Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

29. september 2025

Lýðheilsuvísar 2025 kynntir á Ísafirði

Lýðheilsuvísar eftir heilbrigðisumdæmum á Íslandi 2025 voru kynntir í tíunda sinn á Ísafirði í dag.

María Heimisdóttir landlæknir á fundi á Ísafirði þar sem lýðheilsuvísar 2025 voru kynntir

María Heimisdóttir landlæknir bæði opnaði og lokaði fundinum. Hún byrjaði á því að fjalla um tilgang lýðheilsu og í lokin ítrekaði hún að þetta væru vísar sem gefa vísbendingar um stöðuna og hversu mikilvægt það væri að fólk á vettvangi legði svo mat á stöðuna og ynni frekar með gögnin. Hún ræddi um mikilvægi samstarfs og samtals þvert á geira samfélagsins og mikilvægi þess að koma saman eins og í dag við kynningu á Lýðheilsuvísunum.

Lýðheilsuvísar tengdir samfélaginu, heilsu og sjúkdómum

Sigríður Haraldsd. Elínardóttir, sviðsstjóri heilbrigðisupplýsingasviðs, fór yfir valda lýðheilsuvísa. Þar kom meðal annars fram að um 19% landsmanna áttu við fjárhagserfiðleika að stríða árið 2024 og hafði hlutfallið lítið breyst frá árinu 2023. Þegar heilbrigðisumdæmin eru borin saman eiga hlutfallslega flestir í fjárhagserfiðleikum á Suðurnesjum en fæstir á Austurlandi en almennt er hlutfallið hærra í landsbyggðarumdæmum heldur en á höfuðborgarsvæðinu. Fátækt hefur skaðleg áhrif á heilsu og félagslega stöðu og mikilvægt er að tryggja stuðning þar sem hans er þörf. Um þriðjungur landsmanna metur andlega heilsu sína sæmilega eða lélega sem er svipað og árið á undan.

Í lögum um heilbrigðisþjónustu er lögð áhersla á að almenn heilbrigðisþjónusta sé veitt í heimabyggð og að heilsugæslan sé að jafnaði fyrsti viðkomustaður fólks í heilbrigðiskerfinu. Í reglugerð um heilsugæslustöðvar kemur fram að þær skuli veita geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og fullorðna sem feli í sér mat á vanda, meðferðaráætlun og sálfræðimeðferð. Áhersla er lögð á meðferð við þunglyndi, kvíða og áföllum þar sem vandinn er vægur eða miðlungs alvarlegur. Í samræmi við lög og markmið heilbrigðisstefnu hafa heilbrigðisyfirvöld lagt áherslu á að styrkja geðheilbrigðisþjónustu heilsugæslunnar undanfarin ár.

Ef marka má fjölda viðtala í heilsugæslu þar sem fyrsta sjúkdómsgreining var geð- eða atferlisröskun eru skýrar vísbendingar um að heilsugæslan hafi aukið framboð af þjónustu við börn og ungmenni vegna geðheilsuvanda. Þær vísbendingar eru í takt við það að árið 2017 var byrjað að bjóða upp á þjónustu sálfræðinga á heilsugæslustöðvum og síðan hafa fjölmörg geðheilsuteymi tekið til starfa innan heilsugæslunnar. Komum barna í heilsugæslu vegna geð- og atferlisraskana hefur fjölgað frá árinu 2017, einkum í landsbyggðarumdæmum.

Lýðheilsuvísar tengdir sóttvörnum – bólusetningar og sýklalyfjanotkun

Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir kynnti lýðheilsuvísa tengdum sóttvörnum. Hún benti á að samkvæmt reglugerð eru allar bólusetningar á Íslandi skráðar í miðlægan bólusetningagrunn og þátttökutölur í almennum bólusetningum barna eru birtar árlega í júní, bæði á landsvísu og eftir umdæmum. Tilgangurinn er að fylgjast með þátttöku í bólusetningum og meta hættuna á að upp komi faraldrar.

Þátttaka er almennt góð í ungbarnabólusetningum. Bólusetning er þó með lægsta móti í endurbólusetningum í nokkrum umdæmum, meðal annars gegn barnaveiki, stífkrampa og kíghósta (DTP) og mislingum, hettusótt og rauðum hundum (MMR).

Bóluefni gegn árlegri inflúensu er í boði ár hvert að hausti. Sóttvarnalæknir mælist til að ákveðnir forgangs- og áhættuhópar njóti forgangs við inflúensubólusetningar sem er þeim að kostnaðarlausu. Þátttaka í inflúensubólusetningum jókst hjá eldra fólki á COVID-19-tímabilinu en hefur dregist saman aftur. Markmiðið er að a.m.k. 70% eldra fólks sé bólusett en þátttaka þess hérlendis er aðeins um 40-50%.

Guðrún benti á að skynsamleg notkun sýklalyfja er lykilatriði til þess að stemma stigu við útbreiðslu sýklalyfjaónæmis. Sýklalyfjaávísanir á Íslandi árið 2024 voru svipaðar og árin 2022 og 2023. Notkun sýklalyfja utan sjúkrahúsa var um 94% af heildarnotkun. Heimilislæknar ávísa um þriðjungi skammta en rúmlega 30% íbúa fengu ávísað sýklalyfjum.

Íslendingar nota mest af sýklalyfjum á Norðurlöndum en eru í meðallagi miðað við ESB/EES-ríki. Notkun sýklalyfja á Norðurlöndunum hefur verið minnst í Svíþjóð undanfarinn áratug en Ísland sker sig hins vegar úr í Evrópu fyrir litla notkun breiðvirkra sýklalyfja, sem er jákvætt.

Lýðheilsuvísar tengdir líðan og lifnaðarháttum

Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri lýðheilsusviðs hjá embætti landlæknis, kynnti vísa sem tengjast líðan og lifnaðarháttum. Dóra sagði frá starfshópi á vegum heilbrigðisráðherra um nýjar lýðheilsuáskoranir ungmenna og að við valið á vísum í ár hefði verið tekið mið af þessum áskorunum.

Snjalltækjanotkun og samvera

Einn þeirra vísa er snjalltækjanotkun barna. Hann sýnir að notkun snjalltækja fyrir svefn hefur aukist síðustu ár og er nú 18% hjá ungmennum í 7. bekk. Nokkur munur er milli heilbrigðisumdæma og var hlutfallið hæst á Vestfjörðum eða 30%.

Samvera með foreldrum er talin einn mikilvægasti verndandi þátturinn þegar áhættuhegðun barna er annars vegar. Ríflega 87,5% barna í 4.-6. bekk svara því til að þau geri eitthvað skemmtilegt með foreldrum sínum að minnsta kosti vikulega.

Öryggi og ofbeldi

Ofbeldi og ofbeldisvarnir hafa verið áberandi í samfélaginu og því eru nokkrir vísar sem snúa að þeim málaflokki. Í ár var spurt um traust og öryggi. Rúmlega 30% framhaldsskólanema segja að það sé einhver fullorðinn í skólanum sem þau geta treyst. Þetta hlutfall er áberandi hærra á Vesturlandi, 43,3%, en mikilvægt er að vinna að því að hækka þetta hlutfall í öllum umdæmum.

Tæplega 96% barna í 7.-10. bekk upplifa sig örugg heima hjá sér, sem er gott, en mikilvægt er að huga að þeim 4% sem ekki upplifa sig örugg heima hjá sér.

Um 90% unglinga í 9.-10. bekk segjast upplifa sig örugg í hverfinu eða byggðarlaginu sem þau búa í en markmiðið er að sjálfsögðu að hlutfallið verði 100%. Þá hefur einelti aukist en 11% barna í 6.-7. bekk segjast hafa verið lögð í einelti og mikilvægt er að vinna markvisst að því að útrýma því. Einn mest sláandi lýðheilsuvísirinn sýnir að 13% framhaldsskólanema hafa orðið fyrir nauðgun.

Ölvunardrykkja - Orkudrykkir – Gosdrykkir - Nikótín

Ölvunardrykkja meðal grunnskólanema hefur dregist saman. Aðeins 3% svara því til að hafa orðið ölvuð síðustu 30 daga. Orkudrykkjuneysla framhaldsskóla hefur aukist síðustu ár en um 31,2% framhaldsskólanema segjast neyta orkudrykkja 5 daga í viku eða oftar. Þá neytir um þriðjungur fullorðinna gosdrykkja daglega eða oftar.

Um fjórðungur framhaldsskólanema hefur notað nikótínpúða síðastliðna 30 daga og 8,4% fullorðinna nota rafrettur.

Að lokum þá hefur streita kvenna aukist síðustu ár umfram streitu karla og er hlutfall kvenna sem upplifa mikla streitu núna 31,6% samanborið við 22,7% karla.

Gildi lýðheilsuvísa fyrir starf sveitarfélaga

Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar bauð fundargesti velkomna og í lok fundarins ræddu Margrét Geirsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs, og Dagný Finnsbjörnsdóttir, íþrótta- og æskulýðsfulltrúi og tengiliður Heilsueflandi samfélags hjá Ísafjarðarbæ, um hagnýta notkun lýðheilsuvísa fyrir starf sveitarfélagsins. Margrét nefndi heilsueflandi sveitarfélag, farsæld og barnvæn sveitarfélög sem setur ákveðnar skyldur á sveitarfélögin til að vinna að málefnum barna. Hún sagðist hafa verulegar áhyggjur af vísi um fjárhagserfiðleika og sagði mikilvægt að taka þeim niðurstöðum grafalvarlega. Hún ræddi nýjar lýðheilsuáskoranir ungmenna og mikilvægi þess að skapa jákvætt umhverfi fyrir börn og ungmenni í heimabyggð og nendi í því samhengi umræðu um að opna aftur ungmennahús. Dagný tók undir með Margréti og ræddi um mikilvægi þess að uppfæra forvarnarvinnu, læra af því sem hefur gengið vel í að takast á við fyrri áskoranir og þróa áfram lýðheilsustefnu í samvinnu við alla geira samfélagsins. Þær ræddu báðar um mikilvægi lýðheilsuvísa og þessa fundar fyrir þá vinnu sem framundan er til að vinna að heilsueflandi samfélagi og þannig vellíðan fyrir öll.

Lúðvík Þorgeirsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, stýrði fundinum.

Arnar Sigbjörnsson, verkefnastjóri heilbrigðisupplýsingasviðs
Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðstjóri lýðheilsusviðs
Gígja Gunnarsdóttir, verkefnastjóri heilsueflandi samfélags
Guðrún Aspelund, sóttvarnalæknir
Sigríður Elínard. Haraldsdóttir, sviðstjóri heilbrigðisupplýsingasviðs

Frekari upplýsingar
Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis
kjartan.h.njalsson@landlaeknir.is