Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Handbók farsældar - innleiðing farsældarlaganna á landsvísu

Auk þessarar rafrænu útgáfu er einnig til PDF útgáfa af handbókinni.

    Fyrirmyndarverkefni farsældar

    Frumkvöðlasveitarfélög farsældar

    Sveitarfélögin Akraneskaupstaður, Akureyrarbær, Sveitarfélagið Árborg og Vestmannaeyjabær tóku að sér að gerast svokölluð ,,frumkvöðlasveitarfélög‘‘ við innleiðingu farsældarlaganna frá upphafi innleiðingar. Með því að taka þetta hlutverk að sér hefur það gefið sveitarfélögunum bæði rými og tækifæri til að reka sig á áskoranir og afla þannig upplýsinga sem önnur sveitarfélög geta lært af. Hlutverkið felur einnig í sér reglubundna samvinnu við Barna- og fjölskyldustofu á innleiðingartímanum sem hefur skapað grundvöll til umræðu um áskoranir og ávinning og hefur það m.a. leitt af sér samráð um gerð og prufukeyrslu stuðningsefnis.

    Hér að neðan má finna upplýsingar um verkefni sem frumkvöðlasveitarfélögin hafa unnið að með góðum árangri, svokölluð fyrirmyndarverkefni farsældar. Vonir standa til þess að önnur sveitarfélög og stofnanir geti lært af reynslu þeirra og nýtt í sinni vegferð í átt að farsæld allra barna.

    Silja Rós Guðjónsdóttir, umsjónarfélagsráðgjafi og innleiðingarstjóri farsældar

    Vestmannaeyjabær er nú á sínu þriðja ári í að vinna eftir lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna en opnað var fyrir beiðnir um samþættingu frá foreldrum og börnum í byrjun árs 2022.

    Framkvæmd

    Áður en lögin voru samþykkt þá bjuggum við svo vel að því að öflugt samstarf var þá þegar á milli velferðar- og skólaþjónustu. Fjölskyldu- og fræðslusvið var sameinað í eitt svið árið 2006, síðan þá hefur samstarfið verið gott og boðleiðir stuttar en út frá samþættingarvinnunni varð samstarfið enn öflugra og betra.

    Í innleiðingarferlinu byrjuðum við á að kortleggja stöðuna hjá okkur, þ.e. hvað við værum að gera nú þegar, hvaða úrræði og samstarfsverkefni við höfðum og þá hvort og hvernig það passaði inn í samþættingarvinnuna. Einnig var kortlagt hvað vantaði upp á til að uppfylla öll skilyrði. Við byrjuðum á að boða alla þjónustu-veitendur á fund þar sem lögin og hlutverk þjónustuveitenda var vel kynnt og ræddar voru ýmsar leiðir og útfærslur af vinnunni og samstarfinu. Einnig voru haldnar kynningar fyrir allt starfsfólk þjónustuveitenda sem og fyrir kjörna fulltrúa sveitarfélagsins. Því næst voru teknar ákvarðanir í samstarfi við stjórnendur þjónustu-veitenda um hver myndi sinna hlutverk tengiliða og málstjóra, svo var farið í það að útbúa eyðublöð og verkferla fyrir bæði tengiliði og málstjóra.

    Þegar þetta var allt klárt var farið í það að auglýsa þjónustuna og var hún auglýst á öllum miðlum sveitarfélagsins og kynnt fyrir foreldrum á foreldrafundum í skólunum. Áhuginn leyndi sér ekki því um leið og hægt var að senda inn beiðni um samþættingu þjónustu bárust okkur fjölmargar beiðnir. Í lok árs 2022 var fjöldi mála í samþættingu 105, af rúmlega 900 börnum sem þá voru búsett í sveitarfélaginu. Þetta fór hratt og vel af stað hjá okkur en við finnum í dag, núna á þriðja ári, ákveðið jafnvægi vera komið á beiðnirnar. Hægst hefur á fjölda beiðna um samþættingu sem við teljum eðlilegt í ljósi þess hversu ört þær komu inn í byrjun og eru sum af þeim málum enn í virkri vinnslu. Við skynjum jákvæðar breytingar og ánægju meðal þeirra sem bæði veita þjónustuna og njóta hennar. Við erum einnig alltaf að læra eitthvað nýtt og þróa og betrumbæta vinnuna og útfærsluna hjá okkur eftir því sem hentar best fyrir þjónustuþega og þjónustuveitendur.

    Aðlögun og breytingar

    Sem dæmi um breytingar sem hafa átt sér stað er hægt að nefna breytingar á eyðublöðum og verferlum, og höfum við uppfært eyðublöð og verkferla eftir því sem hentar best.

    Einnig hafa orðið breytingar á tengiliðum sem fyrst voru deildar-stjórar í leik- og grunnskóla. Í leikskólunum fólst breytingin í því að sérkennslustjóri hvers leikskóla er nú tengiliður í stað deildar-stjóra, það var farsæl breyting að okkar mati. Í grunnskólunum varð breytingin sú að starfsmaður skólaþjónustu var skilgreindur sem verkefnastjóri tengiliða, hann er þá starfsmaður skóla-þjónustu en með aðsetur út í skólunum. Verkefnastjórinn heldur því bæði utan um tengiliði skólans og sinnir tengiliðahlutverkinu. Hann ber einnig ábyrgð á því að kynna samþætta þjónustu fyrir börnum og foreldrum skólans og hefur frá því hann byrjaði gengið í allar stofur skólans, kynnt sig og sitt hlutverk. Við teljum þetta einnig vera farsæla breytingu hjá okkur. Verkefnastjóri tengiliða er í góðu samstarfi við innleiðingarstjóra sem og málstjóra á 2. og 3. stigs þjónustu.

    Einhverjar breytingar voru á því hverjir voru skilgreindir sem málstjórar en fyrst var ákveðið að allir ráðgjafar félags- og skóla-þjónustu yrðu málstjórar. Stuttu síðar ákváðu innleiðingarstjórar að skólasálfræðingur yrði ekki málstjóri heldur nýttur sem úrræði inn í stuðningsáætlun. Börn í samþættingu gátu því fengið þrjú viðtöl hjá sálfræðingi inn í áætlun hjá sér. Sálfræðingurinn metur svo hvort þörf er á áframhaldandi vinnslu hjá sér. Þetta var einnig góð breyting og höfum við bætt við hegðunarráðgjafa sem úrræði í stuðningsáætlun.

    Það hafa orðið ótal breytingar á því hvernig beiðnum var útdeilt. Fyrst fór það í gegnum nemendavernd þar sem beiðnum var útdeilt til deildarstjóra sem þá voru tengiliðir. Það stóð ekki lengi yfir og var alfarið tekið út úr nemendaverndinni. Í dag er ekki verið að bíða eftir neinum fundum og því engin bið eftir að máli sé komið á réttan stað. Börn og foreldrar hafa óhindraðan aðgang að tengiliðum og getur vinnan því hafist í viðtali hjá tengilið þar sem hann fyllir út matsblað og beiðni um samþættingu ef matið gefur það til kynna að það væri hagur barns að samþætta málið. Einnig ef foreldrar senda beiðni um samþættingu rafrænt í gegnum gáttina þá er því komið til tengiliða eða málstjóra, eftir því sem við á, samdægurs og beiðnin berst.

    Við höfum alltaf haldið ítarlega utan um allar skráningar en bættum við skráningarskjalið okkar í kjölfar skráninganna sem var óskað eftir að kæmi mánaðarlega frá BOFS.

    Áframhald

    Þó komið sé ágætis jafnvægi á vinnuna í kringum farsældarlögin þá erum við alltaf að læra og alltaf að skoða hvort og þá hvað við getum gert betur og öðruvísi hjá okkur til að þjónustan verði sem best fyrir þá sem óska eftir henni og sinna henni.

    Að lokum langar mig að láta fylgja með texta frá móður sem á barn sem fær þjónustu á 2. stigi samþættingar:

    “Mér finnst eitthvað svo fallegt við það að sonur minn eigi sinn eigin málstjóra sem bæði ég og hann getum leitað til. Mér leið eins og ég væri búin að vera að berjast við vindmyllur í 3 ár þar sem ég sjálf þurfti að óska eftir teymisfundi og berjast fyrir öllu. Fékk því hlýju og gleði í hjartað þegar ÉG var svo boðuð á teymisfund hjá syni mínum af málstjóranum hans. Er ótrúlega ánægð með þessa þjónustu og þessi nýju lög”.

    Ritað: September 2024