Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Handbók farsældar - innleiðing farsældarlaganna á landsvísu

Auk þessarar rafrænu útgáfu er einnig til PDF útgáfa af handbókinni.

    Fyrirmyndarverkefni farsældar

    Frumkvöðlasveitarfélög farsældar

    Sveitarfélögin Akraneskaupstaður, Akureyrarbær, Sveitarfélagið Árborg og Vestmannaeyjabær tóku að sér að gerast svokölluð ,,frumkvöðlasveitarfélög‘‘ við innleiðingu farsældarlaganna frá upphafi innleiðingar. Með því að taka þetta hlutverk að sér hefur það gefið sveitarfélögunum bæði rými og tækifæri til að reka sig á áskoranir og afla þannig upplýsinga sem önnur sveitarfélög geta lært af. Hlutverkið felur einnig í sér reglubundna samvinnu við Barna- og fjölskyldustofu á innleiðingartímanum sem hefur skapað grundvöll til umræðu um áskoranir og ávinning og hefur það m.a. leitt af sér samráð um gerð og prufukeyrslu stuðningsefnis.

    Hér að neðan má finna upplýsingar um verkefni sem frumkvöðlasveitarfélögin hafa unnið að með góðum árangri, svokölluð fyrirmyndarverkefni farsældar. Vonir standa til þess að önnur sveitarfélög og stofnanir geti lært af reynslu þeirra og nýtt í sinni vegferð í átt að farsæld allra barna.

    Sólveig Sigurðardóttir, deildarstjóri farsældarþjónustu barna

    Vigdís Elfa Jónsdóttir, málstjóri

    Hjá Akraneskaupstað var tekin meðvituð ákvörðun um að vinna saman tvö stór innleiðingarverkefni: innleiðingu nýrra laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna (farsældarlögin) og innleiðingu á Barnvænu sveitarfélagi. Þetta var m.a. gert með því að ráða til starfa verkefnastjóra farsældar og Barnvæns sveitarfélags. Þannig var skýrt frá upphafi að verkefnin tvö væru nátengd og ættu að vera unnin samhliða.

    Verkefnið felst í því að skapa barnamiðaða og heildstæða farsældarþjónustu fyrir öll börn á Akranesi. Þannig var markmiðið að efla skilning og vitund allra sem starfa með eða í þágu barna og fjölskyldna á réttindum barna og mikilvægi þess að hlusta á raddir þeirra og stuðla að jöfnum tækifærum og þátttöku allra barna og ungmenna á Akranesi.

    FRAMKVÆMD

    Með farsældarlögunum er í fyrsta sinn kveðið á um samræmda mælikvarða sem lýsa stigskiptingu þjónustu í þágu farsældar barna á þrjú þjónustustig. Með samræmdri stigskiptingu fæst yfirsýn yfir þjónustukerfi og mynd af því hvernig hægt er að tryggja skilvirka og samfellda þjónustu við hæfi allra barna. Þetta verklag talar vel við innleiðingu á Barnvænu sveitarfélagi og því var tekin ákvörðun um að innleiða farsældarlögin samhliða innleiðingu Barnvæns sveitarfélags á Akranesi.

    Innleiðing farsældar og Barnvæns sveitarfélags á Akranesi hófst haustið 2021. Farið var í fræðslu- og kynningarherferð þar sem allir þjónustuveitendur skv. farsældarlögum, ásamt starfsfólki bæjarins og kjörnum fulltrúum, fengu kynningu á nýjum farsældarlögum og þeim breytingum sem fram undan voru í þjónustu við börn og fjölskyldur, ásamt kynningu um innleiðingu Barnvæns sveitarfélags. Kynningin fór í alla leik-, grunn- og framhaldsskóla bæjarins, sem og heilbrigðisstofnun Vesturlands og síðar til lögreglu, dagforeldra, sýslumanns og íþróttafélaga.

    Unnið var út frá innleiðingarskrefum Barnvænna sveitarfélaga og innleiðing farsældarlaganna tengd við þau. Sendir voru út spurningalistar, bæði til barna og starfsfólks kaupstaðarins.

    Starfsfólk tók einnig rafrænt námskeið um Barnasáttmálann og haldin var barnvæn gleði á bæjarskrifstofunni þar sem starfsfólk var tekið í ýmsa leiki tengda málefnum barna. Þá var farið yfir lögin og það markmið sveitarfélagsins að verða Barnvænt sveitarfélag sem veitir framúrskarandi farsældarþjónustu fyrir öll börn, þar sem jafnræði og þátttaka er lykilatriði.

    Nýttir voru samfélagsmiðlar kaupstaðarins til kynningar á verkefninu, m.a. á degi mannréttinda barna og eins eftir þörfum. Gerð voru myndbönd um farsældina þar sem vitnað var í Barnasáttmálann og þannig voru verkefnin enn frekar tengd saman.

    Ráðnir voru inn málstjórar á velferðar- og mannréttindasvið og tengiliðir útnefndir skv. farsældarlögum. Þessir aðilar komu einnig inn í innleiðingu Barnvæns sveitarfélags á þann hátt að fara með og halda uppi fræðslu um verkefnið á sinni starfstöð. Sem dæmi fékk tengiliður í leikskóla þá ábyrgð að tryggja að allt starfsfólk leikskólans fengi nauðsynlega fræðslu um Barnasáttmálann og aðra fræðslu sem gerð er krafa um í innleiðingarferli Barnvæns sveitarfélags.

    ÁRANGUR

    Árangur verkefnisins er sá að þjónusta við börn og fjölskyldur á Akranesi hefur orðið betri og markvissari, m.a. vegna innleiðingar farsældarlaga, þar sem nú er unnið með stigskipta farsældarþjónustu, stuðningsteymi, snemmtækan stuðning og samstarf tengiliða og málstjóra.

    Þá hefur að sama skapi orðið mikil vitundarvakning um rétt barna og ungmenna til þátttöku í málum sem þau varða. Þannig hefur innleiðing farsældar ekki bara snúið að þeim sem veita þjónustuna (þjónustuveitendur skv. lögum) heldur einnig og ekki síður að þeim sem þiggja þjónustuna sem eru börn, ungmenni og fjölskyldur.

    Jafnframt hafa þau sem starfa hjá Akraneskaupstað og ekki koma beint að þjónustu við börn, þ.e. kjörnir fulltrúar, svið, ráð og nefndir, orðið meðvitaðri og meiri þátttakendur í innleiðingu að breyttri og bættri hugsun þegar kemur að vernd, umönnun og þátttöku barna á Akranesi.

    Heimild: Fyrirmyndarverkefni – Barnvæn sveitarfélög 2023