Fara beint í efnið

9. desember 2020

Ríkislögreglustjóri tengir fyrstu gagnagátt við Strauminn

Fjöldi opinberra stofnanna vinnur nú að því að tengjast Straumnum (X-Road) og þar með auðvelda samskipti milli upplýsingakerfa á öruggan hátt.

Straumurinn

Ríkislögreglustjóri er fyrst stofnana til að tengjast Straumnum að fullu með því að tengja gagnagátt ökuskírteina. Eftir því sem fleiri stofnanir tengjast Straumnum eykst hagræðing og stafræn þjónusta batnar bæði milli stofnana sem og við almenning.

Um er að ræða tveggja ára ferli frá því innleiðing hófst formlega þar fyrsta stofnun tengdist að fullu enda mikil vinna að baki í uppbyggingu grunnkerfa. Stafrænt Ísland fer fyrir verkefninu fyrir hönd fjármálaráðuneytisins.

„Straumurinn (X-Road) er örugg hraðbraut upplýsinga og gegnir lykilhlutverki í stafrænu
umbreytingarferli hins opinbera. Með tilkomu Straumsins geta stofnanir í auknum mæli skipst á gögnum á öruggan hátt og þannig flutt gögn á milli stofnanna í stað fólks með pappír. Nú þegar hafa yfir tíu stofnanir tengst straumnum og það er okkur mikið gleðiefni að Ríkislögreglustjóri hafi riðið á vaðið og tengt fyrstu gagnagáttina inn í Strauminn,“ segir Andri Heiðar Kristinsson, framkvæmdastjóri Stafrænt Íslands.

Þrátt fyrir að almenningur finni ekki mikið fyrir því í sínu daglega lífi að stofnanir tengist Straumnum hver á fætur annarri þá er fjöldi þjónusta sem nýtir sér þessa öruggu gagnaflutningsleið. Þar má nefna gagnagátt ökuskírteina. Straumurinn er því ein af grunnstoðum þess að stafræn opinber þjónusta sé örugg og aðgengileg.

„Lögreglan er á stafrænni veferð eins og flestir sem veita þjónustu og stafrænt ökuskírteini er vel heppnað dæmi um nýja tækni og framsetningu sem hægt er að byggja á gömlu kerfi. Við bindum vonir við hraða stafræna framþróun til hagsbóta fyrir viðskiptavini lögreglu og þar mun straumurinn leika stórt hlutverk,“ segir Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri.

Fyrirlestur Vigfúsar Gíslasonar verkefnastjóra Stafræns Íslands um Strauminn frá ráðstefnunni Tengjum ríkið sem haldin var haustið 2020.

Nánari upplýsingar og framþróun Straumsins er að finna á Ísland.is.