Fara beint í efnið

23. október 2023

Viðauki við forgangshópa í inflúensubólusetningar veturinn 2023–2024

Bólusetning gegn árlegri inflúensu ver einstaklinga ekki gegn fuglaflensu, en með bólusetningu einstaklinga í mikilli umgengni við fugla og spendýr sem geta smitast af inflúensu A er unnt að draga úr hættu á að sami einstaklingur smitist samtímis af fuglaflensuveiru og árlegri inflúensu A. Með því dregur úr hættu á að nýstárleg veira komi fram sem valdið getur faraldri í mönnum.

Sóttvarnalæknir - logo

Því mælir sóttvarnalæknir með því að eftirfarandi hópar fái inflúensubóluefni sér að kostnaðarlausu veturinn 2023–2024: (aðilar sem bólusetja einstaklinga í þessum hópum geta sótt um endurgreiðslu bóluefnisverðs til sóttvarnalæknis)

  • Starfsmenn

    • alifuglabúa

    • svínabúa

    • loðdýrabúa

  • Héraðsdýralæknar, eftirlitsdýralæknar og sérgreinadýralæknar MAST sem sinna ofangreindum búum. Jafnframt þjónustudýralæknar sem sinna verkefnum fyrir MAST.

  • Starfsmenn Háskóla Íslands á Keldum sem sinna dýrakrufningum og vinna með sýni úr veikum dýrum við aðstæður þar sem hætta er á smiti (úðamyndun).

  • Sláturhús: Starfsfólk sem sinnir flutningi og aflífun alifugla, svína og loðdýra. Starfsfólk í kjötvinnslu er þar ekki meðtalið þar sem ekki er smithætta vegna inflúensu frá hræjum.

  • Starfsmenn Reykjavíkurborgar sem sinna fuglum, svínum, selum, minkum og refum í Fjölskyldu- og húsdýragarði.

Þessi viðbót í forgangshópa er tímabundin og verður endurmetið um mitt ár 2024 hvort tilefni sé til að líta á þessa hópa sem forgangshópa aftur veturinn 2024–2025.

Engar endurdreifingar inflúensubóluefnis sem þegar hefur verið úthlutað eru fyrirhugaðar vegna þessa þar sem heildarfjöldi einstaklinga er ekki svo mikill að þess verði þörf. Einstakar heilsugæslur eða fyrirtæki sem sinna bólusetningum fyrir aðila í þessum hópum geta haft samband við yfirlækni bólusetninga hjá sóttvarnalækni ef þörf verður á viðbótarúthlutun á bóluefni sem ekki hefur verið úthlutað áður, í tengslum við þessa breytingu.

Sóttvarnalæknir