Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Handbók um notkun lesfimi- og stuðningprófa Matsferils

Lesfimiprófið er fyrsta samræmda stöðu- og framvinduprófið sem fer inn í nýtt stafrænt viðmót Matsferils. Þrátt fyrir að notkun prófsins hafi verið og sé valkvæð hefur það að jafnaði verið lagt fyrir um 90% grunnskólanema á landinu enda veitir það mikilvægar upplýsingar um stöðu og þróun lestrarfærni nemenda. Stuðningsprófin, eða orðleysulestur og mat á sjónrænum orðaforða, verða einnig aðgengileg í Matsferli enda eiga niðurstöður þeirra að veita nánari skýringu á stöðu undirstöðuþátta í lestri ef gengi á lesfimiprófi er undir æskilegum mörkum.

    Lestrarkennslan

    Lestrarkennslan sjálf er veigamesti og flóknasti hlutinn í hringrás mats og kennslu. Þar reynir mikið á fagmennsku og þekkingu kennara, til dæmis vegna þess að staða nemenda í lestri innan bekkjar getur verið ólík og þarfir eða áskoranir í lestrarnámi mismiklar. Því er mikilvægt að hafa í huga að það er sjaldnast einn kennari sem kemur að eða ber ábyrgð á lestrarnámi og læsi nemenda heldur er mikilvægt að virkt samtal sé um stöðu nemenda í lestri og að stígandi í læsisnámi nemenda sé tryggð í gegnum öfluga læsisstefnu skóla.

    Viðfangsefni heimalestrar eða lestrarþjálfunar þurfa að haldast í hendur við viðfangsefni lestrarkennslunnar og stöðu nemenda í lestri hverju sinni. Í fyrstu er lögð áhersla á að nemendur nái tökum á hljóðaaðferðinni og nái samhliða því tökum á lestri orðmynda sem leggja grunninn að góðri lesfimi með hliðsjón af eðlilegri þróun lestrar. Á sama tíma þarf að huga að því að nemendur komi sér upp góðu lestrarlagi sem tryggir að merking textans komist til skila en allt frá upphafi þarf að vinna með orðaforða- og lesskilningsaðferðir í merkingarbæru samhengi í öllum bóklegum námsgreinum. Hér gildir að þjálfa það sem þarfnast þjálfunar og því þarf, sérstaklega á fyrri stigum lestrarnáms, að hafa í huga stöðu nemenda og sníða þjálfunina að henni. Markmið þjálfunar og aðferðir þurfa því að vera fjölbreytt og lestrarkennarinn meðvitaður um það sem þjálfa þarf hverju sinni. „Korter og kvittað“ fyrir alla nemendur á því sjaldnast við en markmiðið með slíkri þjálfun hefur alla jafna verið nokkuð óljóst í hugum nemenda og oft ekki til þess fallið að ýta undir áhuga þeirra á lestri þar sem skráningin er fábreytt og úrvinnslan eftir lestur lítil eða jafnvel engin.

    Eftir að nemandinn hefur náð góðum tökum á lestri og lesfimin orðin öflug þarf að styðja kröfuna um heimalestur með góðum rökum og tryggja að hún hafi gildi fyrir nemandann, að hann hafi val, gott aðgengi að fjölbreyttum bókakosti og möguleikum á úrvinnslu. Einnig er mikilvægt að tengja kröfuna um heimalestur við lestur í námsgreinum en texti námsgreina getur oft verið flókinn og innihaldið mörg ný orð og greinabundin hugtök sem þarf að kafa í. Í þessu samhengi kemur þjálfun í beitingu lesskilningsaðferða að gagni sem viðfangsefni í heimalestri.

    Á Læsisvefnum er að finna efnið Spurt og svarað um lestrarþjálfun og Lesfimiþjálfun og eldri nemendur. Þar eru ýmsar gagnlegar ábendingar fyrir bæði kennara og forsjáraðila sem geta nýst við lestrarþjálfun eða heimalestur.