Fara beint í efnið

25. janúar 2024

Lífsbrú – miðstöð sjálfsvígsforvarna og Lífsbrú – sjóður

Í dag 25. janúar var formleg kynning á Lífsbrú – miðstöð sjálfsvígsforvarna og Lífsbrú – sjóði í húsakynnum embættis landlæknis, Katrínartúni 2.

Alma D. Möller, landlæknir, við opnun Lífsbrúar - Miðstöðvar sjálfsvígsforvarna

Á opnuninni flutti Alma D. Möller landlæknir inngangsorð. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands og Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra ávörpuðu gesti. Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir, verkefnastjóri sjálfsvígsforvarna og Högni Óskarsson, geðlæknir og ráðgjafi sögðu frá Lífsbrú. Í lokin gafst tími til spurninga og umræðna.

Lífsbrú – miðstöð sjálfsvígsforvarna og Lífsbrú – sjóður eru starfrækt undir merkjum embættis landlæknis og má lesa sér nánar til um markmið, kennimerki og verkefni Lífsbrúar – miðstöðvar sjálfsvígsforvarna á vef embættis landlæknis.

Með tilkomu Lífsbrúar - miðstöðvar sjálfsvígsforvarna er sett nafn og kennimerki á markvisst starf við sjálfsvígsforvarnir. Forvarnirnar eru settar í fastari og formlegri skorður og gerðar sýnilegri svipað og aðrar heilsueflandi nálganir hjá embættis landlæknis.

Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir, verkefnisstjóri, við opnum Lífsbrúar - Miðstöðvar sjálfsvígsforvarna

Lífsbrú – sjóður mun styðja við sjálfsvígsforvarnir með markvissri fjáröflun en með tilkomu sjóðsins verður einstaklingum, félögum, fyrirtækjum og sjóðum kleift að styrkja og styðja beint vinnu við aðgerðaráætlun stjórnvalda til að fækka sjálfsvígum á Íslandi.

Frekari upplýsingar:
Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir, verkefnastjóri sjálfsvígsforvarna
gudrun.j.gudlaugsdottir@landlaeknir.is