Fara beint í efnið

6. mars 2024

Ný nafnskírteini

Útgáfa á nýjum nafnskírteinum er hafin hjá Þjóðskrá

nafnskirteini-ferdaskilriki

Útgáfa á nýjum nafnskírteinum er hafin hjá Þjóðskrá og nú geta allir íslenskir ríkisborgarar óháð aldri og búsetu  sótt um og fengið útgefið nafnskírteini. Sótt er um skírteinin hjá sýslumönnum um  land allt. Fylla þarf út umsóknir á pappír að svo stöddu en unnið er að forskráningarferli eins og vegna umsókna um vegabréf. Hægt er að sækja um tvær tegundir af nafnskírteini.

Nafnskírteini sem ferðaskilríki fyrir íslenska ríkisborgara

Nafnskírteini sem eru ferðskilríki er hægt að framvísa innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) í stað þess að framvísa vegabréfi. Nafnskírteinin staðfesta handhafa kortsins og ríkisfang. Skírteinin eru með örgjörva líkt og vegabréf og fylgja alþjóðlegum stöðlum og ESB-reglugerð.

Munurinn á nafnskírteinum sem ferðaskilríkjum og vegabréfum, er að vegabréf gilda sem ferðaskilríki til allra landa í heiminum en nafnskírteinin gilda innan landa Evrópska efnahagssvæðisins (EES).

Nafnskírteini sem er ekki ferðaskilríki fyrir íslenska ríkisborgara

Nafnskírteini sem ekki eru ferðaskilríki, gilda sem persónuskilríki og staðfesta persónu handhafa. Nafnskírteinin sýna ekki ríkisfang og eru ekki gild sem ferðaskilríki.

Aukið öryggi og nýtt útlit

Með nýrri útgáfu nafnskírteina er verið að auka öryggi þeirra í samræmi við auknar kröfur sem gerðar eru til persónuskilríkja ásamt því að nafnskírteinin er í handhægri stærð í uppfærðu útliti. Nýju lögin um nafnskírteini byggja á, og innleiða, Evrópusambandsreglugerð sem var gagngert sett til að auka öryggi persónuskilríkja og ferðaskilríkja innan Evrópusambandsins/evrópska efnahagssvæðisins.  Með því að innleiða þessa reglugerð er Þjóðskrá að uppfylla kröfur Evrópusambandsins þar sem nýju nafnskírteinin eru í samræmi við skilríki í öðrum ríkjum Evrópusambandsins.

Verðskrá

Verð fyrir nafnskírteini er 4.600 kr. fyrir börn, öryrkja og aldraða og  9.200 kr. fyrir einstaklinga 18 ára og eldri, hvort sem þau eru sem ferðaskilríki eða ekki.

Afgreiðslutími nafnskírteina er sami og á vegabréfum, eða allt að 6 virkir dagar.

Allar nánari upplýsingar um umsóknarferlið og skírteinin er að finna á  syslumenn.is og á skra.is