Fara beint í efnið

30. nóvember 2022

Verðlaunaleikur Forvarnardagsins – nemendur í Borgarhólsskóla og Borgarholtsskóla hlutu verðlaun

Laugardaginn 26. nóvember fór fram verðlaunaafhending á Bessastöðum í tilefni af Forvarnardeginum. Verðlaun hlutu hópur nemenda við grunnskólann Borgarhólsskóla á Húsavík og hópur nemenda við framhaldsskólann Borgarholtsskóla í Reykjavík.

Embætti Landlæknis - merki

Laugardaginn 26. nóvember fór fram verðlaunaafhending á Bessastöðum í tilefni af Forvarnardeginum. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, flutti ávarp og afhenti verðlaunin. Alma D. Möller, landlæknir, flutti einnig ávarp og töluðu þau bæði til verðlaunahafa sem voru allir viðstaddir ásamt foreldrum og kennurum. Jafnframt voru viðstaddir fulltrúar þeirra samstarfsaðila sem standa að Forvarnardeginum auk embættis forseta Íslands og embættis landlæknis en það eru: ÍSÍ og UMFÍ, Heimili og skóli, Rannsóknir og greining, Reykjavíkurborg, SAFF, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samfés og Skátarnir.

Verðlaunaleikurinn

Nemendur þeirra skóla sem tóku þátt í Forvarnardeginum áttu þess kost að taka þátt í verðlaunaleik Forvarnardagsins og senda inn stafrænt efni tengt deginum. Umfjöllunarefnið átti að vera um þá þrjá verndandi þætti sem er helsta umfjöllunarefni Forvarnardagsins. Rannsóknir hafa sýnt fram á að þessir verndandi þættir hafa áhrif á líf barna til að forðast áhættuhegðun. Þættirnir eru:

  • Samvera með fjölskyldu,

  • Þátttaka í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi

  • Að leyfa heilanum að þroskast

Verðlaunahafar

Alls bárust 22 verkefni sem dómnefnd skipuð samstarfsaðilum fór yfir. Dómnefndin valdi eitt verkefni frá nemendum úr grunnskóla og eitt verkefni frá nemendum úr framhaldsskóla.

Verðlaun hlutu hópur nemenda við grunnskólann Borgarhólsskóla á Húsavík og hópur nemenda við framhaldsskólann Borgarholtsskóla í Reykjavík.

Í hópi Borgarhólsskóla voru Elísabet Ingvarsdóttir, Hildur Gauja Svavarsdóttir og Hrefna Ósk Davíðsdóttir. Verkefnið þeirra má sjá hér.

Í hópi Borgarholtsskóla voru Arnar Már Atlason, Ísold Hekla Þórðardóttir og Óðinn Máni Gunnarsson. Verkefnið þeirra má sjá hér.

Um Forvarnardaginn

Forvarnardagurinn er haldinn á hverju hausti og er þá sjónum sérstaklega beint að ungmennum í 9. bekk grunnskóla og á fyrsta ári í framhaldsskóla. Á Forvarnardaginn ræða nemendur um nýjustu niðurstöður rannsókna á þeirra aldurshópi og hugmyndir um samveru fjölskyldunnar, íþrótta- og tómstundastarf og því að leyfa heilanum að þroskast og hvaða áhrif þessir verndandi þættir hafa á líf þeirra. Í ár var Forvarnardagurinn miðvikudaginn 5. október 2022 og fengu grunn- og framhaldsskólar svigrúm til 21. október að vera með fræðslu og umræður með þessum aldurshópum og hvetja þau til þátttöku í verðlaunaleiknum.

Hér má sjá málþing sem haldið var í Austurbæjarskóla á Forvarnardaginn 5. október 2022 en forseti Íslands heimsótti einnig Tækniskólann sama dag, kynnti sér starfið og ræddi við nemendur.

Nánari upplýsingar um Forvarnardaginn má sjá á vefsíðu Forvarnardagsins

Inga Berg Gísladóttir
Ingibjörg Guðmundsdóttir
Rafn M. Jónsson
Verkefnastjórar Forvarnardagsins

Forvarnardagurinn 2022. Verðlaunahafar. Framhaldsskóli
Forvarnardagurinn 2022. Verðlaunahafar. Grunnskóli