Fara beint í efnið

25. október 2022

Staða COVID-19 faraldurs

Undanfarinn mánuð hafa mörg ESB/EES ríki tilkynnt til sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins (ECDC) aukningu á COVID-19 sjúkrahússinnlögnum, einnig gjörgæslu, auk aukningu á tíðni smita.

Embætti Landlæknis - merki

Dánartíðni er lág en um þriðjungur landa tilkynnti þó um aukningu á dauðsföllum hjá íbúum hjúkrunarheimila. Talið er að í Evrópu muni minni fylgni við sóttvarnir, aukin innivera í haust/vetur, kaldara veður og samkomur og viðburðir sem fylgja þessum árstíma stuðla að frekari aukningu tilfella. Þá hefur þátttaka í seinni örvunarbólusetningu verið frekar dræm í mörgum ESB/EES löndum.  

Misjafnt er í löndum hve mörg sýni eru tekin opinberlega og því erfitt að segja um nákvæman fjölda smita. Hins vegar eru sjúkrahússinnlagnir og dauðsföll skráð þó það geti verið munur milli landa hvernig þeirri skráningu er háttað.

Hérlendis hefur fjöldi greindra tilfella haldist nokkuð stöðugur síðan í sumar og nýgengi farið hægt lækkandi og er nú um 100 per 100 þúsund íbúa (var rúmlega 10 þús. per 100 þús. íbúa þegar hæst var um mánaðarmót febrúar/mars sl.). Um 55% íbúa hafa greinst með COVID-19 en fjöldinn er líklega meiri skv. mótefnamælingum. Þá hafa margir sýkst oftar en einu sinni. Hlutfall jákvæðra sýna hefur verið um 30% sem er hátt og bendir til að smit sé útbreitt í samfélaginu og ekki allir fari í opinber próf. Um 96% afbrigða hér er BA.5, um 3% BA.2 og 1% BA.4. Fá tilfelli BQ.1, BQ1.1, BQ1.2 og XBB hafa greinst (sjá um afbrigði hér fyrir neðan). Bólusetningastaða er með ágætum en allir 60 ára og eldri auk fólks í áhættuhópum eru hvattir til að fara í örvunarbólusetningu fyrir veturinn. Nú eru 7 inniliggjandi á Landspítala með COVID-19 en enginn á gjörgæslu og enginn inniliggjandi á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Skv. dánarvottorðum hafa 213 látist vegna COVID-19 til og með júlí sl.

Neyðarnefnd Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) kom saman þann 13. okt sl. og voru niðurstöður hennar að COVID-19 teljist enn heilsuógn á heimsvísu. Þrátt fyrir aukið ónæmi vegna bólusetninga og/eða fyrri smita þannig að alvarlegum veikindum og dauðsföllum hafi fækkað þá stafar enn ógn af faraldrinum. Dauðsföll eru tíðari en gerist með aðrar öndunarfærasýkingar. Óvissa ríkir vegna breytileika veirunnar og hugsanlegra afleiðinga nýrra afbrigða. Sjúkdómurinn og afleiðingar hans til lengri og skemmri tíma valda áfram miklu álagi á heilbrigðisstofnanir og starfsfólk. Víða hefur sýnatökum og rannsóknum fækkað en mikilvægt er að halda áfram skimunum og raðgreiningu til að geta metið stöðuna og gripið inn í ef þarf. Ná þarf markmiðum í örvunarbólusetningum áhættuhópa til að vernda þá sem eru í mestri hættu. Þá þarf að tryggja aðgang að meðferð þ.m.t. lyfjum.

Ómíkron (B.1.1.529) er enn ráðandi afbrigði SARS-CoV-2 veirunnar í heiminum en ómíkron spratt frá upprunalegu veirunni. Í Evrópu eru ómíkronafbrigðin BA.4/BA.5 algengust (98%). Önnur ómíkronafbrigði sem fylgst er með eru BA.2 og BA.2.75. Fjöldi annarra afbrigða ómíkron er í dreifingu en BQ.1 hefur verið í aukningu í Evrópu sem og BQ1.1. Þau afbrigði eru frá BA.5 en hins vegar eru engar vísbendingar komnar fram um að þau smitist frekar eða valdi meiri veikindum. Þó er talið líklegt að BQ.1 geti frekar vikið sér undan ónæmissvari líkamans þannig að smitum gæti fjölgað ef það nær yfirhöndinni. Sama afbrigði hefur einnig verið í aukningu í Bandaríkjunum en í Asíu hefur einnig verið aukning á XBB afbrigði sprottnu frá BA.2.

Inflúensan er einnig komin til landsins en nokkur tilfelli hafa verið staðfest í rannsókn síðustu tvær vikur. Tíðni öndunarfærasýkinga um þessar mundir hérlendis er svipuð og var árið 2021. Veturinn 2020-2021 kom engin inflúensa en síðasta vetur kom hún seinna en venjulega og tilfelli voru færri. Í ár er búist við inflúensu og öðrum öndunarfærasýkingum, þ.m.t. RS-veiru, eins og áður fyrr enda engar samkomutakmarkanir við lýði nú.

Sóttvarnalæknir mælir með örvunarbólusetningu gegn COVID-19 og inflúensubólusetningu fyrir áhættuhópa. COVID-19 örvunarbólusetningar eru gerðar með tvígildu bóluefni gegn upprunalega ómikron afbrigði sem veitir betri vörn. Aðrir fullorðnir sem hafa ástæðu til geta einnig fengið bólusetningu þegar bólusetningu áhættuhópa lýkur. Heilsugæslan er hvött til að bjóða þeim bólusetningu sem koma til þeirra. Og þó margir séu orðnir þreyttir á ástandinu er áfram mikilvægt að sinna sóttvörnum til að vernda sjálfan sig og aðra. Nota grímu þar sem það á við innandyra í margmenni, lofta vel út, halda fjarlægð í margmenni og sinna handhreinsun og þrifum. Einnig er mikilvægt að mæta ekki í vinnu eða skóla með einkenni öndunarfærasýkingar heldur halda sig til hlés þar til bata er náð. Persónulegar sóttvarnir veita vörn gegn pestum.

Sóttvarnalæknir

Heimildir

CDC:

Covid.is:

  • https://www.covid.is/tolulegar-upplysingar

  • https://www.covid.is/tolulegar-upplysingar-boluefni

ECDC:

Our World in Data:

WHO: