26. apríl 2024
26. apríl 2024
Norræna lýðheilsuráðstefnan verður haldin í Gautaborg 2025
Norræna lýðheilsuráðstefnan verður haldin í Gautaborg í maí 2025.
Lýðheilsustöð Svíþjóðar (Folkhälsomyndigeten) stendur fyrir ráðstefnunni í samstarfi við norræna kollega, en þetta verður í 14. skipti sem ráðstefnan er haldin. Markmið ráðstefnunnar er að vera vettvangur til að efla fagleg tengsl og samstarf auk þess að deila þekkingu og reynslu á sviði lýðheilsu.
Ráðstefnan verður haldin dagana 13. til 15. maí 2025 og munu hagsmunaaðilar hvaðanæva af Norðurlöndum koma þar saman.
„Við hlökkum til að halda svo mikilvægan viðburð. Saman munum við miðla þekkingu og reynslu úr lýðheilsustarfi. Á norrænum grunni getum við öðlast nýja innsýn í þróun og aðgerðir sem hafa skilað árangri,“ segir Karin Tegmark Wisell, forstjóri Lýðheilsustöðvar Svíþjóðar.
Ráðstefnan er ætluð eftirfarandi aðilum:
• Sérfræðingum á sviði lýðheilsu og þeim sem starfa á vettvangi, fólki í stjórnmálum og stefnumótunarvinnu og fulltrúum samtaka sem starfa á sviði lýðheilsu.
• Rannsakendum í háskólum og rannsóknastofnunum.
• Samtökum atvinnulífsins og einkaaðilum sem starfa á sviði lýðheilsu, félagslegrar sjálfbærni og sambærilegra mála.
Norræna lýðheilsuráðstefnan hefur verið haldin á þriggja ára fresti frá árinu 1987 og hefur frá upphafi verið samstarfsverkefni Norðurlandanna.
Ráðstefnan verður á ensku og þema hennar og vefsíða verða kynnt síðar á þessu ári.
Norræna lýðheilsuráðstefnan var síðast haldin á Íslandi í lok júní 2022 í samstarfi við Evrópuráðstefnuna í jákvæðri sálfræði. Fjölmargir þátttakendur nýttu tækifærið til að kynna sér nýjustu stefnur og strauma innan lýðheilsu og jákvæðrar sálfræði.
Lýðheilsusvið embættis landlæknis