14. október 2024
14. október 2024
Sjálfsvíg og sjálfsvígsforvarnir – ársskýrsla 2024
Embætti landlæknis hefur lokið samantekt á tölum um sjálfsvíg fyrir árið 2023. Sjálfsvíg á síðasta ári voru 47 talsins eða 12,4 á hverja 100.000 íbúa.
Vegna fámennis þjóðarinnar þá geta litlar breytingar á fjölda valdið nokkrum sveiflum í dánartíðni milli ára. Því er mikilvægt að túlka ekki tölur fyrir eitt ár sem vísbendingu um aukningu eða samdrátt á tíðni sjálfsvíga heldur horfa frekar á lengra tímabil. Ef horft er til síðustu fimm ára, frá 2019-2023 voru að meðaltali 41 sjálfsvíg á ári eða 11,3 á hverja 100.000 íbúa.
Gagnvirkt mælaborð og úrvinnsla gagna
Opinber tölfræði um sjálfsvíg byggir á skráðum upplýsingum á dánarvottorðum einstaklinga með lögheimili á Íslandi við andlát, sem skráðar eru í dánarmeinaskrá landlæknis. Fjöldi sjálfsvíga tekur til andláta þar sem undirliggjandi dánarorsök á dánarvottorði eru skráð sem vísvitandi sjálfsskaði (ICD-10 kóðar: X60-X84).
Tölur um sjálfsvíg má finna á vef embættis landlæknis, bæði í töflum og í gagnvirku mælaborði.
Ársskýrsla sjálfsvígsforvarna 2024
Lífsbrú - miðstöð sjálfsvígsforvarna var formlega opnuð undir merkjum embættis landlæknis og kynnt þann 25. janúar 2024. Lífsbrú stuðlar að samvinnu meðal þeirra sem vinna að málaflokknum innanlands og er í samstarfi um forvarnir erlendis.
Á vegum embættisins landlæknis og Lífsbrúar er fylgst með rannsóknum, unnið að fræðsluefni fyrir almenning og fagfólk og stuðlað að vitundarvakningu um málaflokkinn.
Lífsbrú hefur nú birt ársskýrslu fyrir árið 2024 en þar er fjallað um margvísleg verkefni miðstöðvarinnar.
Frekari upplýsingar veita
Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir, verkefnastjóri Lífsbrúar - miðstöðvar sjálfsvígsforvarna
gudrun.j.gudlaugsdottir@landlaeknir.is
Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis
kjartan.h.njalsson@landlaeknir.is