Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Handbók farsældar - innleiðing farsældarlaganna á landsvísu

Auk þessarar rafrænu útgáfu er einnig til PDF útgáfa af handbókinni.

    Fyrirmyndarverkefni farsældar

    Frumkvöðlasveitarfélög farsældar

    Sveitarfélögin Akraneskaupstaður, Akureyrarbær, Sveitarfélagið Árborg og Vestmannaeyjabær tóku að sér að gerast svokölluð ,,frumkvöðlasveitarfélög‘‘ við innleiðingu farsældarlaganna frá upphafi innleiðingar. Með því að taka þetta hlutverk að sér hefur það gefið sveitarfélögunum bæði rými og tækifæri til að reka sig á áskoranir og afla þannig upplýsinga sem önnur sveitarfélög geta lært af. Hlutverkið felur einnig í sér reglubundna samvinnu við Barna- og fjölskyldustofu á innleiðingartímanum sem hefur skapað grundvöll til umræðu um áskoranir og ávinning og hefur það m.a. leitt af sér samráð um gerð og prufukeyrslu stuðningsefnis.

    Hér að neðan má finna upplýsingar um verkefni sem frumkvöðlasveitarfélögin hafa unnið að með góðum árangri, svokölluð fyrirmyndarverkefni farsældar. Vonir standa til þess að önnur sveitarfélög og stofnanir geti lært af reynslu þeirra og nýtt í sinni vegferð í átt að farsæld allra barna.

    Heiða Ösp Kristjánsdóttir, sviðsstjóri fjölskyldusviðs

    Kristín Björk Jóhannsdóttir, ráðgjafi og verkefnastjóri í farsældarteymi

    Farsældarteymi Árborgar var stofnað í upphafi árs 2022 þegar lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna tóku gildi. Fulltrúar í farsældarteyminu komu frá skólaþjónustu, frístundaþjónustu og velferðarþjónustu en þessar deildir mynda fjölskyldusvið Árborgar ásamt undirstofnunum. Hlutverk farsældarteymisins var að leiða innleiðingu á þverfaglegum starfsháttum, móta verkferla, styðja við snemmtækan stuðning og þróa stigskipta farsældarþjónustu.  

    Farsældarteymið sem þverfaglegur samvinnuhópur hóf vegferðina að mótun og innleiðingu samþættrar þjónustu í Árborg með því að rýna á dýptina í verklag og vinnubrögð innan fjölskyldusviðs í þeim tilgangi að greina áskoranir og tækifæri innan eigin stjórnsýslu.  

    Til staðar var vel varðað verklag á milli leik- og grunnskóla og skólaþjónustu til að mæta áhyggjum af þroska og velferð barna. Auk þess var þegar rík hefð fyrir þverfaglegri teymisvinnu í kringum málefni barna með sérfræðingum skólaþjónustu, frístundaþjónustu, ráðgjöfum velferðarþjónustu í fötlunarmálum og barnavernd. Frístundaþjónustan hefur jafnframt skipað lykilhlutverk í lausnavinnu með því að búa yfir bæði snemmtækum og sérhæfðari úrræðum innan sinna raða. 

    Spurningin var því hverju farsældarlögin áttu að bæta við? Var þjónustan ekki nú þegar snemmtæk og samþætt? 

    FRAMKVÆMD 

    Til þess að greina betur gildi og ávinning farsældarlaganna var nauðsynlegt að skoða vel hvernig þau töluðu saman við önnur lög og reglugerðir sem hafa mótað starfshætti fjölskyldusviðs.  

    Ígrundun á dýptina fól í sér að rýna í hugmyndakerfi starfstétta og deilda með það að leiðarljósi að skilja hvernig hugmyndir hafa mótað faglega sýn og vinnulag innan fjölskyldusviðs. Farsældarteymið nýtti sína samráðsfundi til að spegla verklag út frá ólíkum sjónarmiðum og regluverki sem fulltrúar fylgdu eftir inn í sínar deildir. Verkefnastjóri leiddi jafnframt ígrundandi samtal með skólastjórnendum í leik- og grunnskólum, tengiliðum og málstjórum þar sem horft var inn á við í starfshætti stofnana og deilda. 

    Þegar horft er til baka þá voru þessi samtöl faglega upplýsandi og lögðu grunninn að þeim farsældarskrefum sem varða þurfti á innleiðingartímanum.  Upp á yfirborðið komu fram mynstur hugmynda um eðli og ávinning samþættrar þjónustu án hindrana. Þessar hugmyndir þurfti að brúa í sameiginlega sýn til að tryggja að allir þjónustuveitendur væru á sömu vegferð við innleiðingu farsældarlaganna. Viðurkenning á að deildir fjölskyldusviðs nálgast mál með mismunandi hætti út frá ólíkum lagagrunni var fyrsta skrefið að sameiginlegri sýn. Traust á milli faghópa og auðmýkt gagnvart þeirri ábyrgð sem fylgir því að hafa heimild til að miðla upplýsingum á milli þjónustuveitenda var næsta skrefið. Skilningur á mikilvægi þess að styðja við þróun faglegra starfshátta var lokaskrefið. Sameiginleg sýn farsældarteymis Árborgar þróaðist í þá átt að skýr upplýsingamiðlun og boðleiðir í stjórnsýslu væru lykillinn að því að skapa örugg tengsl á milli þjónustuveitenda og mikilvæg forsenda þess að geta veitt samþætta þjónustu án hindrana. Í raun að fjarlægja kerfislægar hindranir með því að samþætta fyrst innri starfsemi. Teiknaðir voru upp ferlar sem þurfti að brúa og varða með skilvirkum leiðum og aðgengilegum verkfærum. Stafræn þjónusta sveitarfélagsins, persónuverndarfulltrúi og skjalastjóri sveitarfélagsins komu þá til sögunnar í þróunarferlinu og unnu með farsældarteyminu að framsýnum lausnum til að einfalda samstarf þvert á þjónustukerfi. Inn í þróunarvinnuna komu jafnframt fulltrúar frá farsældarsviði BOFS með sína sérhæfðu þekkingu ásamt samstarfsfólki í öðrum sveitarfélögum sem voru á sömu vegferð.   

    ÁRANGUR 

    Mögnuð þverfagleg samvinna sem hefur haft þann ávinning í för með sér að þróa stafrænar lausnir sem styðja eiga við skilvirka og samþætta vinnslu þjónustukerfa. Þróunarferlið er nú á lokametrum og innleiðing á þessum stafrænu lausnum komin vel á veg. Umgjörðin byggir á að nýta þau eyðublöð sem BOFS hefur gefið út við hönnun sniðmáta í málakerfi. 

    • Beiðni um samtal við tengilið á island.is: Markmiðið er að auðvelda aðgengi foreldra/barna að tengiliðum með rafrænni beiðni um samtal til að meta þörf fyrir samþættingu þjónustu. Beiðnin virkjast beint inn í málakerfi grunnþjónustu sem á að styðja við skilvirka svörun við beiðni um samtal. 

    • Málakerfi grunnþjónustu: Markmiðið er að tengiliðurinn hafi aðgang að vinnslusvæði sem styður við faglega og skilvirka vinnslu. Sniðmát  fyrir matsviðtalið og áætlun um næstu skref er aðgengileg ásamt rafrænni undirskrift á beiðni um samþættingu þjónustu. Tengiliður getur í framhaldi matsviðtals, með einföldum og öruggum hætti, miðlað niðurstöðum og undirritaðri beiðni um samþættingu í gegnum málakerfið til barnateymis velferðarþjónustu sem úthlutar málstjóra í málið. Upplýsingar um afgreiðslu vistast beint inn í mál barns sem tryggir að ekki verði rof í vinnslu. 

    • Málakerfi fjölskyldusviðs: Markmiðið er að málakerfi í grunnþjónustu og málakerfi hjá fjölskyldusviði verði tengd saman svo vinnslan geti orðið samhæfð þvert á þjónustukerfi. Málstjóri hafi aðgang að rafrænu sniðmáti fyrir stuðningsáætlun sem tryggir þjónustuveitendum aðgang að skjalinu á vinnslustigi og lokaútgáfu. Sniðmát fyrir fundargerðir og samþykkt verkefni verða einnig til staðar í málakerfinu og tengd inn í mál barns í grunnþjónustu. 

    Lærdómur farsældarteymis Árborgar í þessu innleiðingarferli er að forsenda þess að samþætting verði að veruleika er að tryggja skilvirka innri verkferla í takt við stjórnsýslu í hverju sveitarfélagi. Stafrænar lausnir munu til framtíðar styðja við faglega og samþætta vinnslu mála þannig að tími þjónustuveitenda nýtist sem best í að styðja við farsæld barna og fjölskyldna með þverfaglegri samvinnu.  

    Ritað: Júní 2024