Bólusetning vegna COVID-19 og inflúensu
27. september 2022
Nú er að hefjast átak í örvunarbólusetningu vegna COVID-19. Bólusetningar eru framkvæmdar af heilsugæslunni um land allt. Íbúum 60 ára og eldri verður boðið í örvunarbólusetningu (fjórða skammt). Eru allir sem geta hvattir til að mæta.
Samhliða örvunarbólusetningu við COVID-19 verður boðið upp á bólusetningu við árlegri inflúensu. Þau sem vilja geta fengið báðar sprautur samtímis. Á höfuðborgarsvæðinu verður bólusetning í Laugardalshöll frá 27. september en á landsbyggðinni á vegum viðkomandi heilbrigðisstofnana. Vísast á heilsugæslustöðvar fyrir frekari upplýsingar.
Greindum tilfellum COVID-19 hefur fækkað undanfarið en Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) og Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (ECDC) hafa spáð aukningu á tilfellum COVID-19 Í haust og vetur með eða án aukningar á inflúensu. Bólusetning hefur verndað fólk fyrir alvarlegum afleiðingum COVID-19 í faraldrinum en hár aldur er enn sterkasti áhættuþátturinn fyrir alvarlegum afleiðingum COVID-19.
Mælt er með örvunarskammti fjórum mánuðum eftir að einstaklingur fékk síðasta (þriðja) skammt af bóluefni.
Notast verður við uppfærðar útgáfur af bóluefnum gegn COVID-19 fyrir örvunarbólusetningu. Þeir sem hafa ekki lokið grunnbólusetningu geta eins og áður fengið bólusetningu á sinni heilsugæslustöð en í grunnbólusetningu eru notuð upprunalegu bóluefnin.
Þegar bólusetningarátaki 60 ára og eldri er lokið verður yngri en 60 ára sem vilja örvunarskammt boðið upp á bólusetningu á heilsugæslustöðvum. Þar verður einnig boðið upp á bólusetningu við inflúensu á sama tíma fyrir þau sem það vilja.
Áhættuhópar sem eru í forgangi fyrir bæði inflúensu og COVID-19 bólusetningar eru:
Allir einstaklingar 60 ára og eldri.
Öll börn og fullorðin sem þjást af langvinnum hjarta-, lungna-, nýrna- og lifrarsjúkdómum, sykursýki, illkynja sjúkdómum og öðrum ónæmisbælandi sjúkdómum.
Barnshafandi konur. (inflúensubólusetningu má gera á öllum þriðjungum en COVID bólusetningu á öðrum og þriðja þriðjungi)
Heilbrigðisstarfsmenn sem annast einstaklinga í áhættuhópum sem taldir eru upp hér að ofan.
Sóttvarnalæknir hefur gefið út leiðbeiningar um notkun COVID-19 bóluefna haustið 2022. Þar eru m.a. nánari upplýsingar um bóluefnin sem eru notuð, skammta og aukaverkanir. Upplýsingar um aukaverkanir vegna Covid-19 bólusetningar má einnig finna á covid.is.
COVID-19 bólusetningar eru með öllu gjaldfrjálsar fyrir einstaklinga. Heilbrigðisstofnunum er hins vegar heimilt að rukka komugjald vegna inflúensubólusetningar.
Sóttvarnalæknir