16. október 2025
16. október 2025
Reynslusögur af opinberri nýsköpun í sviðsljósinu
Í vikunni stóð Fjársýslan fyrir viðburði um reynslumiðlun af opinberum nýsköpunarverkefnum. Á viðburðinum deildu verðlaunahafar Nýsköpunarverðlauna hins opinbera reynslu sinni af ferli umbótaverkefna allt frá hugmyndum í framkvæmd og eftirfylgni.

Reynslumiðlun Opinberra frumkvöðla hefur fest sig í sessi sem vettvangur fyrir opinbert starfsfólk sem vill læra af raunverulegum dæmum um opinbera nýsköpun. Að þessu sinni tóku til máls verðlaunahafar Nýsköpunarverðlauna hins opinbera og sögðu frá verkefnum sem hafa haft mælanleg áhrif á opinbera starfsemi og þjónustu við almenning.

Benedikt Geir Jóhannesson, gagnavísindamaður hjá Skattinum, lýsti hvernig notkun gervigreindar í skatteftirliti hefur leitt til umtalsverðs árangurs. Með því að nýta gagnasöfn og vélnám til að greina leigutekjur einstaklinga náðist 80–90% nákvæmni í eftirliti, 30% aukning í skilum á leigutekjum og 1,7 milljarða króna viðbót í skatttekjur. Verkefnið varð hvati að stofnun sérstakrar gagnavísindadeildar sem nú vinnur að yfir 100 lausnum á sviði gagnagreiningar og spunagreindar.

Guðlaug Dröfn Þórhallsdóttir, verkefnastjóri Réttarvörslugáttarinnar, fjallaði um tilkomu Réttarvörslugáttarinnar, sem í megindráttum snýst um að flytja gögn en ekki fólk á milli staða í kerfinu. Til þess þurfti að byggja á þverfaglegu samstarfi stofnana, dómstóla, ráðuneyta og hagmunasamtaka til að ná fram samþættingu gagna og ferla innan réttarkerfisins. Fyrir vikið eykur lausnin samhæfingu milli stofnana og stuðlar að öruggari og skilvirkari málsmeðferð í réttarvörslu.
Ingvar Högni Ragnarsson, verkefnastjóri stafrænna mála hjá Hafnarfjarðarbæ, tók gesti með í stafræna vegferð bæjarins. Þar hefur innleiðing á nýrri vinnumenningu, sjálfvirkni og gervigreindarlausnum einfaldað ferla, aukið skilvirkni og skapað meiri tíma fyrir mannlega þjónustu. Ingvar lagði áherslu á að stafrænar umbreytingar snúist fyrst og fremst um fólk, ekki tækni.

Einnig kynnti Kristín Þórdís Ragnarsdóttir, sérfræðingur hjá Reykjavíkurborg, hvernig Bílastæðasjóður hefur verið leiðandi afl í hagnýtingu á samspili ýmissa tækninýjunga í myndgreiningu við að bæta eftirlit með stöðvunarbrotum. Nýtt kerfi, sem fór í gegnum krefjandi innkaupaferli fyrir nýsköpun á evrópska efnahagssvæðinu, nýtist nú við að þétta eftirlit með stöðvunarbrotum, auka greiðsluvilja á gjaldstæðum og dregur úr álagi starfsfólks.
Tengslanet opinberra frumkvöðla er vettvangur Fjársýslunnar fyrir reynslumiðlun á sviði opinberrar nýsköpunar og opinberra innkaupa á nýsköpun. Hann er opinn og gjaldfrjáls opinberu starfsfólki og stjórnendum sem láta sig framfarir í sinni starfsemi varða og vilja taka þátt í samtalinu.
Áhugasamir geta óskað eftir aðild að tengslanetinu hér: Opinberir frumkvöðlar | Fjársýslan