Fara beint í efnið

18. september 2024

Veiting styrkja úr Minningarsjóði um hjónin Bergþóru Magnúsdóttur og Jakob Júlíus Bjarnason til gæðaverkefna og vísindarannsókna í heilbrigðisþjónustu

Fjögur gæðaverkefni og þrjár vísindarannsóknir hlutu nýverið styrki úr minningarsjóði um hjónin Bergþóru Magnúsdóttur og Jakob Júlíus Bjarnason, samtals að upphæð kr. 15.049.500.

Mynd. Frá afhendingu styrkja úr minningarsjóði Bergþóru og Jakobs 2024

Minningarsjóður Bergþóru og Jakobs er sjóður sem rekinn er undir hatti embættis landlæknis og starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, samanber lög um sama efni. Hjónin Bergþóra Magnúsdóttir og Jakob Júlíus Bjarnason bakarameistari gerðu með sér erfðaskrá árið 1932 um að eftir andlát þeirra yrði stofnaður sjóður þar sem allar þeirra eigur yrðu að stofnfé sjóðsins. Minningarsjóður Bergþóru og Jakobs er sjálfseignarstofnun/sjóður sem starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Áður höfðu sjóðir á sjóðaskrá embættis landlæknis nr. 297, 386, 701 og 1372 runnið inn í Minningarsjóðinn og stofnskrá hans uppfærð til samræmis við nútímann, að viðhöfðu tilheyrandi samráði og leyfi. Í stjórn sjóðsins sitja Alma D. Möller landlæknir, Sigurður Helgi Helgason forstjóri Sjúkratrygginga og Þórarinn Guðjónsson, forseti læknadeildar Háskóla Íslands.

Tilgangur sjóðsins er að styrkja gæðastarf og vísindastarf í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Með gæðum í heilbrigðisþjónustu er átt við að heilbrigðisþjónusta sé örugg, rétt tímasett, skilvirk, byggð á jafnræði, notendamiðuð og árangursrík. Styrki úr sjóðnum má veita til vel skilgreindra gæða- og umbótaverkefna eða til vísindarannsókna sem fengið hafa leyfi Vísindasiðanefndar. Við styrkveitingar til gæðaverkefna eru verkefni sem efla öryggi sjúklinga í forgangi og við styrkveitingar til vísindarannsókna skulu rannsóknir á krabbameinssjúkdómum vera í forgangi.

Auglýst var í júní og bárust tíu umsóknir. Alls hlutu fjögur gæðaverkefni og þrjár vísindarannsóknir styrki að þessu sinni, samtals að upphæð kr. 15.049.500 og voru styrkirnir afhentir í lok málþings á Alþjóðadegi sjúklingaöryggis, 17. september.

Styrkþegar, verkefni og upphæðir

  • Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Garðar Jónasson gæðastjóri
    Íslensk þýðingarvinna staðalsins ISO 7101:2023 Gæðastjórnun í heilbrigðisþjónustu.
    2.750.000 kr.

  • Reykjalundur, Árdís Björk Ármannsdóttir sérfræðilæknir
    Innleiðing CARF á Reykjalundi.
    2.000.000 kr.

  • Landspítali, Næringarstofa, Áróra Rós Ingadóttir deildarstjóri
    Mat á árangri næringarmeðferðar í legu og eftir útskrift af lyflækningadeildum Landspítala.
    2.000.000 kr.

  • Heilsugæslan, Margrét Ólafía Tómasdóttir yfirlæknir, Arndís Stefánsdóttir sérnámslæknir, Erla Þórisdóttir sérnámslæknir
    Tímastjórnunartól heimilislækna til að auka yfirsýn, afköst og starfsánægju.
    800.000 kr.

  • Sigurdís Haraldsdóttir prófessor
    Samvinnuverkefni um snemmgreiningu briskrabbameins.
    3.000.000 kr.

  • Ólöf Kristjana Bjarnadóttir doktorsnemi
    Meðferðarheldni andhormónameðferðar í hormónajákvæðu brjóstakrabbameini á Íslandi 2004-2023, forspárþættir og áhrif á horfur.
    2.732.000 kr.

  • Arnar Snær Ágústsson doktorsnemi
    Er aukin áhætta á krabbameinum hjá einstaklingum sem eru arfberar fyrir Lynch heilkenni og taka lyf sem hafa áhrif á ónæmiskerfið?
    1.767.500 kr.