8. september 2025
8. september 2025
Leiðbeiningar um COVID-19 bólusetningar veturinn 2025-2026 birtar
Nýjar leiðbeiningar um notkun COVID-19 bóluefna hafa verið birtar hjá sóttvarnalækni.

Faraldsfræði síðastliðin tvo ár hefur ekki verið í takti við að hafa aðaláherslu í COVID-19 bólusetningum að hausti, heldur hafa veikindi vegna COVID-19 verið meira áberandi yfir sumartímann en yfir háveturinn. Því hefur verið ákveðið að hafa ekki átak í COVID-19 bólusetningum samhliða inflúensubólusetningum haustsins, heldur verður fylgst náið með veikindum vegna COVID-19 á sjúkrastofnunum og hvatt til bólusetninga ef tilefni reynist til.
Jafnframt hefur mun minna borið á alvarlegum veikindum vegna COVID-19 undanfarna mánuði en fyrri ár þrátt fyrir minnkandi þátttöku í bólusetningum meðal áhættuhópa og hefur því aldursviðmið sem mælt er með bólusetningu óháð öðrum áhættuþáttum verið hækkað í 75 ár. Þá hefur listi yfir áhættuhópa meðal yngri einstaklinga sem helst er hvatt til að sækist eftir bólusetningu verið endurskoðaður í samráði við smitsjúkdómalækna. Læknar geta mælt með bólusetningu sjúklinga með önnur undirliggjandi vandamál, svo sem lungnasjúkdóma, bóluefni er til taks og heilbrigðisstofnanir geta pantað það.
Ekki er útilokað að bólusetningarátök undanfarinna tveggja vetra hafi átt þátt í því að ekki bar eins mikið á COVID-19 veikindum yfir vetrartímann eins og raun hafði verið mánuðina fyrir haustbólusetningarnar, því verður fylgst náið með hvort fyrra mynstur haldist og ekki settar hömlur á dreifingu bóluefnis þótt stórt átak sé ekki fyrirhugað að svo stöddu.

Sóttvarnalæknir