Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Handbók um notkun lesfimi- og stuðningprófa Matsferils

Lesfimiprófið er fyrsta samræmda stöðu- og framvinduprófið sem fer inn í nýtt stafrænt viðmót Matsferils. Þrátt fyrir að notkun prófsins hafi verið og sé valkvæð hefur það að jafnaði verið lagt fyrir um 90% grunnskólanema á landinu enda veitir það mikilvægar upplýsingar um stöðu og þróun lestrarfærni nemenda. Stuðningsprófin, eða orðleysulestur og mat á sjónrænum orðaforða, verða einnig aðgengileg í Matsferli enda eiga niðurstöður þeirra að veita nánari skýringu á stöðu undirstöðuþátta í lestri ef gengi á lesfimiprófi er undir æskilegum mörkum.

    Lestrarkennslan

    Lestrarkennslan sjálf er veigamesti og flóknasti hlutinn í hringrás mats og kennslu. Þar reynir mikið á fagmennsku og þekkingu kennara, til dæmis vegna þess að staða nemenda í lestri innan bekkjar getur verið ólík og þarfir eða áskoranir í lestrarnámi mismiklar. Því er mikilvægt að hafa í huga að það er sjaldnast einn kennari sem kemur að eða ber ábyrgð á lestrarnámi og læsi nemenda heldur er mikilvægt að virkt samtal sé um stöðu nemenda í lestri og að stígandi í læsisnámi nemenda sé tryggð í gegnum öfluga læsisstefnu skóla.

    Við skipulagningu stoðþjónustu getur verið gott að eyrnamerkja ákveðinn kennslustundafjölda lestrarstuðningi sem er hugsaður fyrir nemendur sem glíma við lestrarerfiðleika. Í lestrarstuðningi er gert ráð fyrir að unnið sé með nemendur á öllum stigum í lotum yfir skólaárið, ýmist út frá einstaklingsþörfum eða í litlum hópum en fyrirkomulagið þarf alltaf að taka mið af aldri og eðli vanda nemenda.

    Til að tryggja góða nýtingu ættu skólar að setja fram ákveðin skilyrði eða lýsingu varðandi nemendur sem fá lestrarstuðning. Skýrar línur í þeim efnum koma nemendum, forsjáraðilum og öllum þeim sem koma að lestrarkennslu til góða. Þannig er komið í veg fyrir að nemendum sé vísað að óþörfu í lestrarstuðning, komið í veg fyrir ofvöxt stoðþjónustu og bjargráðum forgangsraðað í takt við raunverulega þörf.

    Góð og vönduð lestrarkennsla í bekk er árangursríkasta leiðin til að hjálpa langflestum nemendum og ætti lestrarstuðningur eingöngu að vera fyrir nemendur sem glíma við vanda sem ekki verður mætt inni í bekk. Þessir nemendur geta þó alla jafna haft ávinning af því að taka þátt í lestrarkennslu með bekkjarfélögum þar sem þeir geta notið stuðnings lengra kominna nemenda í gegnum aðferðir eins og K-PALS, G-PALS og PALS, kórlestur og endurtekinn lestur svo dæmi séu tekin.

    Möguleikar lítilla skóla til að bjóða upp á öfluga stoðþjónustu, og þar af leiðandi lestrarstuðning, eru oft takmarkaðri en stærri skólanna en á móti kemur að þar eru árgangar oft litlir og fáir nemendur í bekk. Það gerir kennurum kleift að koma vel til móts við einstaklingsbundnar þarfir nemenda en áskoranirnar geta engu að síður verið margar og því er sveigjanleiki í kennslufyrirkomulagi og góð samvinna kennara ákaflega mikilvæg. Kennsla nemenda með lestrarerfiðleika er vissulega krefjandi en það er skylda kennara og annars fagfólks í skólum að bregðast rétt við stöðu nemenda og leita aðstoðar annarra ef þekking eða hæfni er ekki til staðar innan skólans.