Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Hugbúnaðarrammi Fjársýslunnar

Þjónustuaðili:

Reynsla Fjársýslunnar hefur sýnt fram á vöntun á heildstæðum leiðbeiningum fyrir opinbera aðila þegar kemur að fjárfestingu í hugbúnaði. 

Því var brugðið á það ráð að setja saman leiðarvísi fyrir opinbera aðila við kaup á hugbúnaði, með það að markmiði að einfalda ferlið og draga úr áhættu.

Leiðarvísirinn fjallar um mikilvægi þarfagreiningar, markmiðssetningar og varna gegn birgjalæsingu, ásamt því að útlista tæknilegar og lagalegar kröfur sem ber að hafa í huga við val á mismunandi tegundum hugbúnaðar, þar á meðal staðlaðar, sérlausnir og Power Platform.

Hann veitir einnig innsýn í mótun útboðsgagna, greiðslufyrirkomulags og krafna er varða þróun, prófanir og skil hugbúnaðar.

Byggt er á lærdómi Fjársýslunnar af fyrri útboðum, gögnum frá Stafrænu Íslandi og Fjármálaráðuneytinu, gögnum frá Norskum, Breskum og Dönskum systurstofnunum Ríkiskaupa ásamt reynslu höfundar af hugbúnaðarþróun.

    1. Upphaf verkefnis

    Í upphafi þarf að afla gagna til að auðveldara verði að finna lausn á hugsanlegri áskorun. Vert er að hafa í huga að setja markmið og lykilbreytur fram, huga að samningsstjórnun, gera áhættumat, drög að hugsanlegri tímaáætlun áður en farið er í eigindlega þarfagreiningu.

    Gott er að hafa eftirfarandi spurningar í huga:

    • Hvaða þarfir uppfylla innkaupin/verkefnið

    • Er hægt að breyta ferlum innanhúss og sleppa því kaupum?

    • Hver getur unnið verkið?

    • Hver er afurð verkefnisins og afmörkun?

    • Hverjar eru tímaskorður og skipulag verksins?

    • Hver er fjárhagsrammi verksins?

    • Hvaða ytri skilyrðum er verkið háð?

    Efni kaflans

    Læst staða hjá birgja

    Ef opinberi aðilinn er óviss hvort að um læsta stöðu hjá birgja er að ræða er hægt að spyrja eftirfarandi spurninga:

    • Er erfitt, dýrt eða óhagkvæmt er að skipta um birgja, þjónustuveitanda?

    • Er stofnunin ekki eigandi að grunnkóða hugbúnaðarins eða með afritunar/notkunarsamning.?

    • Er hugbúnaðurinn sér smíðaður og sérhæfður? Skrifaður t.d. hjá einum þróunaraðila.

    • Eru samtengingar/samhæfingar sér þróaðar? T.d. sér smíðað gagnagrunnasnið eða skilaboðasnið sem tengjast öðrum kerfum.

    • Er hugbúnaðurinn gamall og fáir sem geta þjónustað hann?

    • Eru lagalegar eða skuldbindingar innan samnings sem eru takmarkandi á þjónustu/hugbúnaðarsamninginn? T.d. hátt uppsagnargjald.

    • Er engin annar hugbúnaður til sem uppfyllir kröfur stofnunarinnar?

    • Hefur þróunin á hugbúnaðinum verið kostnaðarsöm og erfitt að réttlæta að leggja hann niður?

    Undankomuleiðir úr læstri stöðu

    Endurskoða þarf alla verkferla og verk sem eru nauðsynleg eru fyrir breytingarnar við það að fara frá eldra kerfi yfir í nýtt kerfi.

    Nauðsynlegt er að hafa varaáætlun sem tryggir áframhaldandi rekstur kaupanda ef ófyrirsjáanleg vandamál koma upp við breytingarnar.

    Hægt er að fara nokkrar leiðir við að losna úr læstri stöðu arfleiðarkerfis

    1. Er hægt að slökkva og eyða á kerfinu/hugbúnaðinum?

      1. Þarf kerfið/hugbúnaðurinn að vera til staðar?

      2. Er hægt að taka afrit af gögnum og flytja annað?

      3. Er hægt að breyta ferlum innan opinbera aðilans svo kerfið/ hugbúnaðurinn sé óþarfur?

    2. Gæti annað kerfi/hugbúnaður í notkun leyst þarfirnar?

      1. Oft er hægt að nýta stór hugbúnaðarkerfi sem nú þegar eru í notkun til að leysa þarfirnar. Má þar nefna Microsoft pakkan sem er í umsjón UMBRA.

    3. Er hægt að skipta út kerfinu/ hugbúnaðinum fyrir annað staðlað kerfi?

      1. Kerfið þarf að uppfylla nútímaþarfir og þróun.

      2. Gæti staðlaða kerfið uppfyllt þarfirnar með viðbótum?

    4. Gætu þarfirnar verið leystar með notkun á Power Platform eða sambærilegri lausn?

    5. Er hægt að hjúpa arfleiðarkerfið?

      1. Nýr framendi búin til og tengdur gegnum samþættingarlag við gamla kerfið. (API). Frammendi mögulega í gegnum island.is

      2. Arfleiðarkerfi notað sem bakendi í einhvern tíma.

    6. Skipta kerfinu / hugbúnaðinum út fyrir sér þróaða sérlausn.

    Flest allar þessar undankomuleiðir kalla þó eftir að fjármagn og tími sé settur í verkefnið. Ef farið er í að skipta út kerfinu þarf er um hefðbundið ferli að ræða sem hér er og hefur verið lýst.

    Læst staða innan frá

    Önnur tegund læstrar stöðu er innri læsing, þar sem opinber aðili hefur þróað eða tekið upp hugbúnað og fáir starfsmenn skipulagsheildar hafa þekkingu á virkni, þjónustu, uppsetningu hugbúnaðarins og fleira.

    Varnir gegn læstri stöðu innan frá eru þær sömu og hjá læstri stöðu hjá birgja.

    Mælt er þó með því að gefa eftirfarandi þáttum meiri athygli:

    1. Menntun og þjálfun starfsmanna.

      1. Til þess að varna þekkingarglötun á tilhögun hugbúnaðarins þarf að leggja áherslu á stöðuga menntun og þjálfun starfsmanna til að tryggja að þeir hafi þekkingu og færni til að vinna með hugbúnaðinn. Þetta minnkar líkurnar á því að opinberi aðilinn verði háður lykilstarfsmönnum eða ráðgjöfum.

    2. Skjölun og miðlun þekkingar.

      1. Bæði þarf birgi og starfsmenn að skjala og gera leiðbeiningar fyrir hugbúnaðinn og lykilferla. Það ætti að vera krafa að starfsmenn skrái og miðli þekkingu sinni innan skipulagsheildar.

    3. Samstarf við aðrar stofnanir.

      1. Með því að deila upplýsingum, hugbúnaðarlausnum, starfsháttum og fleira er hægt að koma í veg fyrir læsta stöðu innan frá þar sem þekkingin er dreifð innan hins opinbera.

    4. Ef opinberi aðilinn þarf eða telur hagkvæmast að skrifa/forrita sérlausn/viðbætur af starfsmanni/mönnum stofnunarinnar þarf að fara eftir kröfum um gerð sérlausna sem má finna neðar í þessum leiðbeiningum.

    Almenn vinnubrögð til varnar læstri stöðu

    Það eru nokkrar leiðir sem opinber stofnun getur notað til að forðast að verða of háð einum birgja þegar hugað er á kaupum á hugbúnaði.

    Hér eru nokkrir punktar sem gætu verið gagnlegir.

    Opinberir aðilar þurfa að fara ítarlega yfir þá valmöguleika sem birgjar bjóða upp á. Eftir markaðskönnun þarf að skoða sem flesta birgja sem bjóða upp á sambærilega vöru/þjónustu.

    • Hvað er í „pakkanum“

    • Verð og samsetning verðs.

    • Samningsskilmálar

    • Uppsagnarskilmálar

    • Langtímaáætlanir / tækni áætlanir (hvort þær henti opinbera aðilanum)

    Við samnings/útboðsgerð þarf að hafa í huga að semja um sveigjanleika er varðar:

    • Uppsögn samnings

    • Eignarrétt gagna

    • Flytjanleika gagna.

    • Flutningur á leyfum.

    • Skiljanleika samnings

    Setja þarf saman útgöngu áætlun (exit strategy).

    • Setja þarf niður skrefin, hvað þarf til og kostnaðinn sem tengist því að skipta um birgja eða flytja þjónustuna/gögnin á eigin vélar. Íhuga þarf áhrif á hagsmunaaðila/starfsmenn, flutning gagna, þjálfun og breytingar á undirstöðukerfum. Skýr áætlun hjálpar til að draga úr áhættu og auðveldar útgöngu ef þörf krefur.

    Byggðu upp tækniþekkingu innan opinbera aðilans.

    • Viðhaltu þekkingu og hæfni sem er þess megnuð að geta sameinað og unnið með mismunandi lausnir. Einnig er hægt að hafa 3. aðila sem ráðgefandi aðila.

    Opinberi aðilinn þarf að vera upplýstur um markaðinn.

    • Tækninýjungar, nýjar stefnur, nýir aðilar og fleira varðandi SaaS hugbúnað er hægt að nota sem pressu á birgja.

    Hafa ber í huga að í sumum tilfellum er ekki hægt að koma í veg fyrir birgja læsingu.

    Því þarf að vega og meta gaumgæfilega kosti og galla ásamt því að finna jafnvægi á milli nýsköpunar, skilvirkni og kostnaðar.

    Seinna í þessum leiðbeiningum verður farið í sértækar varnir við birgjalæsingu út frá hugbúnaðartegund.