Handbók um notkun lesfimi- og stuðningprófa Matsferils
Þjónustuaðili:
Lesfimiprófið er fyrsta samræmda stöðu- og framvinduprófið sem fer inn í nýtt stafrænt viðmót Matsferils. Þrátt fyrir að notkun prófsins hafi verið og sé valkvæð hefur það að jafnaði verið lagt fyrir um 90% grunnskólanema á landinu enda veitir það mikilvægar upplýsingar um stöðu og þróun lestrarfærni nemenda. Stuðningsprófin, eða orðleysulestur og mat á sjónrænum orðaforða, verða einnig aðgengileg í Matsferli enda eiga niðurstöður þeirra að veita nánari skýringu á stöðu undirstöðuþátta í lestri ef gengi á lesfimiprófi er undir æskilegum mörkum.
Lestrarkennslan
Lestrarkennslan sjálf er veigamesti og flóknasti hlutinn í hringrás mats og kennslu. Þar reynir mikið á fagmennsku og þekkingu kennara, til dæmis vegna þess að staða nemenda í lestri innan bekkjar getur verið ólík og þarfir eða áskoranir í lestrarnámi mismiklar. Því er mikilvægt að hafa í huga að það er sjaldnast einn kennari sem kemur að eða ber ábyrgð á lestrarnámi og læsi nemenda heldur er mikilvægt að virkt samtal sé um stöðu nemenda í lestri og að stígandi í læsisnámi nemenda sé tryggð í gegnum öfluga læsisstefnu skóla.
Læsisvefnum er ætlað að vera verkfærakista kennara og hefur hann að geyma ýmsar upplýsingar, aðferðir og bjargir sem nýtast kennurum við skipulag og val á viðfangsefnum í læsiskennslu, t.d. í kjölfar mats á lestri. Aðferðirnar, sem valdar hafa verið inn á vefinn, eru nær allar byggðar á niðurstöðum rannsókna og getur notkun þeirra lagt grunninn að fjölbreyttri og árangursríkri læsiskennslu á öllum stigum grunnskólans. Efnið á vefnum er flokkað í samræmi við meginþætti læsis og er ætlað að auðvelda kennurum að finna það sem þeir leita að hverju sinni.
Við framsetningu aðferða á vefnum er leitast við að setja þær í skýrt samhengi og útskýra vel í hverju gildi aðferðarinnar liggur. Einnig eru sett fram þau markmið sem aðferðin getur uppfyllt og gögn sem þarf við framkvæmdina sem lýst er í skrefum. Í mörgum tilvikum fylgja bjargir í formi veggspjalda eða annars sem hægt er að nota á meðan á innlögn og þjálfun stendur. Margar aðferðanna eru einfaldar í framkvæmd en hafa þarf í huga að engin aðferð er svo einföld að það þurfi ekki að beita henni nokkrum sinnum til að bæði nemendur og kennari nái tökum á henni og full áhrif hennar komi fram. Einnig er mikilvægt að hafa í huga að beiting aðferðar þarf að eiga sér stað á réttum tímapunkti í lestrarnámi til að vera árangursrík (Hattie, 2009). Með því að kynna sér og nota nýjar aðferðir markvisst í kennslu stækkar verkfærakistan smám saman og kennarinn verður sífellt færari um að koma betur til móts við þarfir nemenda sinna í lestrarnámi þeirra.


