30. janúar 2024
30. janúar 2024
Umframdauðsföll í ríkjum OECD á tímum COVID-19
Sóttvarnalæknir vekur athygli á nýlegri skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD), sem bendir til þess að sóttvarnaaðgerðir á Íslandi á tímum heimsfaraldurs COVID-19 hafi verið árangursríkar.
Heimsfaraldur COVID-19 sjúkdóms er sá faraldur sem hefur valdið mestum skaða fyrir heiminn síðan inflúensufaraldurinn árið 1918. Í skýrslu OECD er notast við ítarleg gögn, flokkuð eftir aldri og kyni, og mismunur á dánarmynstri á þriggja ára tímabili heimsfaraldursins skoðaður en heimsfaraldurinn leiddi til umtalsverðrar aukningar á fjölda andláta í mörgum OECD-ríkjum. Þó beinn samanburður á fjölda dauðsfalla miðað við fyrri ár hafi reynst mikilvægur, en þó einfaldur mælikvarði til að meta áhrif heimsfaraldursins, hafa orðið verulegar breytingar á íbúafjölda og samsetningu flestra OECD-ríkja. Leiðréttar dánartölur miðað við slíkar lýðfræðilegar breytur undirstrikar verulegan mun á dauðsföllum milli mismunandi ára og milli ríkja og aldurshópa.
Umframdauðsföll voru næstlægst á Íslandi
Í skýrslunni er heildarfjöldi dauðsfalla í OECD-ríkjunum á árunum 2020–2022 borinn saman við meðalfjölda dauðsfalla árin fyrir faraldurinn (2015–2019), að teknu tilliti til íbúafjölda og aldurssamsetningar ríkja. Í skýrslunni er aðferðafræðin til að reikna út breytingar á dánartíðni, með hliðsjón af þessari lýðfræðilegu þróun, útskýrð en í fyrri samanburðum hefur ekki endilega verið leiðrétt fyrir slíkri þróun. Þar vegur þungt ört hækkandi hlutfall aldraðra og fólksflutningar sem hafa leitt til umtalsverðra breytinga á íbúafjölda auk aldurssamsetningar einstakra ríkja. Heilt yfir hefur hlutfall 65 ára og eldri hækkað um 19% á svæðinu frá 2015–2022.
Með því að taka tillit til þessa fæst raunhæfur samanburður milli landa um hversu margir hafi látist á tímum heimsfaraldurs COVID-19 umfram það sem búast mátti við miðað við fyrri ár (þ.e. umframdauðsföll). Niðurstaðan leiðir í ljós að af OECD-ríkjunum voru færri dauðsföll á Íslandi á COVID-19 tímanum en búast hefði mátt við miðað við fólksfjölgun og aldurssamsetningu þjóðarinnar. Voru umframdauðsföll þannig lægst í Nýja-Sjálandi en næstlægst á Íslandi.
Dauðsföll 5,3% fleiri í ríkjum OECD árin 2020–2022
Þegar leiðrétt hefur verið fyrir lýðfræðilegum breytum leiðir samanburður í ljós að dauðsföll í OECD-ríkjunum voru að meðaltali 5,3% fleiri á árunum 2020–2022 en á samanburðarárunum fyrir heimsfaraldur COVID-19. Á þessum þremur árum voru þannig skráð 2 milljón umframdauðsföll hvert ár á svæðinu. Helmingur dauðsfallanna, eða um 3 milljónir, voru skráð sem andlát vegna COVID-19.
Munur milli landa hvað varðar dauðsföll á þessu tímabili er hins vegar verulegur. Níu lönd af 41 skera sig úr, þar sem dauðsföll á COVID-árunum voru færri en búast mátti við miðað við árin fyrir heimsfaraldurinn. Þetta eru Nýja-Sjáland (-4,4%), Ísland, Noregur, Írland, Austurríki, Kórea, Svíþjóð, Lúxemborg og Ísrael. Þau ríki OECD þar sem umframdauðsföll voru langflest eru Kólumbía (+23,5%) og Mexíkó (+30,5%). Sjá mynd 3.2 úr skýrslu hér fyrir neðan.
Skýrsla OECD: OECD Health Working Paper No. 163
Sóttvarnalæknir