Fara beint í efnið

10. október 2021

Opnað fyrir umsóknir um sanngirnisbætur

Opnað hefur verið fyrir umsóknir um sanngirnisbætur vegna vistunar á stofnunum hins opinbera

Siglufjörður

Með lögum um sanngirnisbætur hafa þeim sem voru vistaðir sem börn á stofnunum á vegum hins opinbera og sætt illri meðferð eða ofbeldi, verið greiddar bætur úr ríkissjóði. Upphafið má rekja til ársins 2007 þegar uppvíst varð að börn og unglingar sem vistuð voru á vistheimilinu Breiðavík á árunum 1952-1979 höfðu í mörgum tilvikum sætt illri og vanvirðandi meðferð og ofbeldi.
Í kjölfarið var farið í víðtæka könnun á opinberum stofnunum, vistheimilum og sérskólum þar sem börn voru vistuð og árið 2010 voru sett lög um sanngirnisbætur þar sem veitt var heimild til greiðslu bóta úr ríkissjóði til þeirra sem höfðu verið vistaðir á þeim stöðum sem könnunin náði til og töldu sig hafa orðið fyrir illri meðferð eða ofbeldi, sem hafði í för með sér varanlegan skaða. Við framkvæmd verkefnisins er sýslumanni falið að gefa út innköllun á bótakröfum, taka við þeim og gera bótakrefjendum sáttaboð um greiðslu bóta.
Ráðherra er heimilt að fela einu sýslumannsembætti að annast þennan hluta verkefnisins og var sýslumanninum á Siglufirði falinn sá hluti og síðar sýslumanninum á Norðurlandi eystra eftir sameiningu embætta.
Greiddar hafa verið bætur til ríflega 1.100 einstaklinga vegna þessa.

Þann 7. október sl. var gefin út innköllun þar sem skorað var á þá sem dvöldu á stofnunum fyrir fötluð börn fyrir 1. febrúar 1993 og hafa orðið fyrir illri meðferð eða ofbeldi og hlotið af því varanlegan skaða, að lýsa kröfu fyrir sýslumanninum á Norðurlandi eystra.
Frestur til þess er til 31. janúar 2022 og verði það ekki gert fyrir þann tíma fellur krafan niður. Ekki liggur fyrir hversu margir geta átt bótarétt, en tekið er sérstaklega fram að þetta eigi aðeins við um þá sem vistaðir voru í sólarhringsvistun og sambýli fyrir fatlaða falli ekki þar undir. Þá verði heldur ekki greiddar bætur fyrir þá sem dvöldu á Kópavogshælinu þar sem þegar hefur verið leyst úr kröfum þeirra.

Þeir sem vilja sækja um bætur eða aðrir fyrir þeirra hönd geta fengið aðstoð tengiliðar sem starfar á vegum dómsmálaráðuneytisins. Aðstoðin er endurgjaldslaus og er tengiliður með aðsetur hjá sýslumanninum á Höfuðborgarsvæðinu, Hliðarsmára 1, 201 Kópavogi.

Hægt er að hafa samband við tengilið á netfanginu tengilidur@tengilidur.is, auk þess sem veittar eru upplýsingar hjá sýslumanninum á Norðurlandi eystra, í síma 458 2600 eða á netfangið botanefnd@syslumenn.is.

Á vefnum island.is er að finna umsóknareyðublað þar sem hægt er að sækja um bætur.

Umsóknareyðublaðið þarf að senda til Sýslumannsins á Norðurlandi eystra, Gránugötu 6, 580 Siglufirði en því má jafnframt skila til tengiliðar verkefnisins. Tengiliður er Ingibjörg Gyða Guðrúnardóttir og umsjónarmaður sanngirnisbóta hjá sýslumanninum er Halldór Þormar Halldórsson, en hann hefur annast verkefnið frá upphafi.