18. nóvember 2025
18. nóvember 2025
Samvinna samfélagsins og lögreglu skref í rétta átt í sumar
Vitundarvakningin Góða skemmtun í sumar fór fram í fjórða sinn síðastliðið sumar í samvinnu lögreglu, Neyðarlínunnar og fjölmargra samstarfsaðila sem koma að hátíðum og viðburðum víða um land. Markmið herferðarinnar er að minna á mikilvægi öruggrar og ofbeldislausrar skemmtunar, með áherslu á forvarnir, ábyrgð og góða samveru.

Brotum á almennum hegningarlögum fækkaði
Heilt yfir voru 1.768 brot skráð þar sem grunur var um brot á almennum hegningarlögum um helgar í sumar. Þau voru 18% færri um helgar miðað við meðalfjölda árin 2023-2024 en til samanburðar voru slík mál yfir 2.100 bæði árið 2023 og 2024. Helst má rekja færri hegningarlagabrot til færri þjófnaða og innbrota (622 brot ), eignaspjalla (276 brot) og minniháttar líkamsárása (243 brot) en fækkunin var á bilinu 20-24% í hverjum brotaflokki milli ára.
Umferðarlagabrot að frátöldum hraðakstursbrotum voru fleiri, eða rétt um 2.600 eins og sjá má á mynd 1, eða 11% fjölgun milli ára. Helst má rekja það til fleiri brota er varða ólöglega lagningu ökutækis en brotin voru 185 en voru undir 50 árin á undan og brot er varða öryggi og gerð ökubúnaðar (108 í sumar en 54 sumarið á undan og 32 árið 2023). Bann við ölvunarakstri og akstri undir áhrifum ávana og fíkniefna voru 5% færri en í fyrra.

Mynd 1. Fjöldi hegningarlagabrota, sérrefsilagabrota og umferðarlagabrota að frátöldum hraðakstursbrotum um helgar í júní-ágúst árin 2023-2025

Mynd 2. Fjöldi hraðakstursbrota um helgar í júní-ágúst árin 2023-2025
Hraðakstursbrot voru 9.540 og því talsvert fleiri en sumarið í fyrra (38% fleiri) (mynd 2) en fjöldi á hraðamyndavélum getur spilað þar inn í.

Mynd 3. Tilkynnt kynferðisbrot til lögreglu um helgar í júní-ágúst 2023-2025 , skipt eftir höfuðborgarsvæðinu og landsbyggð.
Kynferðisbrot voru jafn mörg og síðustu tvö ár en tilkynningar um nauðganir færri, eða 17 árið 2025, samanborið við 22 mál árlega 2024 og 2023 – sem jafngildir 23% fækkun frá fyrri árum.
Mál sem varða kynferðislega áreitni fjölgaði úr 7 í 10, en voru 13 árið 2023. Um 67% var tilkynntur til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og um þriðjungur til embætta á landsbyggðinni.
Ofbeldisbrot voru 343 talsins miðað við 418 árið 2024 og 426 árið 2023 eða um 19% færri. Líkt og fram kemur hér að ofan mátti rekja fækkun brota fyrst og fremst til minniháttar ofbeldisbrota en þau voru um 23% færri um helgar í sumar en síðustu tvo ár. Stórfelld ofbeldisbrot (218.2. gr. alm. hgl.) voru 40 yfir helgar í sumar, en 30 árið 2024 og 39 árið 2023. Meiriháttar líkamsárásir (218.1 gr. alm. hgl.) eru færri en í fyrra en svipuð að fjölda og árið 2023.

Mynd 4. Fjöldi ofbeldisbrota eftir tegund yfir helgar í júní-ágúst árin 2023, 2024 og 2025.
Fíkniefnabrot

Mynd 5. Fjöldi fíkniefnabrota eftir yfir helgar í júní-ágúst árin 2023-2025.
Minniháttar fíknefnabrot falla undir sérrefsilagabrot en stórfelld fíkniefnabrot undir hegingarlagabrot. Brotin voru 283 um helgar í sumar, sem er svipaður fjöldi og í fyrra en fækkun frá 2023 ( 13% færri í sumar miðað við hitteð fyrra). Varsla og meðferð fíkniefna voru 190 og því færri en yfir sama tímabil síðustu tvö ár.
Góð þátttaka á hátíðum víða um land
Mest áhersla var á miðlun skilaboða á stærstu hátíðum sumarsins, þar á meðal 17. júní, Menningarnótt, Gleðigönguna og Bíladaga. Einnig voru skilaboð sýnileg á fjölmörgum öðrum viðburðum, allt frá Þjóðhátíð í Eyjum til Ljósanætur í Reykjanesbæ, Einni með öllu á Akureyri og fleiri minni bæjarhátíðum hringinn í kringum landið. Áberandi mikill fjöldi var á viðburðum á Norðurlandi eystra í sumar, þar sem finna mátti bæði glæsilega viðburði og gott veður.
Um gögnin
Gögnin voru tekin úr málaskrá lögreglu 05.11.2025 og byggir samantektin á dagsetningu brotanna.
Nánar á 112.is og island.is
Að halda örugga viðburði fyrir öll – góð ráð fyrir viðburðarhaldara
Foreldrar – ræðið við börnin ykkar - góð ráð til foreldra og forsjáraðila
Nánari upplýsingar veitir Helena Rós Sturludóttir, samskiptastjóri ríkislögreglustjóra, helena.sturludottir@logreglan.is eða í síma 444-2570.