Handbók um notkun lesfimi- og stuðningprófa Matsferils
Þjónustuaðili:
Lesfimiprófið er fyrsta samræmda stöðu- og framvinduprófið sem fer inn í nýtt stafrænt viðmót Matsferils. Þrátt fyrir að notkun prófsins hafi verið og sé valkvæð hefur það að jafnaði verið lagt fyrir um 90% grunnskólanema á landinu enda veitir það mikilvægar upplýsingar um stöðu og þróun lestrarfærni nemenda. Stuðningsprófin, eða orðleysulestur og mat á sjónrænum orðaforða, verða einnig aðgengileg í Matsferli enda eiga niðurstöður þeirra að veita nánari skýringu á stöðu undirstöðuþátta í lestri ef gengi á lesfimiprófi er undir æskilegum mörkum.
Lestrarkennslan
Lestrarkennslan sjálf er veigamesti og flóknasti hlutinn í hringrás mats og kennslu. Þar reynir mikið á fagmennsku og þekkingu kennara, til dæmis vegna þess að staða nemenda í lestri innan bekkjar getur verið ólík og þarfir eða áskoranir í lestrarnámi mismiklar. Því er mikilvægt að hafa í huga að það er sjaldnast einn kennari sem kemur að eða ber ábyrgð á lestrarnámi og læsi nemenda heldur er mikilvægt að virkt samtal sé um stöðu nemenda í lestri og að stígandi í læsisnámi nemenda sé tryggð í gegnum öfluga læsisstefnu skóla.
Einn tilgangur námsmats er að hjálpa kennurum að ákvarða næstu skref í kennslu á grundvelli gagnanna sem þeir hafa aflað um stöðu nemenda. Á fyrstu stigum lestrarnáms er meginviðfangsefni nemandans að ná tökum á hljóðaaðferðinni, að leggja grunninn að aukinni lesfimi, að læra að lesa. Ef vel er að verki staðið og gögn lesfimi- og stuðningsprófa Matsferils notuð markvisst til grundvallar á skipulagi lestrarkennslu og vali á viðfangsefnum er mögulegt að útskrifa langflesta nemendur yfir á miðstigið með góða, aldurssvarandi færni.
Í túlkunarrammanum fyrir lesfimiprófið er gert ráð fyrir því að nemendur bæti leshraða sinn jafnt og þétt allan grunnskólann enda verða áskoranirnar í námi sífellt meiri eftir því sem námi vindur fram og þörfin fyrir góða lestrarkunnáttu æ ríkari. Það er því nauðsynlegt að nota niðurstöður á markvissan hátt fyrir alla árganga og taka niðurstöður á mið- og unglingastigi jafn alvarlega og á yngsta stigi. Að öðrum kosti skerðast möguleikar margra nemenda til að geta nýtt sér lestur til náms eða ánægju með árangursríkum hætti.
Lesfimi- og stuðningsprófin snúast fyrst og fremst um að leggja mat á stöðu tæknilegrar hliðar læsis. Eins og fram kemur í kaflanum um tengsl lesfimi og lesskilnings er markmið alls lestrar að skilja það sem lesið er og að geta nýtt sér upplýsingar í samræmi við tilgang lestrar hverju sinni. Efling lesskilnings er því annað meginviðfangsefni allrar lestrarkennslu og mikilvægt að hugað sé að honum allt frá upphafi. Duke, Ward og Pearson (2021) benda á að lestrarkennsla og kennsla í beitingu lesskilningsaðferða þurfi að fara saman frá upphafi lestrarnáms og að nemendur þurfi að geta lært snemma að beita einföldum aðferðum, t.d. að bregðast rétt við þegar lesskilning þrýtur, að læra aðferðir reyndra lesara í glímu við texta og að efla málskilning með umræðum um texta og úrvinnslu í gegnum ritun. Í orðaforða- og lesskilningshluta Læsisvefsins er að finna fjöldamargar aðferðir sem nota má til að efla lesskilning nemenda.
Eftir því sem viðfangsefni og kröfur í námi verða fleiri og meiri verður tilgangur lestrar margbreytilegri og textategundirnar sem nemandinn þarf að glíma við æ fjölbreyttari. Hann þarf því að læra aðferðir sem hjálpa honum að tileinka sér efni námsgreina með árangursríkum hætti og mikilvægt að kennsla og beiting aðferða fari ekki fram í tómarúmi heldur í tengslum við raunveruleg viðfangsefni innan greinanna. Þannig lærir nemandinn að nýta sér lestur til náms. KVL eða KVL+, Frayer líkanið og Venn kort eru aðferðir sem gera ráð fyrir skipulegri nálgun við lestur og úrvinnslu á efni texta og styðja við lestur til náms.


