8. desember 2025
8. desember 2025
Ný gjaldskrá Þjóðskjalasafns tekur gildi 1. janúar 2026
Ný gjaldskrá Þjóðskjalasafns Íslands nr. 1307/2025 hefur verið birt í B-deild Stjórnartíðinda og mun hún taka gildi 1. janúar 2026. Frá sama tíma fellur eldri gjaldskrá úr gildi. Gjaldskráin er sett með heimild í 48. gr.a laga nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn.

Aðdragandi að setningu nýrrar gjaldskrár er allnokkur. Sumarið 2024 var lögum um opinber skjalasöfn breytt og heimildir Þjóðskjalasafns til gjaldtöku af sveitarfélögum sem eru afhendingarskyld til Þjóðskjalasafns gerðar skýrari. Á fyrstu mánuðum þessa árs lágu fyrir drög að nýrri gjaldskrá eftir samráð við menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneyti. Drögin voru kynnt Sambandi íslenskra sveitarfélaga í marsmánuði. Þann 13. júní 2025 var annars vegar kynning á gjaldskrárdrögum fyrir öll sveitarfélög og hins vegar fyrir héraðsskjalasöfn. Auk þess bauðst sveitarfélögum sem eru afhendingarskyld til Þjóðskjalasafns kostur á fundi með safninu til að fara yfir gjaldskrárdrögin og áhrif þeirra á viðkomandi sveitarfélag. Sveitarfélögum og héraðsskjalasöfnum var gefinn kostur að senda inn athugasemdir um gjaldskrána til og með 27. júní. Engar athugasemdir við gjaldskrána bárust frá sveitarfélögum en ein sameiginleg umsögn barst frá héraðsskjalasöfnum.
Athugasemdir sem bárust frá héraðsskjalasöfnum við gjaldskrána gáfu tilefni til að endurskoða þrennt í gjaldskránni, það er gjald fyrir ráðgjöf og eftirlit, gjald fyrir tímavinnu starfsmanns og gjald fyrir miðlun skjala sveitarfélaga. Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra staðfesti gjaldskrána þann 27. nóvember síðastliðinn og var hún í framhaldinu auglýst í Stjórnartíðindum.
Helstu breytingar í nýrri gjaldskrá frá eldri, sem hefur verið í gildi frá 2021, snúa að gjaldtöku fyrir þjónustu sem Þjóðskjalasafn veitir sveitarfélögum sem eru afhendingarskyld til safnsins. Með gjaldskránni munu sveitarfélög sem eru afhendingarskyld til Þjóðskjalasafns greiða árlega gjald til safnsins fyrir ráðgjöf og eftirlit. Þá munu sveitarfélög áfram greiða vörslugjöld fyrir pappírsskjöl og rafræn gögn sveitarfélaga sem eru varðveitt hjá Þjóðskjalasafni.
Gjöld sem sveitarfélög sem eru afhendingarskyld til Þjóðskjalasafns munu greiða safninu eru eftirfarandi, sbr. 3. gr. gjaldskrárinnar:
Fyrir ráðgjöf og eftirlit verða innheimtar kr. 343 á hvern íbúa í sveitarfélaginu. Miðað verður við íbúafjölda í sveitarfélaginu 1. janúar 2026 samkvæmt mælingu Hagstofu Íslands. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni verða upplýsingar um íbúafjölda í sveitarfélögum 1. janúar 2026 birtar 12. mars 2026.
Fyrir vörslu pappírsskjala verða innheimtar kr. 9.020 á hvern hillumetra sem varðveittur er af pappírsskjölum sveitarfélagsins í Þjóðskjalasafni Íslands. Við útreikning á vörslugjöldum er miðað við öll skjöl sveitarfélags sem varðveitt er í Þjóðskjalasafni frá gildistöku laga nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn sem tóku gildi 12. júní 2014.
Fyrir vörslu rafrænna gagna verða innheimtar kr. 574 á gígabæt sem varðveitt eru af rafrænum gögnum sveitarfélagsins í Þjóðskjalasafni Íslands.
Þá er í nýrri gjaldskrá heimild til að taka gjald fyrir miðlun skjala sveitarfélaga sem ekki starfrækir héraðsskjalasafn en slíkt gjald er innheimt á grundvelli samkomulags við viðkomandi sveitarfélag (7. gr.) um skönnun og miðlun skjala. Jafnframt er nú heimild fyrir Þjóðskjalasafn að taka gjald fyrir aukna rannsóknarþjónustu, það er ef óskað er eftir aðstoð sem sérfræðingar Þjóðskjalasafns veita umfram lögbundna grunnþjónustu við að veita aðgang að safnkosti, svo sem við ítarleit að tilteknum upplýsingum eða rannsókn vegna tiltekinnar fyrirspurnar (8. gr.).
Gjaldskráin tekur svo breytingum árlega miðað við neysluverðsvísitölu og er gildandi verð auglýst á vef safnsins hverju sinni (10. gr.). Aðrir þættir gjaldskrárinnar eru uppfærslur frá gildandi gjaldskrá.