4. nóvember 2025
4. nóvember 2025
Öryggi stafrænna skírteina á Ísland.is
Vegna fréttaflutnings síðustu daga um fölsun á upplýsingum á Mínum síðum á Ísland.is er gott að hafa í huga:

Mínar síður á Ísland.is eru ekki ætlaðar sem persónuskilríki. Það er lokað svæði einstaklinga þar sem finna má persónuupplýsingar sem ekki eru ætlaðar til neins konar deilingar eða skoðunar utanaðkomandi aðila. Foreldrar og forráðamenn eru hvattir til að árétta þetta við ungmenni sem mögulega eru ekki meðvituð um hvers konar upplýsingar er þar að finna.
Í Ísland.is appinu er hægt að nálgast sannreynanleg stafræn skírteini, eins og ökuskírteini. Þeim fylgir skannanlegur kóði sem staðfestir viðkomandi skírteini og gildistíma þess.
Söluaðilar, og aðrir sem þurfa að skoða stafræn skírteini fólks, ættu ávallt að óska eftir því að sjá slík skilríki í Ísland.is appinu en taka ekki við upplýsingum af Mínum síðum einstaklinga. Vínbúðirnar hafa innleitt hjá sér skönnunarlausn sem sannreynir barkóðann í stafrænu skírteinunum. Einnig hefur sérstök lausn verið útfærð í samvinnu við landskjörstjórn til að skanna skírteinin á kjörstöðum og þá getur lögreglan einnig staðfest skírteinin.
Í Ísland.is appinu er einnig skanni sem sannreynir stafræn skírteini. Hann er aðgengilegur öllum notendum með íslenska kennitölu og rafræn skilríki.