20. júní 2023
20. júní 2023
Nýjar Norrænar næringarráðleggingar 2023 - mataræði sem stuðlar að góðri heilsu og hefur jákvæð áhrif á umhverfið
Nýjar Norrænar næringarráðleggingar 2023 (NNR6) voru kynntar á Íslandi í dag. Þetta er umfangsmesta uppfærsla á ráðleggingunum til þessa frá því að þær komu fyrst út fyrir 40 árum. Þessar nýju Norrænu næringarráðleggingar mynda vísindalegan grundvöll næringarviðmiða og ráðlegginga um mataræði á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum. Ráðleggingarnar taka nú í fyrsta sinn mið af umhverfisþáttum auk áhrifa á heilsu.
Áhersla á mataræði sem er gott fyrir bæði heilsu og umhverfi
Almennt er mælt með mataræði sem er ríkt af afurðum úr jurtaríkinu svo sem grænmeti, ávöxtum, berjum, belgjurtum, kartöflum, heilkornavörum, hnetum og fræjum. Þá er lagt til að neyta fisks tvisvar til þrisvar í viku og hóflegri neyslu á fituminni mjólkurvörum. Mælt er með því að takmarka neyslu á rauðu kjöti og takmarka sérstaklega neyslu á unnum kjötvörum, áfengi og matvælum sem innihalda mikið af viðbættri fitu, salti og sykri. Birtar eru ráðleggingar fyrir 15 fæðuflokka, 36 næringarefni og ungbarnanæringu.
Mælt er með mataræði sem er ríkt af afurðum úr jurtaríkinu, aukinni fiskneyslu og að dregið verði úr kjötneyslu
Staðreyndir um Norrænar næringarráðleggingar
Norrænar næringarráðleggingar 2023 (NNR) eru unnar á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. Þær eru unnar af sérfræðingahópi með fulltrúum frá heilbrigðis- og matvælayfirvöldum frá öllum Norðurlöndunum.
Starf NNR í tengslum við endurskoðun ráðlegginganna er mjög umfangsmikið og hefur staðið yfir í fimm ár. Um 400 sérfræðingar hafa yfirfarið þúsundir vísindagreina og skrifað kafla um mismunandi næringarefni og fæðuflokka. Hver kafli var birtur til umsagnar á vefsíðu ráðlegginganna en þeir eru um 70 talsins og ferlið því gagnsætt.
Norrænu næringarráðleggingarnar voru fyrst birtar árið 1980 og er þetta í sjötta sinn sem þær eru gefnar út.
Næstu skref á Íslandi
Skipaður verður faghópur á vegum embættis landlæknis til að endurskoða opinberar ráðleggingar um mataræði á Íslandi sem hafa verið í gildi síðan 2014. Þær koma til með að byggja á þessum nýju Norrænu næringarráðleggingunum en einnig verður tekið tillit til íslenskra aðstæðna, t.d. niðurstaðna úr landskönnun á mataræði sem fram fór á árunum 2019-2021.
Frekari upplýsingar veita:
Hólmfríður Þorgeirsdóttir, næringarfræðingur, holmfridur.thorgeirsdottir@landlaeknir.is
Jóhanna Eyrún Torfadóttir, næringarfræðingur, johanna.e.torfadottir@landlaeknir.is