24. maí 2024
24. maí 2024
Viljum nýta sóknarfærin til að tryggja nauðsynlega þjónustu
Hildigunnur Svavarsdóttir forstjóri SAk vill skilgreina betur hlutverk SAk sem varasjúkrahús LSH.
Ársfundur Sjúkrahússins á Akureyri fór fram í dag. Yfirskrift fundarins var Við á SAk með vísan í þann mikilvæga mannauð sem vinnur við sjúkrahúsið.
Þar sem flugi Willum Þór Þórssonar heilbrigðisráðherra var aflýst steig Hildigunnur Svavarsdóttir forstjóri SAk fyrst á stokk með ávarpi þar sem hún leit um öxl á þær áskoranir sem 2023 bar með sér: „Það mikla starf sem unnið er hér hefur styrkt sjúkrahúsið sem mikilvæga heilbrigðisstofnun í landinu en halda þarf áfram að standa vörð um starfsemi sjúkrahússins með því að fylgja eftir þróun í hinum ýmsu sérgreinum. Áfram eru áskoranir við að ná jafnvægi í mönnun sérhæfðra heilbrigðisstétta og sérstaklega í hinum ýmsu sérgreinum svo hægt sé að veita nauðsynlega þjónustu og fylgja eftir þeim markmiðum sem sett eru fram í heilbrigðisstefnu stjórnvalda og lögum um heilbrigðisþjónustu. Við fögnum þeim árangri sem náðst hefur og munum kappkosta við að gera enn betur á komandi misserum, með öryggi og vellíðan starfsfólks og sjúklinga að leiðarljósi.
Mikilvægt er nýta sóknarfærin til að tryggja nauðsynlega þjónustu hér í samfélaginu en við þurfum líka að skilgreina betur hlutverk okkar sem sjúkrahús og varasjúkrahús Landspítala m.t.t. rétts fjármagns því við teljum að Sjúkrahúsið á Akureyri hafi alla burði til að vera framsækin stofnun og í fararbroddi á sínu sviði, öllum landsmönnum til góða.“
Ársreikningur, átaksverkefni og hvatningarverðlaun
Því næst fór Guðbjartur Ellert Jónsson fjármálastjóri yfir ársreikning 2023 en þá tók við Kristjana Kristjánsdóttir deildarstjóri mannauðsdeildar sem kynnti verkefnið Komdu í lið með okkur! sem miðar að því að efla ímynd SAk til að freista þess að fá fleira starfsfólk í starfslið SAk.
Hvatningarverðlaunin að þessu sinni voru með nýju sniði og gat starfsfólk í aðdraganda ársfundarins tilnefnt samstarfsfólk til verðlaunanna í fimm mismunandi flokkum.
Handhafar Hvatningarverðlaunanna að þessu sinni eru:
Rut Guðbrandsdóttir sýkingarvarnastjóri í flokknum öryggi.
Birgitta Níelsdóttir ljósmóðir í flokknum öryggi.
Stefán Helgi Garðarsson teymisstjóri tæknideildar í flokknum samvinna.
Barbara Arna Hjálmarsdóttir heilbrigðisgagnafræðingur í flokkunum framsækni og fagmennska.
Karl Ólafur Hinriksson teymisstjóri húsumsjón í flokknum vinnustaðurinn okkar.
Jóhannes Bjarnason formaður Hollvinasamtaka SAk fór yfir þær rausnarlegu gjafir sem samtökin hafa gefið sjúkrahúsinu en á árinu 2023 var andvirði þeirra hátt í 65 milljónir króna.
Þá var komið að því að heiðra fráfarandi starfsfólk SAk og að þessu sinni var um að ræða tíu manns sem halda á vit nýrra ævintýra á bestu árunum.
Auður Helga Hjaltadóttir - skrifstofa fjármála
Björg Brynjólfsdóttir - rannsóknadeild
Bryndís Reynisdóttir - bráðamóttaka
Elísabet Gestsdóttir - vörulager
Fanney Friðriksdóttir - lyflækningadeild
Guðrún Bjarney Leifsdóttir - rannsóknadeild
Hjördís Gunnarsdóttir - rannsóknadeild
Margrét Sigtryggsdóttir - ræstimiðstöð
María Þórðardóttir - ræstimiðstöð
Vinbjörg Ásta Guðlaugsdóttir - sjúkraþjálfun
Lesa má nánar um heiðranir starfsfólks í annari frétt hér.
Undirritun frestað
Þar sem ráðherra komst ekki á fundinn varð ekkert úr undirritun samnings um hönnun nýbyggingar SAk. Í staðinn fór Gunnar Svavarsson framkvæmdastjóri NLSH vel yfir aðdraganda málsins og sagði skemmtilega frá vinnunni að baki undirbúningi útboðsins.
Að fundi loknum bauð Helgi Þór Leifsson, framkvæmdastjóri klínískrar þjónustu og fundarstjóri gesti fram á gang að þiggja veitingar og skoða sig um á nýjum tengigangi. Þar er til staðar nýtt og endurbætt hermisetur ásamt tæknilega fullbúnum fundarherbergjum og vinnuaðstöðu.
Tengill á tölulegar upplýsingar úr Qlick hér.
Tengill á ársskýrslu SAk fyrir starfsárið 2023 með textum frá einingum hér.