19. september 2025
19. september 2025
Þétt setið á Tengjum ríkið 2025
Fjölmenni var á Tengjum ríkið í ár sem fór fram þann 18. september á Hilton Nordica sem og sent út í streymi.

Mikill áhugi var á ráðstefnunni í ár sem bar yfirskriftinga öryggi og stafræn forysta á óvissutímum. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra opnaði ráðstefnuna fyrir fullum sal af fólki en ríflega 400 manns tóku þátt í ár.

Fulltrúar frá Stafrænu Íslandi töluðu sterkt inn í þema dagsins enda öryggi gagna og gagnasamskipta ofarlega í huga fólks þessa dagana. Þá voru mjög svo áhugaverð erindi frá lögreglunni, dómstólasýslunni og landskjörstjórn en þær stofnanir gegna lykilhlutverki þegar kemur að öryggi landsmanna og lýðræði í landinu. Á milli erinda voru spiluð örmyndbönd með verkefnasögum þar sem notendur stafrænna lausna Ísland.is deildu reynslu sinni.
Þá fengu gestir kveðju frá Valerya Ionan sem er einn af lykilráðgjöfum úkraínsku ríkisstjórnarinnar þegar kemur að stafrænni umbreytingu.
Dagskrá ráðstefnunnar lauk með Stafrænum skrefum stofnana þar sem veittar voru viðurkenningar til þeirra stofnana sem hafa tekið stafræn stökk á árinu í samstarfi við Stafrænt Ísland. Sjö stofnanir voru kallaðar á svið í ár en viðurkenningar eru veittar þeim sem hafa tekið sex skref eða fleiri.

Að morgni ráðstefnudags voru haldnar fjórar vinnustofur sem snéru að Þjónustukerfi Ísland.is, sameiginlega framtíðarsýn á heildræna nýtingu ganga, gæði efnisskrifa á Ísland.is og framtíðarsýn stafrænnar opinberrar þjónustu. Vinnustofurnar voru afar vel sóttar og mikilvægt innlegg inn í þá stafrænu þróun sem er framundan næstu misserin.

Tengjum ríkið er árleg ráðstefna Stafræns Íslands þar sem stafræn framtíð hins opinbera er umfjöllunarefnið.
Lesa má nánar um ráðstefnuna og vinnustofurnar á vef Stafrænt Íslands.