Fara beint í efnið

21. ágúst 2024

MPX veira yfirlýst bráð ógn við lýðheilsu í heiminum í annað sinn

Aðalframkvæmdastjóri WHO hefur lýst yfir, í annað sinn á 2 árum, að MPX veira sé bráð ógn við lýðheilsu þjóða (PHEIC) í kjölfar mikillar aukningar nýrra tilfella í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó (DRC) og nokkrum nágrannalöndum þess, auk tilkomu nýs afbrigðis af tegund 1 – afbrigði 1b.

Mynd með frétt um MPX

Aðalframkvæmdastjóri WHO hefur lýst yfir, í annað sinn á 2 árum, að MPX veira sé bráð ógn við lýðheilsu þjóða (PHEIC) í kjölfar mikillar aukningar nýrra tilfella í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó (DRC) og nokkrum nágrannalöndum þess, auk tilkomu nýs afbrigðis af tegund 1 – afbrigði 1b. Þetta afbrigði virðist vera alvarlegri en tegund 2, sem hefur verið í umferð í Evrópu síðan 2022.

Áhættumat

Þann 16. ágúst síðastliðinn birti Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (ECDC) áhættumat varðandi MPX-sýkingu í Evrópu og fyrir evrópska ríkisborgara sem ferðast til Afríku. Hætta á smiti í Evrópu er almennt talin lág en há hjá einstaklingum í nánum samskiptum við smitaða. Búist er við aukningu á innfluttum tilfellum, sem gerir einangrun/smitgát, skjóta greiningu og smitrakningu mikilvæga þegar MPX-smit er grunað.

Í samræmi við nýtt áhættumat alþjóðastofnana, meðal annars WHO og ECDC metur sóttvarnalæknir hættu á MPX-smiti áfram lága hjá almenningi á Íslandi og lága til miðlungs hjá ákveðnum hópum, svo sem körlum sem stunda kynlíf með körlum (MSM) með mörgum bólfélögum. Líkur á smiti minnka verulega hjá einstaklingum sem hafa verið bólusettir eða hafa sögu um fyrri MPX-sýkingu. Á vef embættis landlæknis má fá upplýsingar um hverjir geta fengið MPX-bólusetningu hérlendis.

Aukning á MPX-tilfellum í Afríku

Frá byrjun árs 2024 hefur orðið áberandi aukning á fjölda MPX-tilfella í DRC í Mið-Afríku og veiran hefur breiðst út til nokkurra nærliggjandi landa. Þessi aukning er rakin til MPX-afbrigða 1a og 1b, (afbrigðið 1a er oft einnig kallað tegund 1). Þó að MPX hafi verið í dreifingu í Afríku í mörg ár, olli veiran aðeins minni háttar faröldrum fyrir 2022 og fá tilfelli greindust utan álfunnar. Frá og með 2022, fór hins vegar afbrigðið 2b að breiðast út til fjölmargra landa utan Afríku, þar á meðal til Evrópu.

Hvað er MPX-veirusýking?

MPX-veira (áður kölluð apabóla) er skyld bólusóttarveirunni, sem var útrýmt á heimsvísu árið 1980. Almennt er MPX-veiran minna smitandi og veldur minna alvarlegum veikindum en bólusótt. MPX smitast með náinni snertingu við sýktan einstakling, þar með talið kynlífi, fyrst og fremst frá sárum á húð eða slímhúð. Dropar eða úði frá öndunarvegi eru ekki talin mikilvæg smitleið. MPX getur einnig smitast frá dýrum, aðallega nagdýrum, sem er algeng smitleið í Afríku fyrir tegund 1.

Dæmigerð einkenni MPX-sýkingar eru útbrot (bólur, blöðrur), sem geta verið bundin við kynfæri og endaþarmssvæði ef smit varð með kynlífi. Sýkingunni getur einnig fylgt hiti, vöðvaverkir, höfuðverkur og bólgnir eitlar. Útbrotin og blöðrurnar geta verið mjög sársaukafull. Í sumum tilfellum, eftir afbrigði og einstaklingnum, getur sjúkdómurinn verið banvænn. Alvarleg veikindi eru líklegri hjá ónæmisbældum einstaklingum og við ómeðhöndlaða HIV-sýkingu. Börn og barnshafandi konur eru einnig í meiri hættu. Á Íslandi greindust 16 fullorðnir með MPX árið 2022 og einn árið 2023, allir með afbrigði 2b, en enginn var alvarlega veikur. Engin tilfelli hafa greinst á Íslandi það sem af er árinu 2024.

Faraldurinn í Afríku

Tvær tegundir veirunnar hafa verið í dreifingu í Afríku í mörg ár, tegund 1, fyrst og fremst í Mið-Afríku, og tegund 2, fyrst og fremst í Vestur-Afríku. Almennt séð hefur MPX af tegund 1 verið alvarlegri sjúkdómur með dánartíðni allt að 10%, en tegund 2 hefur venjulega verið vægari sjúkdómur með dánartíðni um 1%.

Í september 2023 greindist nýtt afbrigði MPX af tegund 1 meðal sýktra einstaklinga í austurhluta DRC. Afbrigðið var kallað 1b. Þetta afbrigði virðist valda hluta faraldursins í DRC og hefur nýlega breiðst út til nærliggjandi landa, þar á meðal Búrúndí, Kenýa, Rúanda og Úganda.

Vegna óvenjumikillar aukningar tilfella, tilkomu nýs afbrigðis og útbreiðslu til landa þar sem sjúkdómurinn var ekki áður, lýsti Sóttvarnastofnun Afríku yfir neyðarástandi þann 12. ágúst síðastliðinn. Aðalframkvæmdastjóri WHO fylgdi í kjölfarið og lýsti því yfir 14. ágúst að faraldurinn væri ógn við lýðheilsu þjóða heims. Frá ágúst 2024 hefur Sóttvarnastofnun Afríku tilkynnt um meira en 18.000 staðfest eða grunuð tilfelli af MPX og 500 dauðsföll, í 12 Afríkulöndum, þar á meðal DRC og nálægum löndum. Um 95% þessara tilfella hafa greinst í DRC og flest eru tengd tegund 1.

MPX-veirusýking í Evrópu

Árið 2022 breiddist faraldur MPX-veiru af afbrigði 2b út utan Afríku og um allan heim, í Evrópu, Norður- og Suður-Ameríku og Asíu. Sjúkdómurinn dreifðist fyrst og fremst með kynlífi. Samkvæmt nýjustu vöktunarskýrslu WHO og ECDC 15. ágúst 2024 hefur alls verið tilkynnt um 27.529 MPX-tilfelli í 46 Evrópuríkjum frá 2022 til júlí 2024, öll tegund 2. Meirihluti þessara tilfella hefur verið meðal karla á aldrinum 18-40 ára. Flestir einstaklingar fengu útbrot ásamt einkennum eins og hita, þreytu og vöðvaverkjum. Af þessum tilfellum þurftu 885 (7%) á sjúkrahúsvist að halda, átta voru lagðir inn á gjörgæslu og tilkynnt var um 10 dauðsföll. Árið 2024 hefur tilkynntum tilfellum í Evrópu fækkað. Þessi fækkun er rakin til breytinga á hegðun, lýðheilsaðgerða og bólusetningar gegn MPX-veiru. Þó greinast enn um það bil100 ný tilfelli af MPX (tegund 2) á svæðinu í hverjum mánuði.

Fyrsta staðfesta tilfellið utan Afríku af nýja afbrigðinu 1b, sem hugsanlega er alvarlegra og meira smitandi en tegund 2, greindist í Svíþjóð 14. ágúst síðastliðinn. Líklegt er að fleiri tilfelli af MPX-tegund 1 muni berast til Evrópu.

Leiðbeiningar varðandi MPX-veirusýkingu

Sóttvarnalæknir hefur gefið út leiðbeiningar fyrir almenning og heilbrigðisstarfsfólk á Íslandi vegna MPX-veirusýkingar og eru þær uppfærðar reglulega eftir því sem nýjar upplýsingar koma fram. Leiðbeiningarnar innifela meðal annars upplýsingar um sjúkdóminn, sótthreinsun, forvarnir, bólusetningar, skilgreiningu tilfellis, notkun hlífðarbúnaðar, greiningu og smitrakningu. MPX er tilkynningarskyldur sjúkdómur til sóttvarnalæknis. Rannsóknarstofa sýkla- og veirufræðideildar Landspítala greinir MPX-sýni og getur greint tegundir 1 og 2. Sóttvarnalæknir á birgðir af MPX-bóluefni en framkvæmd bólusetninga er hjá Göngudeild smitsjúkdóma á Landspítala. Ráðleggingar varðandi bólusetningu eru óbreyttar frá árinu 2022.

MPX-veira og ferðalög

WHO mælir ekki með takmörkunum á ferðalögum til að bregðast við MPX-faraldrinum, en heilbrigðisyfirvöld fylgjast náið með ástandinu. Eins og er mælir sóttvarnalæknir ekki með neinum ferðatakmörkunum til Afríkuríkja þar sem veiran er í dreifingu. Hins vegar, ef fyrirhugað er að ferðast til lands þar sem MPX hefur náð útbreiðslu, er ráðlagt að:

  • Forðast nána snertingu við einstaklinga með MPX-sýkingu.

  • Forðast einstaklinga sem eru veikir eða með óútskýrð útbrot.

  • Forðast kynlíf með nýjum bólfélögum.

  • Ekki deila rúmfötum eða persónulegum munum með einstaklingum sem eru með eða gætu verið með MPX.

  • Sinna vandaðri og endurtekinni handhreinsun (handþvotti með sápu eða handhreinsun með spritti).

  • Forðast snertingu við dýr, sérstaklega nagdýr.

  • Ekki útbúa eða borða kjöt af villtum dýrum (e. bushmeat).

  • Vera meðvituð um einkenni MPX.

  • Ef þú hefur verið í nánu sambandi við einhvern með MPX skaltu leita læknis og ráða hjá heilbrigðisþjónustu á staðnum.

  • Ef þú færð einkenni MPX skaltu tafarlaust hafa samband við lækni og forðast nána snertingu við aðra.

MPX-bólusetning er sem stendur ekki hluti af almennum ráðleggingum vegna ferðalaga til ríkja þar sem MPX-faraldur er og ferðamenn geta ekki keypt bóluefnið. Ferðaráðleggingar verða uppfærðar eftir þörfum miðað við breytingar á ástandinu og faraldsfræði. Mælt er með því að einstaklingar kynni sér vel upplýsingar um ástandið í þeim löndum sem þeir hyggjast ferðast til.

Sóttvarnalæknir