18. október 2023
18. október 2023
Nú er hægt að sækja um vegabréf á Ísland.is
Sýslumenn og Þjóðskrá í samstarfi við Ísland.is hafa nú opnað fyrir forskráningar og greiðslu fyrir vegabréfaumsóknir á Ísland.is.
Ferlið gengur þannig fyrir sig að umsækjendur forskrá umsókn fyrir sig eða barn undir þeirra forsjá sem sækja á um vegabréf fyrir ásamt því að velja afhendingastað vegabréfsins. Þegar skráningu á vefnum er lokið getur umsækjandi mætt til sýslumanns þegar honum hentar á opnunartíma sýslumanns til að ljúka þeim hluta umsóknarferlis sem krefst mætingar, svo sem myndatöku, undirritun og fingrafaraskráningu.
Eftir forskráningu nægir að annar forsjáraðilinn mæti með barn sitt í myndatöku og getur gert það á hvaða skrifstofu sýslumanns sem er á landinu óháð búsetu. Hægt er að bóka tíma í myndatöku hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu í gegnum NOONA. Ekki þarf að bóka tíma hjá öðrum sýslumönnum.
Sjá frétt á vef stjórnarráðsins
„Ég mætti til sýslumanns til að sækja um vegabréf og hélt að maki minn þyrfti ekki að koma með vegna þess að við erum gift. Það var ekki rétt hjá mér, það þarf víst samþykki beggja forsjáraðila. Ég sá fyrir mér að þurfa að bíða eftir að maki minn gæti losað sig úr vinnu til að hlaupa til sýslumanns og skrifa undir samþykkið en þá benti starfsmaður sýslumanns mér á nýju þjónustuna um forskráningu vegabréfa. Ég fór inn á syslumenn.is í símanum mínum og sótti um. Maki minn fór inn á Mínar síður á Ísland.is og samþykkti útgáfu vegabréfsins fyrir sitt leyti á símanum sínum þar sem hann var staddur þá stundina og þurfti því ekki að gera sér ferð á skrifstofu sýslumanns í vinnutímanum. Þetta var alveg frábært og ég mæli með.“ (Ánægður viðskiptavinur)