Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Handbók um notkun lesfimi- og stuðningprófa Matsferils

Lesfimiprófið er fyrsta samræmda stöðu- og framvinduprófið sem fer inn í nýtt stafrænt viðmót Matsferils. Þrátt fyrir að notkun prófsins hafi verið og sé valkvæð hefur það að jafnaði verið lagt fyrir um 90% grunnskólanema á landinu enda veitir það mikilvægar upplýsingar um stöðu og þróun lestrarfærni nemenda. Stuðningsprófin, eða orðleysulestur og mat á sjónrænum orðaforða, verða einnig aðgengileg í Matsferli enda eiga niðurstöður þeirra að veita nánari skýringu á stöðu undirstöðuþátta í lestri ef gengi á lesfimiprófi er undir æskilegum mörkum.

    Lestrarkennslan

    Lestrarkennslan sjálf er veigamesti og flóknasti hlutinn í hringrás mats og kennslu. Þar reynir mikið á fagmennsku og þekkingu kennara, til dæmis vegna þess að staða nemenda í lestri innan bekkjar getur verið ólík og þarfir eða áskoranir í lestrarnámi mismiklar. Því er mikilvægt að hafa í huga að það er sjaldnast einn kennari sem kemur að eða ber ábyrgð á lestrarnámi og læsi nemenda heldur er mikilvægt að virkt samtal sé um stöðu nemenda í lestri og að stígandi í læsisnámi nemenda sé tryggð í gegnum öfluga læsisstefnu skóla.

    Það er samstarfsverkefni heimilis og skóla að gera nemendur læsa og tryggja að lestrarnám barna verði farsælt. Það er best gert með öflugu samstarfi allt frá upphafi formlegrar skólagöngu þar sem væntingar, hlutverk og ábyrgð beggja aðila er skýr en skólinn, sem er skipaður fagfólki með þekkingu á lestrarkennslu, leiðir alltaf samstarfið og leggur línurnar. Þannig bera forsjáraðilar ábyrgð á almennu læsisuppeldi og þjálfun á meðan hún þarf að fara fram en skólinn á því að kenna nemendum aðferðir og leiðir sem auka líkurnar á því að þeir öðlist næga lestrarfærni til að geta nýtt sér lestur til náms.

    Á Íslandi er sterk hefð fyrir því að forsjáraðilar taki að sér að sinna heimalestri eða lestrarþjálfun barna, einkum á fyrstu stigum lestrarnáms, og því er mikilvægt að samtal eigi sér stað milli heimils og skóla um viðfangsefnið. Skólar þurfa að vera leiðandi í því samtali eins og áður segir og bjóða forsjáraðilum upp á fræðslu sem gerir þá vel í stakk búna til að sinna bæði þjálfunarhlutverki sínu og að efla almennt læsi barna sinna. Miðstöð menntunar og skólaþjónustu hefur gefið út efnið Samvinna um læsi en það er ætlað skólum sem vilja útbúa fræðslu fyrir foreldrahópinn sem er að stíga sín fyrstu skref í þjálfunarhlutverkinu. Í efninu er að finna ákveðna fyrirmynd að slíkri fræðslu sem skólar geta nýtt í samræmi við eigin áherslur og væntingar. Skólastjórnendur og kennarar eru hvattir til að nýta sér efnið, að hluta til eða öllu leyti, en með notkun þess myndast grundvöllur að samvinnu þar sem hlutverk og væntingar til samstarfsins eru skýrar.