18. september 2025
18. september 2025
Norrænt samstarf safnar saman fenginni reynslu af heimsfaraldri
Samstarfsverkefni milli norrænna lýðheilsustofnana hefur dregið saman mikilvægan lærdóm af COVID-19 faraldrinum. Niðurstöðurnar geta nýst sem grunnur að því að efla samstarf og viðbúnað á svæðinu.

Árið 2022 ákváðu stofnanirnar að hefja sameiginlegt verkefni um að fylgja eftir reynslunni af faraldrinum á fimm lykilsviðum: Skimunum og smitrakningu, álagi á gjörgæslum, bólusetningum, aðgerðum á landamærum og samantekt á rýniskýrslum landanna. Hvert land tók ábyrgð á einu lykilsviði auk þess að taka þátt í öllum hinum.
Lokaskýrslan, var birt í dag af Lýðheilsustofnun Svíþjóðar, sem var í forystu verkefnisins, lýsir því hvernig Norðurlöndin, þar á meðal Færeyjar, Grænland og Álandseyjar, tókust að hluta á við faraldurinn á mismunandi vegu, en einnig hvernig þau saman gátu aukið viðbúnað sinn.
Verkefnið, fjármagnað af Norrænu ráðherranefndinni, sýnir að náið samstarf milli heilbrigðisyfirvalda skilar miklum ávinningi.
Lærdómur dreginn af COVID-19: Norrænar úttektir
Mikilvægur þáttur í viðbúnaði við krísum er að læra af fyrri atburðum með rýni á aðgerðum að þeim loknum (e. After-Action Reviews). Sóttvarnalæknir leiddi þann hluta verkefnisins sem fólst í því að safna saman norrænum úttektum varðandi faraldurinn. COVID-19 heimsfaraldurinn leiddi til slíkrar rýni á öllum Norðurlöndunum.
Afurð þeirrar vinnu dregur saman þær rýniskýrslur sem gerðar voru á landsvísu á Norðurlöndunum með áherslu á viðbúnað og aðgerðir vegna lýðheilsu og félagsleg áhrif. Skýrslur frá sveitarfélögum og sjálfstæðar fræðilegar rannsóknir voru almennt undanskildar en athygli beint að skýrslum frá hinu opinbera.
Þær skýrslur sem gefnar voru út eru mismunandi að umfangi og uppruna, sem gerir beinan samanburð erfiðan en hægt er að flokka efni þeirra í fimm flokka:
Stjórnarhættir og löggjöf: Yfirgripsmiklar úttektir voru framkvæmdar í hverju landi sem skoðuðu stjórnskipulag, ákvarðanatöku, hlutverk yfirvalda og lagaramma.
Faraldsfræðileg þróun og viðbragð: Skýrslur frá Álandseyjum og Grænlandi lýstu faraldsfræðilegri þróun og viðbrögðum við heimsfaraldrinum. Stærri skýrslur frá öðrum löndum innihéldu einnig sérstaka kafla um faraldsfræðilegar greiningar.
Sérstakar aðgerðir og áhrif á heilsu: Nokkrar skýrslur lögðu mat á bólusetningaraðgerðir, viðbúnað heilbrigðisstofnana, faraldra á hjúkrunarheimilum, aðgerðir á landamærum og fleira.
Svæðisbundin viðbrögð: Svíþjóð og Ísland birtu úttektir frá sjónarhóli sveitarfélaga sem náðu meðal annars til skóla, umönnunar aldraðra, almenningssamgangna og staðbundins viðbúnaðar.
Samskipti og upplýsingaóreiða: Vísað er í skýrslu þjóðaröryggisráðs á Íslandi um upplýsingaóreiðu og COVID-19.
Niðurstöður samantektarinnar benda til að betri samanburður fengist á milli landanna ef við upphaf krísu í framtíðinni tækju Norðurlöndin upp samræmdari nálgun á rýni atburða auk kerfisbundinnar gagnasöfnunar.
Samantektin inniheldur ekki allar rýniskýrslur sem gefnar hafa verið út og skoðaði eingöngu afmarkaðan hluta þeirra sem sneru að heilbrigðisþjónustu. Athygli vekur að fáar skýrslur innihalda útdrátt á ensku og fáar ritrýndar greinar hafa verið gefnar út í tengslum við úttektirnar en slíkt myndi bæta aðgengi og miðlun á gögnum.
Sóttvarnalæknir