Fara beint í efnið

25. september 2024

Umboðsvirkni innskráningar Ísland.is

Stafrænt Ísland hefur byggt umboðskerfi inn í innskráningarþjónustuna Innskráning fyrir alla. Umboðskerfið er aðgengilegt öllum opinberum aðilum gjaldfrjálst.

umbodskerfid

Þegar stofnun tekur upp notkun á Innskráningarþjónustu Stafræns Íslands gefst þeim einnig kostur á að bjóða sínum notendum upp á að nálgast stafrænar þjónustur í gegnum umboð. Kerfið byggist að mestu leyti á réttindum sem einstaklingar hafa í gegnum ýmsar skrár ríkisins, s.s. Þjóðskrá, Fyrirtækjaskrá og talsmannagrunn Réttindagæslu fatlaðra. Að auki býður kerfið upp á svokölluð sértæk umboð, en þar getur einstaklingur veitt sjálfur umboð að ákveðnum stafrænum þjónustum hins opinbera.

Með umboðskerfinu fá forsjáraðilar sjálfkrafa aðgang að upplýsingum barna sinna, prókúruhafar fyrirtækja hafa aðgang til að sýsla með gögn fyrirtækisins og þau sem skráð eru persónulegir talsmenn fatlaðra einstaklinga geta sinnt erindum umbjóðenda sinna með aðgangi að Stafrænu Pósthólfi.

Fjórða umboðsleiðin kallast sértækt umboð, en þar getur einstaklingur valið að gefa öðrum aðgengi að gögnum eða umsóknum Ísland.is. Dæmi um slíkt er þegar eldra foreldri veitir barni sínu aðgang að sínum gögnum, einstaklingur veitir maka eða vini aðgang, og prókúruhafi veitir bókara aðgengi að fjármálaupplýsingum fyrirtækis.

Umboðskerfið er í stöðugri þróun til að tryggja aðgengi allra þeirra sem velja stafræna þjónustu. Vinna er hafin við að efla enn frekar umboðskerfið og má meðal annars nefna eftirfarandi verkefni:

  1. Lögræðissviptingaskrá - Verkefni í vinnslu
    Tryggir að þau sem hafa verið skipuð lögráðamenn einstaklinga geti komist í Stafrænt pósthólf skjólstæðings síns, sé þörf á því. Verkefnið er unnið í samstarfi við Sýslumenn og Þjóðskrá.

  2. Umboð á pappír eða eigin persónu - Verkefni í vinnslu
    Mikilvægt er að tryggja að þeir sem þurfa að veita umboð geti gert það á þægilegan hátt. Annars vegar geti umboðshafi komið pappírsumboði til skila fyrir hönd umboðsveitanda með rafrænni leið, en einnig að umboðsveitandi geti mætt á þjónustumiðstöð til að framvísa umboði til skráningar í umboðskerfi Ísland.is

  3. Fósturforeldrar - Verkefni ekki hafið
    Nú stendur til að setja saman vinnuhóp að tilstuðlan Mennta- og barnamálaráðuneytisins til að leysa þann vanda sem myndast hefur hjá fósturforeldrum eftir að byrjað var að horfa á forsjártengsl í stað lögheimilistengsla þegar foreldrum er gefinn aðgangur að gögnum barna.

  4. Börn á aldrinum 16 – 18 ára - Verkefni í vinnslu
    Börn á þessum aldri hafa ýmis réttindi, t.d. að heilsugögn þeirra séu ekki aðgengileg forsjáraðilum. Umboðskerfið mun taka utan um þennan hóp og tryggja réttindi þeirra.

Að auki er vert að minnast á að einnig stendur til að gefa fleiri stjórnarformum fyrirtækja aðgang að Ísland.is, til dæmis stjórnarformönnum.

Samhliða innleiðingu fyrir þessa fjóra hópa þá er innleiðing í fullum gangi hjá stofnum landsins til að einfalda notendum að þiggja stafræna þjónustu. Dæmi um opinberar þjónustur sem bjóða uppá þessa umboðsleið eru: Stafræna pósthólfið, Mínar síður Ísland.is, Landspítalaappið og fjöldi umsókna á borð við umsókn um veðbókavottorð, tilkynning um eigendaskipti ökutækja, umsókn um skuldleysisvottorð ofl. Nánari upplýsingar um umsóknarkerfið og dæmi um notkun þess má finna á vef Stafræns Íslands.

Þau sem ekki geta nýtt sér rafræn skilríki til auðkenningar og velja að nýta ekki aðstoð þriðja aðila gegnum umboðskerfið geta áfram þegið persónulega þjónustu hjá öllum stofnunum landsins.