Fara beint í efnið

2. mars 2023

Öndunarfærasýkingar. Vika 8 árið 2023

Svipaður fjöldi greindist með staðfesta inflúensu í viku 8 samanborið við vikur 6 og 7. Flest tilfelli inflúensu eru af inflúensustofni B. Klíniskar greiningar inflúensulíkra einkenna eru sambærilegar milli vikna. Fjöldi COVID-19 tilfella í viku 8 var sambærilegur fjölda undangenginna fjögurra vikna.

Covid og inflúensa 3

Um helmingur raðgreindra sýna af SARS-CoV-2 eru af Omicron undirafbrigðinu XBB.1.5. Það er sama undirafbrigði og er að greinast í auknum mæli í Evrópu og Bandaríkjunum, án meiri alvarleika sjúkdómseinkenna.

Færri greindust með skarlatssótt í viku 8 en í viku 7. Uppsafnaður fjöldi tilfella af skarlatssótt á fyrstu tveimur mánuðum ársins 2023 var meiri eða svipaður árlegum fjölda tilfella (á heilu ári) árin 2019–2022. Færri greindust með hálsbólgu í viku 8 samanborið við viku 7 en fjöldinn var þó langt yfir meðaltali fyrri ára. Streptókokkahálsbólgur voru rúmur þriðjungur allra klínískra hálsbólgugreininga á fyrstu tveimur mánuðum ársins 2023.Frá því í nóvember 2022 hafa mun fleiri þurft að leggjast inn á Landspítala vegna ífarandi GAS sýkinga (Grúppu A Streptókokkasýkinga) Samkvæmt Sóttvarnastofnun Evrópu (ECDC) hafa fleiri lönd í Evrópu tilkynnt um aukna tíðni á ífarandi streptókokkasýkingum á undanförnum mánuðum. Svipaður fjöldi greindist með RSV í viku 8 og í viku 7. Af öndunarfæraveirum greindum á rannsóknarstofu í viku 8 var inflúensa algengust og rhinoveira næst algengust. Svipaður fjöldi lagðist inn á Landspítala með eða vegna COVID-19, inflúensu og RSV í viku 8 og í viku 7.

Í nýrri samantekt er farið nánar yfir tíðni öndurfærasjúkdóma í áttundu viku ársins 2023.

Sóttvarnalæknir