Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Handbók um notkun lesfimi- og stuðningprófa Matsferils

Lesfimiprófið er fyrsta samræmda stöðu- og framvinduprófið sem fer inn í nýtt stafrænt viðmót Matsferils. Þrátt fyrir að notkun prófsins hafi verið og sé valkvæð hefur það að jafnaði verið lagt fyrir um 90% grunnskólanema á landinu enda veitir það mikilvægar upplýsingar um stöðu og þróun lestrarfærni nemenda. Stuðningsprófin, eða orðleysulestur og mat á sjónrænum orðaforða, verða einnig aðgengileg í Matsferli enda eiga niðurstöður þeirra að veita nánari skýringu á stöðu undirstöðuþátta í lestri ef gengi á lesfimiprófi er undir æskilegum mörkum.

    Lestrarkennslan

    Lestrarkennslan sjálf er veigamesti og flóknasti hlutinn í hringrás mats og kennslu. Þar reynir mikið á fagmennsku og þekkingu kennara, til dæmis vegna þess að staða nemenda í lestri innan bekkjar getur verið ólík og þarfir eða áskoranir í lestrarnámi mismiklar. Því er mikilvægt að hafa í huga að það er sjaldnast einn kennari sem kemur að eða ber ábyrgð á lestrarnámi og læsi nemenda heldur er mikilvægt að virkt samtal sé um stöðu nemenda í lestri og að stígandi í læsisnámi nemenda sé tryggð í gegnum öfluga læsisstefnu skóla.

    Hægt er að ræða um ytra og innra skipulag sem lýtur að heildarskipulagi læsiskennslu í skóla. Ytra skipulagið miðar að því að útskrifa nemendur með góða lestrarfærni og vel læsa á næsta skólastig. Innra skipulag snýr að fyrirkomulagi lestrarkennslu inni í bekk og tekur mið af stöðu bekkjar og viðfangsefnum í lestrarkennslu hverju sinni eða milli þess sem mat fer fram.

    Ytra skipulag lestrarkennslu er gjarnan tíundað í læsisstefnu skóla og ætti að endurspegla góðan skilning á þróun lestrarfærni og læsis þar sem stigvaxandi þyngd viðfangsefna á hverju skólastigi er í takt við kröfur sem gerðar eru til lestrarkunnáttu í námi. Gott ytra skipulag eða góð læsisstefna, sem endurspeglar nauðsynlega stígandi og samfellu í lestrarkennslu, getur verið kennurum mikilvægt leiðarljós varðandi markmið og viðfangsefni í lestrarkennslu á hverju stigi. Hún getur einnig veitt nemendum og forsjáraðilum góða heildarmynd af því hvað góð lestrarkunnátta og gott læsi felur í sér eða hvers konar hæfni nemandinn á að búa yfir við lok grunnskóla.

    Í Matsferli geta skólastjórar séð meðaltöl allra árganga sinna og borið t.d. saman við landsmeðaltal. Þetta eru dýrmætar upplýsingar sem veita skólum tækifæri til að rýna í eigin starfshætti varðandi fyrirkomulag lestrarkennslu. Mikilvægt er að stjórnendur og kennarar rýni saman í niðurstöður undir formerkjum lærdómssamfélags og deili hugmyndum, aðferðum og ábyrgð á frammistöðu allra nemenda skólans. Rýnin getur dregið fram nauðsyn þess að gera ákveðnar breytingar sem þurfa að rata inn í læsisstefnu skólans við endurskoðun hennar en mikilvægt er að stefnan sé lifandi plagg sem endurspeglar áherslur hverju sinni og sé í raun hið fasta leikskipulag sem allt starfsfólk skóla sameinast um að fylgja vel eftir í þágu nemenda.