Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

15. september 2025

Kallað eftir betri gögnum um kynhegðun til að styðja við forvarnir gegn kynsjúkdómum í Evrópu

Sóttvarnastofnun Evrópu (ECDC) hefur gefið út nýja skýrslu þar sem lögð er áhersla á að bæta þurfi söfnun og samanburð gagna um kynhegðun til að styðja við forvarnir og viðbrögð gegn kynsjúkdómum í Evrópu.

Gögn frá vöktun sýna að tíðni kynsjúkdóma heldur áfram að aukast. Á milli áranna 2022 og 2023 fjölgaði tilfellum af lekanda um 31% og sárasótt um 13%, en klamydía er áfram algengasti bakteríusjúkdómurinn sem er tilkynnt um. Frá árinu 2014 hefur tilkynntum lekandatilfellum fjölgað um yfir 300% og tilfelli sárasóttar tvöfaldast og ónæmar lekandabakteríur halda áfram að breiðast út. Ungt fullorðið fólk, 20–24 ára, er hvað mest útsett. Margar sýkingar eru einkennalausar, sem eykur líkur á ómeðvituðu smiti.

Til að efla gögn til forvarna kortlagði ECDC 35 kannanir á kynhegðun sem framkvæmdar voru ESB/EES-svæðinu og í Bretlandi á árunum 2019–2024. Skýrslan greinir frá mikilvægum gagnasöfnum, þar á meðal endurteknum könnunum á borð við Health Behaviour in School Children (HBSC), sem framkvæmd er á öllu ESB/EES-svæðinu og í Bretlandi, bresku National Survey of Sexual Attitudes and Lifestyles (Natsal), sænsku UngKAB og hollensku könnuninni Sex Under 25. Niðurstöður benda til mögulegs samdráttar í notkun smokka meðal ungs fólks á aldrinum 15–25 ára.

Skýrslan undirstrikar einnig umtalsverðar áskoranir: Ósamræmi í hugtakanotkun, mismunandi aðferðafræði og takmarkaða samanburðarhæfi milli landa. Þessir veikleikar draga úr möguleikanum á að nýta gögnin að fullu við mótun markvissra og skilvirkra aðgerða.

Í skýrslunni leggur ECDC til:

  • Að samræma hugtök og viðmið í könnunum um kynheilbrigði

  • Að samþætta lykilspurningar um kynhegðun í evrópskar heilsukannanir;

  • Að bæta kerfi fyrir gagnamiðlun og samanburð milli landa til að fá skýrari mynd af Evrópusvæðinu

Í skýrslunni er komist að þeirri niðurstöðu að brýnt sé að efla söfnun og notkun gagna um kynhegðun til að skilja betur og takast á við helstu drifkrafta kynsjúkdóma í Evrópu.

Skýrslan í heild er aðgengileg hér: Kortlagning og yfirlit: Að nýta gögn úr könnunum um kynhegðun til að koma í veg fyrir kynsjúkdóma.

Sóttvarnalæknir