Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Hættumat í skipum og bátum

Hættumat í skipum og bátum

Hættumat felst í að meta þá hættu sem steðjar að öryggi fólks um borð. Það er kerfisbundin skoðun á öllum þáttum vinnu. Þar má nefna:

  • Hvað kann að valda meiðslum eða skaða?

  • Hvaða hættu er hægt að koma í veg fyrir? - og ef ekki;

  • Hvaða fyrirbyggjandi ráðstafanir þurfa að vera til staðar til að stjórna hættunni?

Til að tryggja sem best öryggi starfsfólks er skylt að vinnuveitandi geri sérstakt hættumat svo hægt sé að gera fyrirbyggjandi ráðstafanir. Þetta á ekki síður við um aðstæður um borð í bátum og skipum.

Hér má sjá leiðbeiningaskjal um hættumatið:

Hvernig geri ég hættumat?

Mörg skip og bátar í dag hafa um borð öryggisstjórnunarkerfi sem innihalda hættumat. Þau skip teljast við skoðun fullnægja skilyrðum reglugerðar.

Bátar undir 15 metrum geta notað smáforritið Agga en með því getur sjómaður gert einfalt áhættumat um borð í sínum bát eða skipi. Skilyrði er að hann sé með forritið uppsett í síma eða tölvu um borð. Agga er án kostnaðar og er aðgengilegt á slóðinni https://www.agga.is/.

Stærri skip sem hafa ekki öryggistjórnunarkerfi og/eða skilgreint hættumatskerfi um borð geta notað eyðublað sem skoðunarmenn geta afhent og er aðgengilegt hér.

Slíkt eyðublað útfyllt telst gilt sem hættumat við skoðun. Jafnframt eru leiðbeiningar um hættumat í sama skjali.

Hvað gerist við skoðun?

Frá og með 1. janúar 2026 munu skipsskoðunarmenn gera athugasemd hafi ekki verið gert hættumat um borð í skipum við reglubundna skoðun. Er það gert með vísun í reglugerð nr. 200/2007, þar sem segir í 8. gr. að vinnuveitandi skuli hafa undir höndum hættumat varðandi öryggi og hollustu á vinnustað, að meðtalinni þeirri áhættu sem sérstökum hópum starfsmanna er búin.

Árin 2026 og 2027 er gerð dæming 1 við skoðun ef hættumat er ekki til staðar. Það þýðir að krafa er um lagfæringu á skoðunaratriði innan mánaðar en ekki er gerð krafa um endurskoðun.

Frá og með árinu 2028 er gerð dæming 2 við skoðun ef hættumat er ekki til staðar. Það þýðir að skipið stenst ekki skoðun og er gerð krafa um endurskoðun innan tiltekins frests, allt að þriggja mánaða, og skal skoðunaratriðið lagfært áður en til endurskoðunar kemur.

Þjónustuaðili

Samgöngu­stofa