12. maí 2023
12. maí 2023
MPX veirusýking (apabóla) er ekki lengur bráð ógn við lýðheilsu þjóða samkvæmt WHO
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) lýsti því yfir í gær að MPX veirusýking (apabóla) er ekki lengur bráð ógn við lýðheilsu þvert á landamæri (public health event of international concern; PHEIC) en slíku ástandi var lýst yfir í júlí 2022. Síðustu mánuði hefur dregið mjög úr fjölda tilfella og ekki orðið vart við ný einkenni eða alvarlegri veikindi en áður. Áfram þarf að sýna árvekni gagnvart sjúkdómnum en horfa nú til langs tíma.
16 tilfelli af MPX veiru (apabólu) hafa greinst hérlendis frá því sjúkdómurinn tók að breiðast út í Evrópu og heiminum vorið 2022 en sjúkdómurinn hafði hingað til verið sjaldgæfur utan Afríku. Ekkert tilfelli MPX veirusýkingar (apabólu) hefur greinst á þessu ári á Íslandi.
MPX veira veldur sjúkdómi, sem nú kallast MPX veirusýking en hét áður apabóla. Sjúkdómurinn getur verið vægur til alvarlegur og einkennist af útbrotum, eitlastækkunum og flensulíkum einkenni. Útbrotin geta komið á undan eða eftir öðrum einkennum og verið staðbundin eða útbreidd. Í þessum faraldri hafa flest tilfelli greinst hjá körlum sem stunda kynlíf með körlum en allir sem eru í náinni snertingu við smitandi einstakling geta smitast, óháð aldri, kyni eða kynhneigð. Alvarleg veikindi eru sjaldgæf og oftast gengur sjúkdómurinn yfir af sjálfu sér en sérhæfð lyfjameðferð er til. Ónæmisbældir einstaklingar eru sérstaklega í aukinni áhættu á alvarlegum veikindum.
MPX veira (apabóla) smitast ekki auðveldlega á milli fólks. Til að smitast af MPX veiru (apabólu) þarf að hafa náið samneyti við smitaðan einstakling, eða vera í snertingu við sóttmengaða hluti s.s. handklæði eða rúmfatnað. Bein snerting við húð með útbrotum eða sárum er sérstaklega áhættusamt. Bóluefni við sjúkdómnum er fáanlegt hérlendis og er mælt með því fyrir skilgreinda áhættuhópa.
Ráðleggingar til að forðast smit eru meðal annars að:
Stunda öruggt kynlíf, þar á meðal að takmarka fjölda bólfélaga og varast kynlíf með ókunnugum. Smokkar geta dregið úr en ekki að fullu útrýmt hættunni af smiti.
Handhreinsun með sápu og vatni eða handspritti.
Þrífa og sótthreinsa hluti/búnað sem er deilt og þvo handklæði og lín á 60°C hita.
Sjá nánar:
Sóttvarnalæknir