11. nóvember 2024
11. nóvember 2024
Lifrarbólga B – innlend hópsýking
Undanfarna mánuði hafa komið upp nokkur tilfelli bráðrar lifrarbólgu B hér á landi sem tengjast innbyrðis. Rakning bendir til að smit hafi átt sér stað við kynmök.
Skimun fyrir lifrarbólgu B hér á landi á sér helst stað í meðgönguvernd og við skoðun vegna dvalarleyfis. Sóttvarnalæknir hvetur því til aukinnar skimunar fyrir lifrarbólgu B við leit að kynsjúkdómum og öðrum blóð- og vessabornum sjúkdómum, svo sem ef einstaklingur greinist með kynsjúkdóm eða óskar eftir rannsókn vegna kynsjúkdóms eða ef tilefni er til skimunar fyrir lifrarbólgu C og HIV, svo sem hjá fólki sem notar fíkniefni í æð og í fangelsum.
Hvað er lifrarbólga B?
Lifrarbólga B er veirusjúkdómur sem smitast með blóði og öðrum líkamsvessum. Á heimsvísu er algengast að smit berist frá móður til barns í fæðingu. Eins og HIV og lifrarbólga C getur lifrarbólga B smitast við kynmök og stunguslys í heilbrigðisþjónustu en ólíkt HIV og lifrarbólgu C er lifrarbólga B lífseig veira og oft smitandi meðal heimilisfólks annars en rekkjunauta og jafnvel milli barna í dagvistun. Börn sem smitast við fæðingu eru ólíkleg til að fá bráða lifrarbólgu en jafnframt ólíkleg til að losa sig við veiruna og þannig líkleg til að fá ævilanga sýkingu ásamt þeim fylgikvillum sem henni fylgja (skorpulifur og lifrarkrabbamein). Fólk sem smitast á fullorðinsárum er líklegra en ungbörn til að fá bráða lifrarbólgu (helstu einkenni kviðverkir, niðurgangur og gula) og til að losa sig við veiruna af sjálfsdáðum. Meðgöngutíminn er langur og mikil hætta á smiti til rekkjunauta og heimilisfólks meðan sýkingin er til staðar, jafnvel áður en veikindi koma fram.
Forvarnir og meðferð
Veirulyf eru til með virkni gegn lifrarbólgu B en árangur af meðferðinni er síðri en við lifrarbólgu C.
Bólusetning gegn lifrarbólgu B er öflug forvarnaraðgerð gegn smiti og er mælt með henni hér á landi í eftirfarandi aðstæðum:
Börn mæðra með lifrarbólgu B.
Heimilisfólk einstaklinga með lifrarbólgu B.
Starfsfólk í heilbrigðisþjónustu sem kemst í snertingu við líkamsvessa við störf sín.
Fólk með nýrnabilun sem þarf á skilun að halda.
Fólk með lifrarsjúkdóma aðra en lifrarbólgu B sem auka hættu á lifrarkrabbameini og skorpulifur, þar með talið fólk sem greinst hefur með lifrarbólgu C.
Fólk sem notar fíkniefni í æð.
Fólk sem ferðast erlendis til langdvalar (að minnsta kosti 4 vikur) vegna aukinnar hættu á smiti í samfélaginu víða um heim.
Karlar sem stunda kynlíf með karlmönnum.
Sjá einnig kafla um lifrarbólgu B á vef embættis landlæknis.
Sóttvarnalæknir