist. Sagan gerist á tilteknum tíma, s.s. eftir ártali, árstíð eða dagsetningum. Umhverfið gefur lesanda hins vegar upplýsingar um hvar sagan gerist og getur verið veraldlegt eða félagslegt umhverfi. Húsnæði, landslag, veðurfar, lifnaðarhættir og aðrar ytri aðstæður eru dæmi um veraldlegt umhverfi en staða persóna í samfélaginu, s.s. fjárhagsleg eða trúarleg, eru dæmi um félagslegt umhverfi. Hvoru tveggja getur átt sér stoð í raunveruleikanum eða verið tilbúið umhverfi sem höfundur skapar. Ytri tími og umhverfi sögu eru ekki endilega færð beint í orð heldur getur lesandi þurft að leita að vísbendingum til að átta sig á hvenær og hvar sagan gerist.
Flækja og lausn
Flækjan, stundum nefnd atburðarás eða söguþráður, er stærsti hluti hefðbundinnar skáldsögu. Í flækjunni stigmagnast atburðarásin og hún nær síðan hámarki í risi sögunnar. Byrjendur í ritun hafa ekki getu til að halda utan um alla þræði sögugerðar og því vantar stundum endi á sögurnar eða skipulagi textans er ábótavant þannig að lesandi skilur ekki söguþráðinn. Þá er talað um gloppur í sögubyggingunni eða upplýsingagöt. Með auknum vitsmunaþroska og samskiptafærni eykst færnin og flest börn ættu að hafa náð grunntökum á sögubyggingu við 7 til 9 ára aldur. Frekari fágun á forminu á þó eftir að eiga sér stað og má merkja framfarir á því sviði allt fram á fullorðinsár (Rannveig Oddsdóttir o. fl. 2013.)
Í sögum er atburði eða atburðum sem hafa ákveðna tímaframvindu lýst. Frásögn fylgir þess vegna tímalínu þar sem eitt leiðir af öðru. Vanir rithöfundar leika sér stundum að því að fylgja ekki tímalínu og flakka fram og aftur í tíma en ekki er ætlast til að grunnskólanemar hafi tileinkað sér þá færni.
Ris sögu má útskýra sem hápunkt hennar. Atriði í sögunni leiða smám saman að ákveðnum skilum í atburðarásinni og við tekur lausn sögunnar eða niðurlag. Þar er sagt frá afdrifum sögupersóna og gengið frá lausum endum. Stundum er lesandinn skilinn eftir í lausu lofti og hann þarf sjálfur að ímynda sér málalok. Þetta á gjarnan við um smásögur.
Fræðitextar
Fræðitexti hefur það meginhlutverk að koma upplýsingum eða fróðleik um afmarkað viðfangsefni til skila. Viðfangsefnið getur til dæmis verið dýrategund, einstaklingur, staður eða viðburður. Leitast er við að skilgreina mismunandi þætti viðfangsefnis og lýsa tengslum á milli þessara þátta og hvaða áhrif þeir hafa. Hefðbundin uppsetning fræðitexta byggist á inngangi, meginmáli og lokaorðum.
Framvindurammi fyrir fræðitexta

Fyrirsögn
Fyrirsögn texta gegnir því hlutverki að auðvelda lesanda að fá yfirsýn yfir efni textans og að vekja áhuga hans á innihaldinu. Fyrirsagnirnar þurfa því að endurspegla innihaldið og vera áhugaverðar svo þær grípi athygli lesenda. Dæmi: Ský eru alls konar, Áhættusamt líf fyrr á öldum, Ólík lífsgæði fólks í Asíu.
Ef fyrirsögn uppfyllir ekki þessi skilyrði má nota undirfyrirsögn, sem er höfð með heldur smærra letri en aðalfyrirsögnin. Undirfyrirsögn er ekki nefnd í matsviðmiði Ritunarrammans en ef nemandi notar undirfyrirsögn er hún metin sem hluti af fyrirsögninni. Dæmi: Úti að aka: Umferðarreglur, Afríka: Náttúran og störfin, Eldgos: orsakir og afleiðingar.
Inngangur
Þótt fyrirsögn gefi umfjöllunarefni texta til kynna er ætlast til að höfundur kynni það formlega í upphafi skrifanna. Hjá byrjendum og nemendum stutt á veg komnir (á 1. og 2. þrepi) er ekki gerð krafa um formlega kynningu á umfjöllunarefni utan þess að fyrirsögn gefi vísbendingar um það. Hjá nemendum lengra á veg komnir (4. þrepi eða ofar) er ætlast til að umfjöllunarefni sé kynnt í fyrstu efnisgrein texta.
Auk þess að kynna viðfangsefni textans er innganginum ætlað að vekja áhuga lesenda og fá hann til að vilja lesa áfram. Nokkrar þekktar leiðir eru hvað þetta varðar og má þá helst nefna:
Spurningu velt upp fyrir lesandann að íhuga.
Tilvitnun sem tengist viðfangsefni textans.
Áhugaverð staðreynd um viðfangsefnið sett fram.
Lýsing
Lengd inngangs getur verið allt frá einni málsgrein til nokkurra efnisgreina. Stutt skrif hafa gjarnan stuttan inngang en langur texti langan inngang.
Meginmál
Aðalefni textans er undir meginmáli og þar er viðfangsefninu gerð skil og heimildir notaðar. Upplýsingar um viðfangsefni textans þurfa að vera skýrar og gefa góða mynd af umfjöllunarefni. Viðfangsefni textans eru gjarnan nokkur en tengjast yfirleitt einu meginviðfangsefni. Sem dæmi mætti nefna íslenska hestinn sem meginviðfangsefni og þar undir væri umfjöllun um útlit hans, gangtegundir og sögu hans. Umfjöllun um hvern þessara þátta er þá best fyrirkomið í afmörkuðum efnisgreinum þar sem lykilsetning fremst í hverri efnisgrein segir til um viðfangsefni hennar.
Vel getur reynst að gefa dæmi til að útskýra betur ákveðna hluti eða að útskýra sérhæfðan orðaforða viðfangsefnis, til að tryggt sé að upplýsingar komist til skila. Sem dæmi um þetta mætti nefna útskýringu á nöfnum karldýra, kvendýra og afkvæmi hestsins. Eins getur hjálpað að láta skýringarmynd eða myndrit fylgja textanum, þótt slíkt sé ekki metið í þessum ramma.
Lokaorð
Lokaorð gegna því hlutverki að draga saman aðalatriði meginmáls í stuttu máli og setja formlegan endi á textann. Hjá byrjendum og nemendum stutt á veg komnir (á 1.–3. þrepi) er ekki gerð krafa um formleg lokaorð. Í lokaorðum, frá 4. þrepi, er ætlast til að efni meginmáls sé dregið saman í stuttu máli með nýju orðalagi. Fyrir þá nemendur sem eru lengst komnir, á þrepi 6, er jafnframt ætlast til að þeir útvíkki umfjöllunarefnið, t.d. með spurningum eða með því að setja fram vangaveltur um efnið.
Heimildaskráning
Hjá eldri nemendum er gerð krafa um að upplýsingar í textanum séu byggðar á staðreyndum og heimildir notaðar til að sýna fram á sannleiksgildið. Eftir því sem nemendur þjálfast í heimildaritun er ætlast til að fleiri en ein heimild sé nýtt við skrifin. Einnig er ætlast til að nemendur kunni að nýta heimildir og skrá þær og tilvísanir á réttan hátt.
Rökfærslutextar
Rökfærslutexti hefur það meginmarkmið að setja fram sjónarmið, hugmynd eða staðhæfingu og sannfæra lesendur með röksemdum og dæmum. Hefðbundin uppsetning rökfærslutexta byggist á inngangi, meginmáli og lokaorðum.
Framvindurammi fyrir rökfærslutexta

Fyrirsögn
Fyrirsögn á annars vegar að gefa lesanda hugmynd um efni textans og hins vegar að vekja áhuga lesenda á honum. Hún þarf að gefa hugmynd um skoðun höfundar á viðfangsefni og vera áhugaverð svo viðtakendur vilji lesa lengra. Margar leiðir eru færar til að vekja áhuga viðtakenda, til dæmis staðhæfingar eða annað sem talið er að viðtakendur taki eftir, hafi gaman af eða jafnvel hrökkvi í kút yfir; Hafragrautur er ekki hollur, Skólabúningar skaðlegir og Frímínútur aflagðar!
Ef höfundur nær ekki að uppfylla ofantalin skilyrði í einfaldri fyrirsögn getur hann jafnframt ákveðið að nota undirfyrirsögn, sem er höfð með heldur smærra letri en aðalfyrirsögnin. Undirfyrirsögn er ekki nefnd í matsviðmiði Ritunarrammans en ef nemandi notar undirfyrirsögn er hún metin sem hluti af fyrirsögninni.
Inngangur
Hjá byrjendum og nemendum sem eru stutt á veg komnir (á þrepum 1–3) er ekki gerð krafa um inngang eða formlega kynningu á umfjöllunarefni utan þess að fyrirsögn gefi vísbendingar um það. Hjá nemendum á 4. þrepi og ofar er ætlast til þess að höfundur kynni umfjöllunarefni texta í inngangi þótt fyrirsögn geri það að einhverju leyti. Kynningin þarf að fela í sér lágmarksbakgrunnsupplýsingar um umfjöllunarefnið og skoðun höfundar á því. Auk þess er innganginum ætlað að vekja áhuga lesenda og fá hann til að vilja lesa áfram. Margar leiðir eru þekktar til að vekja áhuga lesenda og má nefna:
Spurningu velt upp fyrir lesandann að íhuga: Hefur þú velt fyrir þér hvað…?
Spurt án þess að búast við svari: Hvers vegna ættum við að gera það? Við sem …
Tilvitnun sem tengist viðfangsefni textans: Breskur skóli hefur bannað …
Áhugaverð staðreynd um viðfangsefnið sett fram: Íslendingar fá 26% af ráðlögum járnskammti úr morgunkorni.
Lengd inngangs getur verið allt frá einni málsgrein til nokkurra efnisgreina. Styttri skrif hafa almennt styttri inngang en lengri skrif.
Meginmál
Í meginmáli gerir höfundur grein fyrir skoðun sinni og gefur ástæður eða dæmi sem sýna hvers vegna hann er á þessari skoðun. Hjá byrjendum er einungis gerð krafa um eina ástæðu eða eitt dæmi en ætlast er til að eldri nemendur séu með fleiri. Útskýra þarf vel hverja ástæðu eða hvert dæmi en ekki er krafist heimilda svo meðferð sannleikans er ekki alltaf í hávegum höfð við ritun rökfærslutexta. Dæmi um þetta eru ýkjur, skoðun breytt í sannleika og staðhæfingar sem ekki eiga við rök að styðjast.
Ætlast er til að nemendur lengra á veg komnir (á 4. –6. þrepi) séu með nákvæman rökstuðning og þeir sem lengst eru komnir (á þrepi 6) byggi rökstuðning sinn á staðreyndum, tölfræði eða tilvitnunum. Þegar rökstuðningur er byggður á staðreyndum er jafnframt ætlast til að nemendur noti sannar heimildir og réttar tilvitnanir.
Lokaorð
Hjá byrjendum og nemendum sem eru stutt á veg komnir (á 1.–3. þrepi) er ekki gerð krafa um formleg lokaorð. Í lokaorðum, frá 4. þrepi, er ætlast til að skoðun höfundar sé endurtekin og rökin dregin saman í stuttu máli með nýju orðalagi. Eins er ætlast til að bent sé á lausn eða kallað eftir aðgerðum í lokaorðum. Dæmi: „Erum við tilbúin að taka þau nauðsynlegu skref sem þarf til að verða sjálfbær eða munum við halda áfram að treysta á úreltar aðferðir sem skaða plánetuna okkar?“







